List og kirkja

3. mars 2021

List og kirkja

Altaristaflan umdeilda í Uggeløse-kirkju á Norður-Sjálandi - stef hennar er hringstigi – kannski Jakobsstigi – sem er upprisutákn; sjá nánar á heimasíðu kirkjunnar. Mynd: Kristeligt Dagblad

Það er margt sem getur orðið að þrætuepli í kirkjum.

Og ástæðan?

Kirkjan er fólki kær. Kirkjan er fólkið og fólkið hefur skoðanir. Oft skiptar skoðanir.

Kristeligt Dagblad sagði í gær frá sérstakri deilu sem kom upp í Uggeløse-kirkju á Norður-Sjálandi.

Þar var sett upp altaristafla árið 2009. Ekki hafi verið að sjá og heyra annað á þeim tíma en að fólk væri býsna ánægt með hana.

Nú vill meirihluti sóknarnefndarinnar losna við altaristöfluna og fá nýja. Reyndar segir sóknarnefndarformaðurinn nú að almenn óánægja hafi verið með altaristöfluna frá fyrstu tíð. Þáverandi sóknarnefnd hafi einnig verið gagnrýnd með val á listamanni og hvernig staðið hafi verið almennt að málinu.

Og ástæðan?

Listakonan, Anette Harboe Flensburg, sem gerði altaristöfluna hefur látið í ljósi efasemdir sínar um kristna trú og horft í ýmsar áttir í þeim efnum. En þetta gerði hún líka áður og þá um svipað leyti og altaristaflan var afhjúpuð.

Listakonan varð steini lostin þegar henni bárust fréttir af málatilbúnaði sóknarnefndarinnar.

„Trúin er mitt einkamál og kemur engum við,“ segir Anette, „ég er myndlistarkona og miðlunarform mitt er myndin. Ég get ekki sett jafnaðarmerki á milli þess sem ég trúi og myndarinnar sem ég fæst við hverju sinni.“ Anette telur að hún þurfi ekki að svara fyrir trú sína fyrir einum né neinum.

„Ef ég væri nú andstæðingur kirkjunnar og harður guðleysingi, þá myndi ég ekki mála myndir eins og þessa tilteknu altaristöflu,“ segir hún. „Ég er ekki sterktrúuð en sú heimspeki sem ég er höll undir tekur á verufræðilegum rökum og háspekilegum sem eru nátengd trúarlegum hugsunum sem og guðfræðilegum,“ segir hún. Þessa gætir og í mörgum verka hennar.

Anette segir að þessi aðgerð sóknarnefndarinnar sé mjög svo undarleg og veki upp margar spurningar um tjáningarfrelsi listamanna. Augljóst sé að sóknarnefndin og sóknarpresturinn túlki altaristöfluna nú í ljósi skoðana hennar og ummæla um trú og heimspeki. „Mér hefði kannski verið nær að halda aftur að mér og vera minna ærleg í því sem ég sagði um trúarafstöðu mína,“ segir hún hugsi.

Sóknarnefndin hugðist setja upp í stað altaristöflu Anette verk eftir vinsælan kirkjulistarmann, Arne Haugen Sørensen og myndefni þess var Kristur í Emmaus

En hvernig fór málið?

Sérfræðingar danska Þjóðminjasafnsins sögðust hafa skilning á málinu en voru ekki fylgjandi því að verkið yrði tekið niður. Kirkjulistanefnd dönsku kirkjunnar var sama sinnis.

Sóknarnefndin leitaði ásjár með erindi sitt hjá stiftinu á Helsingjaeyri. Málið var tekið fyrir og felldur sá úrskurður að altaristaflan skyldi standa.

Listakonan er að vonum ánægð. Söfnuðurinn verður að leysa málið eftir öðrum leiðum og sætta sig við altaristöfluna sem hefur svo sannarlega trúarleg stef eins og sjá má burtséð frá því hvaða trúarskoðanir listakonan hefur. Hins vegar eru margir á þeirri skoðun innan safnaðarins að „málinu sé hvergi nærri lokið“ eins og það heitir í fremstu víglínu á ögurstundu.

Kristeligt Dagblad / hsh


  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Erlend frétt

Sögur 2.jpg - mynd

Biblíusögur á Spotify

08. maí 2024
...gefnar út af Fossvogsprestakalli
Sr. Guðrún og frú Agnes

Nýkjörnum biskupi fagnað á biskupsstofu

07. maí 2024
...fjölmiðlum boðið til fagnaðarins
Guðrún Karls-ný mynd.jpg - mynd

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir kjörin biskup Íslands

07. maí 2024
...síðari umferð lauk í dag