Gos og kirkjugarðar

30. mars 2021

Gos og kirkjugarðar

Eldgosið í Geldingadölum - mynd: Bolli Pétur Bollason

Kórónuveirufaraldurinn hefur breytt lífi almennings með ýmsum hætti. Sett skorður við ferðalögum og samskiptum. Ýmsar menningarstofnanir eins og leikhús og kvikmyndahús hafa þurft að loka tímabundið – og viðburðir tengdir íþróttum eru ekki svipur hjá sjón frá því sem áður var enda vantar áhorfendur. Almennings- og heilsueflandi staðir hafa líka þurft að skella í lás, sundlaugar og líkamsrækt. Kirkjustarf hefur heldur ekki farið varhluta af þessu ástandi eins og kunnugt er og verið háð ýmsum takmörkunum. En almenningur virðir sóttvarnareglur og veit að þær eru settar til góðs. Kórónuveirufaraldurinn mun leggja upp laupana fyrr en síðar.

Hvað gerir fólk?

Kristeligt Dagblad sagði frá því fyrir skömmu að kirkjugarðar í borgum Danmerkur hefðu fengið óvenjumikið aðdráttarafl á kórónuveirutíma. Rannsókn á þessu var kynnt á kirkjugarðaráðstefnu fyrir nokkru. Það voru um fimm þúsund mannns sem tóku þátt í rannsókninni.

Í könnuninni kom fram að náttúran, hið græna umhverfi, skipti mestu máli fyrir þau sem fóru um kirkjugarðinn í Bispebjer í Kaupmannahöfn, og níu prósent þeirra komu þangað í trúarlegum eða andlegum tilgangi. Sagan og menning skiptu hins vegar mestu fyrir þau sem fóru um Assistenskirkjugarðinn í Kaupmannahöfn. Þá er þess að geta að borgaryfirvöld í Kaupamannahöfn vinna nú að því að breyta kirkjugörðunum meira í átt að almenningsgörðum án þess þó að skyggja um of á hinn upprunalega tilgang þeirra. Kirkjugarðar taka eðli máls samkvæmt mikið rými – og dýrmætt – í stórborgum og mörgum finnst það vera sóun á rými og líta á það sem vannýtt rými enda þótt nýtt sé svo sem augljóst er. Rætt hefur verið um hvernig megi láta fara saman annars vegar kirkjugarð í hefðbundinni merkingu og hins vegar sem veraldlegan afþreyingarstað fyrir fólk. Á fyrrnefndri kirkjugarðaráðstefnu kom það sjónarhorn fram að vel mætti sýna hinum látnu virðingu í kirkjugörðunum með öðru móti en kyrrð og daufum svip. Athafnasemi sem endurspeglaði lífsgleði og vonarríka bjartsýni gæti líka verið virðingarmerki.

Þess er þó skylt að geta að danskur almenningur hefur einnig leitað meira út í náttúruna en áður vegna kórónuveirufaraldursins. En kirkjugarðarnir hafa sem sé komið sterkir inn, eins og sagt er. Fjöldi fólks fer um þá og nýtur þess að ganga um og virða fyrir sér falleg leiði og minningarmörk af ýmsum toga. Þetta á við um borgir og bæi í Danmörku. Hinn kunni fyrrnefndi kirkjugarður í Bispebjerg hefur skyndilega skotist upp á stjörnuhimininn og er orðinn hotspot miðað við þann fjölda sem þar hefur farið um upp á síðkastið enda þótt hann sé ekki langt frá útivistarparadísinni, Utterslev Mose, sem nýtur mikilla vinsælda.

En talandi um hotspot.

Eldgosið í Geldingadölum hefur auðvitað dregið að sér þúsundir manna. Varla til meira hotspot um þessar mundir. Fólk hefur þyrpst að gosstöðvunum, notið þessa stórkostlega goss sem er svo að segja í túnfæti suðvesturhornsins og gengið um úti í náttúrunni. Á kórónuveirutíma. Sóttvarnalæknir hefur sagt að hætta á smiti úti við sé minni en annars staðar en þó verði fólk að fara að öllu með gát.

En ekki fara allir að gosstöðvum.

Íslendingar eru lánsamir að búa við víðáttu í margvíslegum skilningi. Alls staðar til sjávar og sveita eru kirkjugarðar. Vel hirtur kirkjugarður er aðalsmerki hvers byggðarlags. Fólk vitjar leiða ættingja og vina. Kirkjugarðarnir segja líka sögu, sérstaklega gamlir garðar eins og Hólavallagarður við Suðurgötu í Reykjavík. Auk þess sem kyrrð og friður hvílir yfir þeim enda þótt fólk fari kannski þar meira um en áður. Þeir kalla á kyrrð og virðingu.

Gjarnan má benda fólki á sem ekki fer að gosstöðvunum eða því sem búið er að fara, að ganga um kirkjugarðana. Í þeim eru heppilegar og fallegar gönguleiðir sem eru við hæfi hvers og eins göngumanns. Kirkjugarðarnir eru á vissan hátt prédikun út af fyrir sig og margar vangaveltur um lífið og tilveruna vakna þegar gengið er um þá. Svo eru krókusarnir í þeim farnir að gægjast upp. Lífið. Upprisan.

Þá er auðvitað alltaf hægt að sjá eldgosið í beinni útsendingu  eins og kunnugt er. Það er glæsileg sýn - og enginn veit svo sem hve lengi það stendur. En kirkjugarðarnir eru náttúrlega á sínum stað áfram - og verða það.

KristeligtDagblad/hsh


Lágafellskirkjugarður í Mosfellsbæ


Hafnarfjarðarkirkjugarður  varð hundrað ára á þessu ári - minnismerki um horfna, drukknaða og látna ástvini í fjarlægð


Kirkjugarðurinn við Miðdalskirkju - bekkir eru nauðsynlegir í kirkjugörðum


Skútustaðakirkjugarður


  • Erlend frétt

  • Frétt

  • Samfélag

  • Trúin

  • Umhverfismál

  • Covid-19

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra