Minnisvarði um prestsfrú

17. febrúar 2021

Minnisvarði um prestsfrú

Taflmennirnir frá Ljóðhúsum á Skotlandi - kom prestsfrúin oddhaga að smíði þeirra? Minnismerki um hana mun sóma sér vel í Skálholti

Eitt af mörgum málum sem liggur fyrir Alþingi nú í ársbyrjun er tillaga um að heiðra minningu Margrétar hinnar oddhögu.

Þetta er þingsályktunartillaga  sem hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að heiðra minningu Margrétar hinnar oddhögu með því að reisa henni minnisvarða. Minnisvarðinn skal reistur í Skálholti verði því komið við. Ráðherra kynni áætlun þess efnis eigi síðar en á vorþingi 2021.

Málinu fylgir að sjálfsögðu greinargerð sem segir í fáum orðum hvað hér sé á ferð.

Hver var Margrét þessi?

Hún var miðaldakona, samtímakona hins merka biskups, Páls Jónssonar (1155-1211) – þess sem hin kunna kirknaskrá er kennd við – frá því um 1208. Eiginmaður hennar var Þórir nokkur, prestur í Skálholti. Hún var útskurðarmeistari, ef svo má segja. Biskupinn sendi erkibiskupinum í Niðarósi:

„byskupsstaf af tönn gervan svá hagliga, at engi maðr hafði fyrr sét jafnvel gervan á Íslandi, er smíðat hafði Margrét in haga, er þá var oddhögust allra manna á Íslandi.“ (Byskupasögur, fyrsta bindi, Skálholtsbyskupar, R. 1953, bls. 277).

Margrét skar margt út fyrir biskupinn – en hinn frægi húnn af biskupsstaf (bagli) Páls sem fannst í steinkistu hans árið 1954 er þó ekki hennar verk heldur enskur og þá úr stórborg með gróinni iðnaðarhefð eftir því sem miðaldafræðingar telja.

Menn hafa sett fram kenningu um að hönd prestsfrúarinnar Margrétar hafi komið að hinum merku taflmönnum sem fundust í Ljóðhúsum á Suðureyjum (á Lewis eyjum) árið 1831, norðvestan við Skotland. Flestir taflmannanna eru skornir í rostungstönn en sumir úr búrhvalstönn. Eru 78 þeirra úr manntafli en fjórtán eru líklega hnefataflsmenn.

Þeir Guðmundur G. Þórarinsson, verkfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, og Einar S. Einarsson, fyrrverandi forseti Skáksambands Íslands, hafa styrkt tilgátu um íslenskan uppruna taflmannanna með því að benda á að einungis í íslensku og ensku hefði verið haft biskupsheiti um taflmann og útlit hans dregið dám að biskupsskrúða. Ljóðhúsataflmennirnir hafa nefnilega þetta útlit og segja þeir að það sé glöggt merki um íslenskan uppruna þeirra. Guðmundur hefur jafnframt bent á það sem sagt er um Margréti hina högu í sögu Páls biskups og telur þar vera kominn nafnkunnan íslenskan útskurðarmeistara sem vel gæti hafa innt af hendi svo ágætt verk sem Ljóðhúsataflmennina.

Minnisvarði um þessa merku kona er góð hugmynd hvort sem hún kann nú að eiga taflmennina góðu eða ekki.

Kirkjan.is hafði samband við Karl Gauta Hjaltason, alþingismann, en hann er framsögumaður fyrir málinu á Alþingi, og spurði hvernig þetta mál hefði komið til.

„Ég hef verið tengdur skákhreyfingunni í áraraðir, sat m.a. í stjórn Skáksambands Íslands og var formaður Taflfélags Vestmannaeyja um árabil,“ svarar Karl Gauti, „þegar ég var í haust að vinna að tillögu til þingsályktunar um skákkennslu í grunnskólunum þá hafði ég mikið efni til að vinna úr og eitt af því var Margrét hin oddhaga, Ljóðshús-skákmennirnir og kenningar um uppruna þeirra.“ Hann segir að hugmyndin hafði fæðst í þessum hugsunum og honum hafi fundist tilvalið að leggja til að reisa Margréti minnisvarða enda fáar sögur til um listakonur á miðöldum. Karl Gauti segist hafa rætt málin við Guðmund G. Þórarinsson og síðar vígslubiskupinn í Skálholti, séra Kristján Björnsson.

Hann segist að enginn staður sé jafn vel fallinn fyrir minnisvarðann og Skálholt.

Kirkjan.is spyr hvenær verði mælt fyrir þessu athyglisverða máli og hvaða líkur séu á að það nái í gegn.

„Ég mun mæla með tillögunni næstu daga og síðan verður því vísað til nefndar og til umsagnar og þá fáum við viðbrögð,“ svarar hann og bætir við að auðvitað sé erfitt að segja til um hver afdrif málsins verði en hugmyndinni er þarna komið á framfæri og vel geti farið svo að fleiri verði hrifnir af henni og veiti þingsályktunartillögunni brautargengi. „Þess má geta að alls eru að þrettán þingmenn sem eru meðflutningsmenn á tillögunni úr þremur flokkum og meðal annars allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og þingmaður Samfylkingarinnar í kjördæminu,“ segir Karl Gauti í lokin.

Kirkjan.is bendir á að list- og verkmenntun hefur ekki verið nægur gaumur gefinn að áliti margra og því má segja að þetta sé kjörið tækifæri til að bæta úr því með mjög svo viðeigandi hætti: kalla fram úr sögunni prestsfrúna, Margréti hina oddhögu. Auk þess hallar frekar á konur þegar litið er til minnisvarða og styttna um merkisfólk. 

Kirkjan.is fagnar þessu skemmtilega máli og óskar þingmönnunum góðs gengis með það.

Málið verður á dagskrá Alþingis í dag, miðvikudag 17. febrúar - fyrri umræða.

hsh

 
Hin fræga steinkista Páls biskups í Skálholti: „Hann lét steinþró höggva ágæta hagliga, þá er hann var í lagðr eftir andlát sitt...“  (Byskupasögur, fyrsta bindi, Skálholtsbyskupar, R. 1953, bls. 261.)

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Fræðsla

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra