Nýárspredikun biskups Íslands í Dómkirkjunni 1. janúar 2021

1. janúar 2021

Nýárspredikun biskups Íslands í Dómkirkjunni 1. janúar 2021

Prédikun flutt í Dómkirkjunni 1. janúar 2021. 4. Mós. 6:22-27; Post. 10:42-43; Jóh. 2:23-25.

Við skulum biðja:
Jesús Kristur. Þar sem þú ert víkur óttinn og óvissan. Með þér viljum við byrja þetta nýja ár og taka á móti því sem það færir okkar af gleði og af sorgum. Lát hið nýja ár verða náðarár þar sem við lifum af gæsku þinni og gefum hana öðrum. Dýrð sé þér Drottinn. Amen.
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilegt nýtt ár 2021 og þakkir fyrir liðið ár 2020.

Á síðasta degi ársins rifjum við gjarnan upp það sem liðið er. Það sem hefur gefið okkur lífsfyllingu, það sem hefur reynt á okkur, það sem hefur þroskað okkur, glatt okkur og styrkt. Á fyrsta degi nýs árs horfum við til framtíðar, til þess sem við biðjum, vonum og væntum. Í raun gerist ekkert annað við áramót en að tala ársins færist upp um einn. Samt sem áður eru áramót stund sem við stöldrum við og hugsum oft um sem rétta tímann til að breyta lífi okkar og bæta það.
Nýársdagur er ekki eiginlegur helgidagur í kirkjunni þó við komum hér saman til fundar við Guð og hvert annað. Við komum saman til að þakka Guði og lofa Guð. Til að biðja um vernd og leiðsögn á nýja árinu. Áramót snerta enda strengi í hjarta okkar til dæmis þegar við syngjum með trega sálminn góða, „nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka“. Tækifæri umliðins árs eru runnin okkur úr greipum en við hugsum til þess að nýta þau tækifæri sem nýja árið færir okkur, okkur og samferðafólki okkar til gagns og gleði.

Það fer vel á því að fyrsti textinn sem lesinn er úr Biblíunni á nýju ári í kirkjum landsins séu blessunarorðin sjálf. Þau eru nefnd hin Aroníska blessun enda eru þau gefin Móse til að ávarpa bróður sinn Aron og syni hans. Með þessum orðum erum við send út í heiminn eftir hverja guðsþjónustu til að vinna kærleiksverkin í trú og von á þann sem sagðist vera ljós heimsins, Jesú Krist. Enn höldum við heilög jól, fæðingarhátíð hans. Þau eru rétt hálfnuð þegar nýtt ár gengur í garð.
Hin kirkjulegu áramót voru fyrir rúmum mánuði. Þann fyrsta sunnudag í aðventu göngum við kristið fólk inn í nýtt ár sem hefst með undirbúningi fyrir fæðingu frelsarans. Á myrkasta tímanum fyrir vetrarsólstöður hefjum við ljósagönguna til hátíð ljóss og friðar. Við kveikjum á hverju kertinu á fætur öðru uns við finnum barnið í jötunni eins og hirðarnir forðum og vitringarnir.
Vissulega hefur birt enn hraðar þessa daga en venja er til því bóluefnið sem kveða á niður heimsfaraldurinn, er byrjað að berast til landsins. Fólkið sem vann hörðum höndum að því að móta samfélag okkar hefur verið bólusett, elsta fólkið sem dvelur á öldrunar- og hjúkrunarheimilum. Einnig hafa þau mörg verið bólusett sem hjúkra, lækna og líkna hinum veiku. Framlínufólkinu í heilbrigðisstéttunum, sjúkraflutningunum og almannavörnunum vil ég þakka fyrir allt er þið hafið lagt af mörkum í baráttunni við veiruna skæðu.

Við búum við gott velferðarkerfi hér á landi miðað við mörg önnur lönd þó alltaf megi gera betur. Fyrir nokkru var ég spurð að því hvort að þjóðkirkjan hefði hlutverki að gegna í nútímasamfélagi. Um það eru deildar meiningar sýnist mér þegar lesið er eða hlustað á hina ýmsa miðla sem nútíminn býður upp á. En fólkið í kirkjunni er þess fullvisst að hlutverk kirkjunnar er mikilvægt nú sem fyrr.
Hvert er hlutverk þjóðkirkjunnar? Um þjóðkirkjuna gildir það sama og um allar aðrar kristnar kirkjur að hlutverk hennar er að fara eftir því sem Jesús Kristur bauð og fram kemur í skírnarskipuninni svokölluðu. Þar felur hann lærisveinum sínum að fara og gera allar þjóðir að lærisveinum, skíra og kenna allt sem hann hafði boðið sínum lærisveinum. Skírnarskipunin er eins konar stjórnarskrá kirkjunnar sem allt starf hennar byggist á. Það er stundum tekið þannig til orða um kirkju Krists að hún sé ekki af þessum heimi þó hún sé í þessum heimi. Það þýðir að kristin kirkja á að hafa áhrif á einstaklinga, samfélög og samtíma sinn. En hún verður að vera trú þeim boðskap sem Kristur birti og boðaði og byggja brú frá honum til þess lífs sem fólk lifir á hverjum tíma.

Þess vegna lætur kirkjan í sér heyra þegar lífshættir jarðarbúa stefna jörðinni í átt að eyðileggingu, þegar fólk flýr heimkynni sín vegna óréttlætis af ýmsum toga, vegna fátæktar og hungurs eða hvers annars sem ekki styður við lífið og lánið. Margir söfnuðir kirkjunnar eru á grænni leið, þar sem fólkið í kirkjunni lætur að sér kveða til að breyta háttum okkar, jörðinni til heilla. Þjóðkirkjan lét einnig að sér kveða á heimsvísu með fjölsóttri fjögurra daga netráðstefnu í október, sem hafði höfuðstöðvar sínar í Skálholti, en fór fram í yfir 50 löndum. Um 500 þátttakendur tóku þátt, þar af margir af helstu trúarleiðtogum heims, frá kaþólskum, gyðingum, múslimum, búddistum, hindúum, bahai, og þannig mætti áfram telja. Helstu erlendu samtarfsaðilar kirkjunnar í verkefninu voru Religions for Peace og Umhverfisnefnd Sameinuðu þjóðanna. Þar átti þjóðkirkjan einnig í dýrmætu samstarfi hér innanlands við umhverfisráðuneytið og ríkisstjórnina, Sameinuðu þjóðafélagið á Íslandi, Skógræktina, Landgræðsluna, Bahaí hreyfinguna og fleiri trúfélög, aðila frá Guðfræðideild HÍ og fleiri frá háskólasamfélaginu. Ályktun ráðstefnunnar verður borinn upp á Umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna. Við höldum áfram á þessari leið, því saman getum við svo miklu meira.
Jesús sjálfur lét í sér heyra þegar honum mislíkaði framganga yfirvalda, þegar hann horfði upp á óréttlæti eða skort á kærleika. Hann braut viðteknar venjur eins og þegar hann læknaði á hvíldardegi. Hann benti á samhjálp þegar hann talaði um miskunnarverkin og endaði ræðu sína á að „allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér“. Hann talaði máli barna og kvenna sem höfðu ekki jafna stöðu og karlar í samfélaginu. Hann sagðist vera vegurinn, sannleikurinn og lífið og hann sagðist eftirláta okkur sinn frið. Allt þetta og miklu meira hét hann og kirkju hans ber skylda til að komda þessu erindi áfram til komandi kynslóða. Þetta eru meðal hinna sístæðu verkefna kirkjunnar, á öllum tímum. Vandasamt getur hins vegar verið að taka þátt í þjóðfélagsumræðunni, á hinum kristnu, trúarlegu forsendum. Ef kirkja og kristni verða pólaríseringu að bráð, þar sem boðskapnum er plantað í skotgrafir, er hætta á ferðum. Meðhöndlun hins kristna boðskapar þarf ætíð að vera í bæn og af auðmýkt, með hjartað heitt og opinn huga. Slíkt kærleiksorð á ætíð heima í umræðunni, en aldrei í skotgröfunum.
Þjóðkirkjan á Íslandi hefur síðan einnig skyldur umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Henni ber til dæmis að þjóna öllum, svo sem varðandi sálgæslu og sáttamiðlun, helgihald og fyrirbæn. Hennar er getið í almannavarnaráætlunum yfirvalda, þar sem þjónar kirkjunnar skulu sinna ákveðnum hlutverkum, í samstarfi við aðrar fagstéttir. Þannig mætti áfram telja, en allt starf þjóðkirkjunnar miðar að auknum félagsauði, miðlun ljóss og friðar. Þjóðkirkjan er stöðugt að finna nýjar leiðir til að þjóna samfélaginu sem best, og nú framundan er opnun dagseturs fyrir heimilislausar konur, Skjólið. Það verður starfrækt á vettvangi Hjálparstarfs kirkjunnar í kjallara Grensáskirkju í Reykjavík. Stefnt er að opnun þess fljótlega á nýju ári.Við erum stöðugt að leita nýrra leiða, feta nýjar slóðir í þjónustu, bæn og boðun.

Það hefur verið mikil áskorun fyrir þjóðkirkjuna sem og aðrar kirkjur heimsins að fóta sig á tímum samkomubanns. Kristin trú er samfélagstrú og því fer starf kirkjunnar að miklu leyti fram þar sem fólk kemur saman. Það hefur verið aðdáunarvert hvernig prestum, djáknum, organistum, kirkjukórum, sóknarnefndum og sjálfboðaliðum hefur tekist að koma þeim góða boðskap til skila sem kirkjan flytur. Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur fyrir að standa vaktina á erfiðum tímum og láta ekki deigan síga.

Undanfarna tvo mánuði hafa verið sendar út á samfélagsmiðlum um 300 helgar stundir frá prestaköllum landsins. Einnig hafa verið sendar út um 80 barnastundir. Það hefur verið ánægjulegt að verða vitni að samstarfi sókna á þessum vettvangi. Við höfum átt ánægjulegt samstarf við sjónvarpsstöðvarnar Hringbraut og N4 og samstarfið við RUV hefur aukist á aðventu og jólum miðað við það sem verið hefur allar götur frá upphafi síðast liðin 80 ár. 

Fólkið í kirkjunni hefur lagt sig fram um að sinna sínu við óvenjulegar aðstæður. Inn til dala, út við strendur, í dreifbýli sem og í þéttbýli hefur verið þjónað, boðað og beðið. Bænahringur myndar keðju um landið allt og trúi ég að þær bænir hafi verndað, blessað og styrkt marga í erfiðleikum nýliðins árs. Bæn er samtal við Guð. Bæn er tungumál vonarinnar. Bæn er lofgjörð og þakkargjörð til skaparans. Í hremmingum síðast liðins árs hefur bænin verið akkeri margra. Í náttúruhamförum, heimsfaraldri, atvinnuleysi og áskorunum lífsins hefur bænin fært hugarró og gefið styrk. Bæn er líka þakkarbæn. Guði er þakkað fyrir að yfirgefa okkur ekki. Jafnvel þó við finnum ekki návist Guðs í aðstæðum lífsins leyfir trúin okkur að vona og biðja. Við þökkum líka fyrir þau sem okkur eru kær og þau sem okkur hafa hjálpað. Nú skal þakka sjálfboðaliðunum öllum, körlum og konum um land allt sem eru í björgunarsveitum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og hjálparsveitum skáta sem eru boðnir og búnir hvenær sem kallið kemur til að bjarga og hjálpa. Starf ykkar er aðdáunar- og þakkarvert.
Jesús Kristur lét fólk alveg heyra það ef honum fannst það ekki vera að þjóna lífinu. Í textanum sem lesinn var úr Jóhannesarguðspjalli hér í þessari guðsþjónustu er hann staddur í Jerúsalem á páskahátíðinni. Fólk flykktist til Jerúsalem á páskum og fleiri trúarhátíðum. Einn þáttur í guðsdýrkuninni var að fórna skepnum og færa Guði korngjafir. Margir keyptu fórnardýr sem seld voru við musterið og þar fóru gjaldeyrisskipti fram því einungis var hægt að greiða musteristollinn með ákveðinni mynt. Þeir sem önnuðust gjaldeyrisskiptin voru nefndir víxlarar og áttu þeir það til að snuða fólkið. Þetta líkaði Jesú ekki og minnti á orðin í spádómsbók Amosar um að fórnir skiptu minna máli en réttlæti og sanngirni í annarra garð. Jesús rak fólk og skepnur út úr helgidóminum og hrinti borðum víxlaranna og átti í orðaskaki við ráðamenn Gyðinga. En eins og textinn sem lesinn var hér í dag greinir frá „fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði“, eins og segir þar.
Trú er ekki prívat. Hún er persónuleg. Trúin er ekki einkamál því hún hefur ekki aðeins áhrif á líf hins trúaða einstaklings heldur þeirra sem viðkomandi umgengst. Trú er lífsskoðun og þess vegna deilum við trú okkar með öðrum í samtali og sýnum hana í og með verkum okkar. Andleg leit er mikil í nútímanum og leitast margar sóknarkirkjur við að svara þeirri þörf þar sem aldagamlar hefðir og nútíma möguleikar eru viðhöfð.
Kirkjunni ber að boða trú, skíra og kenna. Athafnir kirkjunnar eru tengiliðir kirkjunnar við einstaklinga og heimilin. Skírnin er þakkargjörð fyrir lífið og bæn fyrir barninu og heimili þess. Þar er grunnur lagður að samfylgd trúar og einstaklings, kirkjunnar og einstaklingsins. Og þar sem sóknin er grunneining þjóðkirkjunnar er það hlutverk prests og sóknarnefndar á hverjum stað að tryggja þá fræðslu sem barninu ber. Þess vegna er fræðslustarf kirkjunnar frá vöggu til grafar eins og stundum er tekið til orða mikilvægt í starfi kirkjunnar um landið allt.
Samstaða hefur fleytt þessari þjóð í gegnum erfiða tíma. Samhugur hefur veitt þeim styrk sem orðið hafa fyrir áfalli, missi og sorg. Við höfum öll eitthvað gott fram að færa. Þekkingu, þjálfun, færni, trú, von og kærleika. Við höfum staðið saman á tímum heimsfaraldurs. Við skulum standa saman áfram.
Kristin trú elur ekki á ótta og kvíða. Þvert á móti er það í eðli hennar að treysta Guði fyrir öllu, stóru og smáu sem við mætum i lífinu. Matthías Jochumsson orti í sínum fallega áramótasálmi:

Í hendi Guðs er hver ein tíð,
í hendi Guðs er allt vort stríð,
hið minnsta happ, hið mesta fár,
hið mikla djúp, hið litla tár.

Felum þeim Guði sem Jesús birti og boðaði allt okkar ráð og dáð á nýju ári og um framtíð alla. Gleðilegt og farsælt ár 2021.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.


  • Biskup

Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra
Prestar og djáknar 2024

Presta- og djáknastefnan var sett í gær

17. apr. 2024
...í Stykkishólmi