Frestað til hausts

26. mars 2021

Frestað til hausts

Prestastefna Íslands í Wittenberg 2017 - gengið til Hallarkirkjunnar

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, hefur tilkynnt prestum og djáknum að presta- og djáknastefna sem boðuð var 13. -15. apríl n.k. verði frestað í ljósi sóttvarnareglna sem settar hafa verið nýverið. Engin presta- og djáknastefna var í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins.

Nýr tími presta- og djáknastefnu er 31. ágúst til 2. september.

Meginefni stefnunnar verður skírnin. Þátttakendur voru hvattir til að sækja norrænar vefstofur (málþing á netinu) um skírnina til undirbúnings fyrir umræðuefni stefnunnar. Þessum vefstofum verður fram haldið allt til í þriðju viku maímánaðar en þær eru fimm talsins - hugsanlega verður farið aftur af stað í haust með fleiri vefstofur. Þess má geta að í vefstofu 7. apríl n.k. sem er sú þriðja í röðinni mun séra Kristján Valur Ingólfsson, fyrrum vígslubiskup í Skálholti, vera einn af framsögumönnunum. Yfirskrift þeirrar vefstofu er: Blessun – ekki skírn. Gæti blessunarathöfn í stað skírnar verið kostur þegar foreldrar vilja ekki láta skíra? 

Dagskrá presta- og djáknastefnunnar verður kynnt þá nær dregur hausti og mun kirkjan.is greina frá því.

Í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá 1997 nr. 78 26. maí, segir þetta í 28. gr.:

Prestastefna
Biskup Íslands boðar til almennrar prestastefnu og er forseti hennar. Á prestastefnu eiga setu og atkvæðisrétt vígslubiskupar og allir starfandi þjóðkirkjuprestar skv. 33. gr., svo og fastir kennarar guðfræðideildar Háskóla Íslands með guðfræðimenntun og guðfræðingar sem gegna föstum störfum á vegum þjóðkirkjunnar. Aðrir prestar og guðfræðingar eiga rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti enda séu þeir innan safnaða er starfa á játningargrundvelli evangelísk-lúterskrar kirkju. Á prestastefnu skal fjalla um málefni prestastéttarinnar, svo og önnur kirkjuleg málefni. Prestastefna hefur tillögu- og umsagnarrétt um mál er varða kenningu kirkjunnar og helgisiði og annars heyra undir biskup og kirkjuþing...

Biskupar, prestar og djáknar skipa hina vígðu þjónustu kirkjunnar - eða eins og segir í innri samþykktum þjóðkirkjunnar: „Hin vígða þjónusta er ein þótt mismunur sé á verkefnum og umboði biskups, prests og djákna.“


hsh


  • Covid-19

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Biskup

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut