„Opnið kirkjur allar...“

15. febrúar 2021

„Opnið kirkjur allar...“

Stjórnarkonur í Safnaðarfélagi Áskirkju afhenda fermingarbarni Biblíu

Nú mega 150 manns koma saman til kirkjulegra athafna sé allra sóttvarnareglna gætt.

Ekki hefur verið annað að sjá á Feisbókarsíðum flestra kirkna undanfarna daga en að þessum tímamótum væri fagnað og ekki laust við að spenna væri í lofti.

Kirkjuhjólin snúast hægt af stað og örugglega. Víða voru guðsþjónustur í gær.

Kirkjan.is brá sér í Áskirkju í hinu nýja Laugardalsprestakalli. Prestarnir í því prestakalli skipta með sér verkum á sunnudögum. Nú sá sr. Sigurður Jónsson um þjónustuna í Áskirkju ásamt djáknanum, Jóhönnu Maríu Eyjólfsdóttur. Organisti var Bjartur Logi Guðnason og kór kirkjunnar söng. Að lokinni þjónustu í heimakirkju sinni hélt sr. Sigurður niður í Laugarnes. Prestur í Langholti, sr. Aldís Rut Gísladóttir, var að störfum í sinni kirkju.

Í Áskirkju hefjast guðsþjónustur kl. 9.30 og hélt sr. Sigurður að henni lokinni í Laugarneskirkju en þar var auglýst guðsþjónusta kl. 11.00. Nýtt prestakall kallar á nýtt skipulag.

Sr. Sigurður sagði að rúmir fjórir mánuður væru liðnir frá því að hefðbundið helgihald hefði farið fram í Áskirkju. Hann var eins og aðrir í kirkjunni að vonum glaður með að vera kominn til þjónustu.

Eflaust hefur þessi sálmur  hljómað víða í kirkjum landsins í gær eins og í Áskirkju enda vel við hæfi.  

Að lokinni guðsþjónustu afhentu stjórnarkonur í Safnaðarfélagi Áskirkju fermingarbörnum Biblíu að gjöf. Það skal og tekið fram að kirkjan.is sá ekki betur en að fermingarbörn á Seltjarnarnesi fengju líka Biblíu að gjöf í guðsþjónustu í gær. Fróðlegt væri að vita hve margir söfnuðir gefa fermingarbörnum sínum Biblíur – upplýsingar um það sendist á frettir@kirkjan.is.

Kirkjukaffi eftir guðsþjónustuna var tvískipt svo allar sóttvarnareglur væru í heiðri hafðar. Segja má að þetta hafai verið kirkjubollukaffi því að gómsætar rjóma- og súkkulaðibollur voru á boðstólum. 

Kirkjan.is fékk þessar upplýsingar hjá  próföstum

Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur í Austurlandsprófastsdæmi, sagði að tvær guðsþjónustur hefðu verið þar eystra í dag og svo yrði eitthvað um að vera á öskudag.

Prófastur í Suðurprófastsdæmi, sr. Halldóra J. Þorvarðardóttir, sagði að helgihald hefði verið víða haft um hönd, allt frá örstundum til hefðbundinna guðsþjónusta. Þá voru barnaguðsþjónustur haldnar á ýmsum stöðum.

Prófastur Kjalarnessprófastsdæmis, sr. Hans Guðberg Alfreðsson, sagði að guðsþjónustur hefðu verið í mörgum kirknanna og tiltók sérstaklega, Ástjarnarkirkju, Lágafellskirkju, Vídalínskirkju, Hafnarfjarðarkirkju, Víðistaðakirkju, Kálfatjarnarkirkju, Keflavíkurkirkju og Hvalsneskirkju. Síðasta sunnudag var guðsþjónusta á Útskálum. Sunnudagaskólinn er víða farinn af stað.

Prófastur Vestfjarðaprófastsdæmis, sr. Magnús Erlingsson, sagði að þau á norðanverðum Vestfjörðum hygðust byrja sunnudaginn 21. febrúar.

Sr. Dalla Þórðardóttir, prófastur í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi, sagði að aðstæður til sveita væru öðruvísi en í þéttbýli eins og í svo mörgu öðru. Víða sé ekki hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð vegna þess hve litlar kirkjurnar séu. Þess vegna hafi til dæmis söfnuðir í Skagafirði ákveðið enn um sinn að skipta með sér verkum og senda út helgistundir á netinu.

Prófasturinn í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi, sr. Jón Ármann Gíslason, sagði að guðsþjónusta hefði verið í Akureyrarkirkju, opin kirkja í Glerárkirkju, barnastarf í Glerárkirkju, Akureyrarkirkju, Ólafsfirði, Húsavík, Raufarhöfn og Þórshöfn.

Í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra voru guðsþjónustur í öllum kirkjum að sögn prófastsins, sr. Gísla Jónassonar. 

hsh


Svona auglýstu þau í Ástjarnarsókn

Myndir með frétt

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Trúin

  • Covid-19

Frá fundi aukakirkjuþings 2021 - Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings í ræðustól - mynd: hsh

Aukakirkjuþingi 2021 frestað

22. jún. 2021
...fjármálaumræða setti svip sinn á þingið
Biskup Íslands flytur blessun í lok vígslunnar - mynd: hsh

Fjölmenni við vígsluna

22. jún. 2021
...fallegt veður á Esjubergi
Kirkjuþingsfulltrúar á aukakirkjuþinginu - mynd: hsh

Aukakirkjuþing sett

21. jún. 2021
...þinginu lýkur síðdegis í dag