Vandað til allra verka

10. febrúar 2021

Vandað til allra verka

Allt breytist - vandað er til verka - kirkjan er mósaíkmynd

Breytingar á vinnuaðstæðum og starfi geta haft margvísleg áhrif.

Ýmsar breytingar eru í aðsigi innan íslensku þjóðkirkjunnar sem munu eflaust hreyfa við starfsfólki hennar eins og gengur og gerist. Ný þjóðkirkjulög kallar á breytingar og endurskoðun á starfsreglum sem og öðrum nýjum reglum. Með sjálfstæðari kirkju koma nýir tímar. Sumir starfsmenn kunna því örugglega vel og aðrir síður.

Það er verkefni kirkjuþings þegar að því kemur að setja nýjar reglur og mikilvægt að það sem fyrr vandi ákvarðanir sínar.

Breytt starfsumhverfi blasir við. Það er tækifæri og áskorun sem og sameiginlegt verkefni að takast á við þjóðkirkjunni til heilla.

Norska kirkjan hefur á undanförnu misserum gengið í gegnum breytingar sem er vert að gefa gaum að. Sérstaklega hvaða áhrif þær hafa haft á starfsfólk kirkjunnar og þá einkum presta.

Breytingar hafa verið gerðar á guðsþjónustuformi, áherslum í trúaruppfræðslu, lögum og reglum í kjölfar aðskilnaðar ríkis og kirkju.

Í gær sagði norska blaðið Vårt land frá könnun í Noregi á meðal presta í sambandi við breytingar í kirkjumálum. Niðurstöður þeirrar könnunar eru athyglisverðar og kannski getur íslenska þjóðkirkjan eitthvað lært af þeim áður en til skarar verður látið skríða í breytingum innan veggja hennar.

Nokkru áður en kórónuveiran raskaði samfélaginu gerði séra Barbro Schmedling, sóknarprestur í Lambertseter-sókn í Ósló, könnun meðal presta þar sem hún spurði þá margvíslegra spurninga um það hvernig þeir upplifðu hversdaginn í starfi sínu eftir breytingar á kirkjuskipulaginu sem gengið hafa í gegn hin síðari ár. Úrtakið var kannski ekki stórt, 65 prestar, og spurningarnar voru 96. Þá hafði hún s.k. djúpviðtöl við fimm presta.

Og hvað sögðu þeir?

Prestarnir telja aukna skýrslugerð íþyngjandi og tímafreka. Sumir sögðu þessa vinnu bitna á heimsóknum til sjúkra og í heimahús – sem og annarra í sóknunum. Vinnuálag hefur aukist og er með öðrum hætti en áður. Nýja starfsfyrirkomulagi dragi úr hinum hefðbundnu verkþáttum prestsins og viðveru í safnaðarlífinu og lími þá við tölvuskjá inni á skrifstofunni.

Það sem var mest sláandi í rannsókninni að mati rannsakanda er að 40% prestranna eru í vafa um hvort þeir myndu velja aftur prestsstarfið í ljósi hins nýja starfsfyrirkomulags. Engu að síður eru prestarnir mjög svo sveigjanlegir og jákvæðir í sjálfu sér gagnvart breytingum til góðs. Þeir eru mjög trúir kirkjunni enda þótt hið nýja fyrirkomulag sé ekki eins og þeir vildu hafa það í einu og öllu.

Sr. Barbro bendir á að fyrrum hafi verið sterk áhersla á köllun og köllunarvissu þegar kom að embætti prestsins. Hversdagslegt líf prestsins og starfsvettvangur rann saman í því sem heitir embætti. Nú er litið á presta sem hverja aðra starfsmenn sem eigi að inna vinnu sínu innan ramma 35.5 tíma dagvinnuviku. Sé unnið lengur þarf að gera sérstaklega grein fyrir því á skýrslublaði. Þetta er áhyggjuefni að mati hennar. Hún tekur fram að hið sérstaka eðli prestsstarfsins sé meðal annars fólgið í því að erfitt geti verið að skipuleggja og tímasetja margt sem því fylgi.

Sumt af þessu kannast starfsfólk íslensku þjóðkirkjunnar eflaust við.

Norsk kirkjuyfirvöld telja nauðsynlegt að íhuga vel niðurstöður könnunar séra Barbro og hyggjast einnig kanna stöðuna á næstunni. Einnig er í bígerð mat á vinnutíma og vinnuskyldu prestanna. Jafnframt er lögð áhersla á að endurskoðun og breytingar séu liður í þróun og umbótum í kirkjulegu starfi. 

Til gamans eru hér nokkrar spurningar úr könnuninni og þær skýra sig sjálfar:

Í hve miklum mæli upplifir þú að breytt guðsþjónustuform hafi aukið við vinnu þina sem prestur?
(Súlur frá vinstri til hægri: Mikið, nokkuð mikið, nokkuð, í litlum mæli, veit ekki) - (Skjáskot.)

Í hve miklum mæli hefur þú upplifað ný starfskilyrði sem hagkvæm fyrir eðli prestsstarfsins?
(Súlur frá vinstri til hægri: Mikið, nokkuð mikið, nokkuð, í litlum mæli, veit ekki)  - (Skjáskot.)

Í hve miklum mæli hefur breyting á trúfræðslunni haft meiri vinnu í för með sér fyrir þig sem prest?
(Súlur frá vinstri til hægri: Mikið, nokkuð mikið, nokkuð, í litlum mæli, veit ekki)  - (Skjáskot.)

Í hve miklum mæli hefur þú upplifað að skipulagður starfstími og skýrslugerði taki tíma frá öðrum og mikilvægari þáttum í þjónustu þinni?
(Súlur frá vinstri til hægri: Mikið, nokkuð mikið, nokkuð, í litlum mæli, veit ekki)  - (Skjáskot.)

Vårt land / hsh


  • Frétt

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Erlend frétt

Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta