Starfið blómstrar

6. apríl 2021

Starfið blómstrar

Efsti hluti af blómstrandi krossi í fjölskyldumessunni

Fyrir nokkru var sameiginleg fjölskyldumessa safnaðanna á Stöðvarfirði og í Breiðdal.

„Í þessari fjölskyldumessu er fjölskylda ekki þessi týpíska kjarnafjölskylda,“ segir sr. Dagur Fannar Magnússon, prestur í Heydölum. „Við erum öll fjölskylda í Kristi þegar við komum saman í kirkjunni. Það má með sanni segja að sú hugsjón hafi gengið gríðarlega vel eftir því að fólk á bókstaflega öllum aldri kom saman í kirkjunni þetta þriðjudagskvöld og öll hjálpuðumst við að leysa hin og þessi verkefni, ungir sem gamlir.“

Sr. Dagur Fannar segist hafa fundi fyrir mjög sterkri safnaðarvitund

„Allir lögðu sitt af mörkum,“ segir sr. Dagur Fannar, „Hópur fólks kom með mat, súpu, brauð og álegg og gaf það til safnaðarins sem og vinnu sína í eldhúsinu, og tók líka virkan þátt í helgihaldinu.“ Þá hafi fólk á öllum aldri lagt sitt fram til að undirbúa stundina og til að ganga frá eftir að henni var lokið.

En hvernig fjölskyldumessa var þetta? Gefum sr. Degi Fannari orðið:

Í kirkjunni og safnaðarheimilinu voru sex stöðvar sem svo eru kallaðar – hver stöð hefur sín sérkenni og verkefni.

Stöðvarnar
Á fyrstu stöðinni var verið að föndra fiðrildi og blóm. Fiðrildin og blómin átti síðan að hengja á kross sem var alsettur nöglum og táknar þjáningarkrossinn. Eftir að búið var að hengja fiðrildi og blóm á krossinn var hann umbreyttur, umskapaður og var því orðinn kross upprisunnar, kross vonarinnar. Því lífshringur fiðrildisins er táknrænn fyrir umbreytinguna, fyrst erum við lirfur sem geta táknað líf okkar í syndinni þar sem við erum kreppt undir valdi syndarinnar, síðan breytumst við í púpu, í púpunni er lirfan án skynjunar einfaldlega eins og sé dauð, svolítið eins og Kristur í gröfinni. Eftir ákveðinn tíma vaknar hún aftur til lífsins og kemur út úr púpunni sem táknar gröfina, en hefur þá öðlast nýtt líf, þetta er enn sama lirfan en hefur verið umsköpuð og er algjörlega ný sköpun. Blómin tákna svo fjölbreytileika okkar manneskjunnar en þegar upp er staðið erum við öll blóm sem Guð skapaði og göngum öll í gegnum sammannlega reynslu, þjáningu, gleði, sorg og fögnuð á mannsævinni og því eiga blómin öll heima á krossinum, bæði á þjáningarkrossinum og krossi upprisunnar.

Á annarri stöðinni var verið að hnýta og flétta vinabönd. Vinaböndin voru fléttuð saman úr ýmsum litum og sátu margir lengi við og fléttuðu fögur vinabönd. Ég sé fyrir mér að vinaböndin tákni eilífa vináttu og fjölskyldubönd, því böndin eru oftar en ekki bundin í hring sem er tákn eilífðarinnar. Litirnir geta eins og blómin táknað fjölbreytileika okkar sem einstaklinga í vinahópum og fjölskyldu en geta einnig táknað hinar ýmsu tilfinningar manneskjunnar.

Á þriðju stöð var svo verið að búa til grímur. Margar þeirra voru settar upp á krossinn, en þær tákna fyrst og fremst persónuleika okkar; við getum sett upp margar grímur og verið margt þótt að undir niðri felist hið sanna sjálf. Einnig má setja inn í þetta þrenningarkenninguna þar sem Guð er einn en setur upp þrjár mismunandi grímur eða persónuleika til þess að birtast manneskjunni.

Fjórða stöðin var „að hoppa“ Faðir vorið, þá er það gert þannig að setningar úr Faðir vorinu eru lagðar á gólfið og fólk hoppar á milla blaðanna á gólfinu í réttri röð.

Fimmta stöðin var svo „poppstöð“ þar sem hægt var að dýfa poppinu í glassúr í mörgum litum.

Sjötta stöðin
var tilfinningastöð. Þar var búið að koma fyrir mörgum glösum með vatni í alls konar litum. Litirnir táknuðu tilfinningar og var hvert glas merkt einhverri tilfinningu. Síðan gat hver og einn farið með glas og tekið tilfinningar sem þeim fannst líf sitt hafi einkennst af og tilfinningar sem þau vildu að líf sitt myndi einkannast af héðan í frá. Því næst komu þau að skírnarlauginni og helltu tilfinningum sínum ofan í laugina, lögðu hendurnar ofan í hana og fengu persónulega blessun og uppörvun. Prédikað var um efni stöðvanna rétt fyrir matinn. 

Í lokin snæddu allir saman súpu og brauð.

Var stundin vel sótt? spyr kirkjan.is

„Það mættu rúmlega fimmtíu manns í fjölskyldumessuna en það er u.þ.b 14% af byggðarlögunum tveimur,“ segir sr. Dagur Fannar.

Á Stöðvarfirði búa um 180 manns.

Á Breiðdalsvík búa um 130 og þar fjölgar frekar en hitt og sveitirnar í kring telja um fimmtíu manns – og þessar byggðir teljast vera Breiðdalurinn.

En vel heppnaðar stundir í kirkjunni gerast ekki án undirbúnings.

„Það fór slatti tími í að undirbúa þetta en ég held að ekki þurfi að eyða eins miklum tíma í þetta í næstu skiptin,“ segir sr. Dagur Fannar og er á léttu nótunum. Æfingin skapar nefnilega meistarann í þessu sem öðru! Hann segist líka hafa fengið góðan stuðning frá sr. Hildi Björk Hörpudóttur, sviðsstjóra á fræðslu- og kærleiksþjónustusviði Biskupsstofu, og er afar þakklátur fyrir það.

„Við stefnum á að hafa fjölskyldumessu í þessum dúr síðasta þriðjudag í hverjum mánuði í Stöðvarfjarðarkirkju og Heydalakirkju til skiptis yfir vetrarmánuðina“, segir sr. Dagur Fannar.

Sr. Dagur Fannar segir að næsta fjölskyldumessa sé fyrirhuguð í lok mánaðarins ef kórónuveiran setur ekki enn meira strik í reikninginn en hún hefur gert hingað til.

„Þá hafði ég hugsað mér að gera skýjaluktir sem verður sleppt á Einarshátíð, hver og einn skrifar bænar efni sitt á skýjaluktina og sleppir henni upp til himna,“ segir sr. Dagur Fannar.

Kirkjan.is spyr hvað skýjalukt sé.

„Þetta er í raun fljúgandi lampi, svífur eins og loftbelgur til himins. Það er hægt að gera þá umhverfisvæna og við stefnum á að þeir verði það,“ svarar sr. Dagur Fannar og sendi með þetta skemmtilega myndband sem sýnir um hvað er verið að tala.

Starf kirkjunnar er svo sannarlega öflugt á Austurlandi - í Austfjarðaprestakalli. Spennandi verður að fylgjast með næstu fjölskyldumessum og óskar kirkjan.is sr. Degi Fannari góðs gengis með þær - sem og öllu samstarfsfólki hans.

hsh


Hér sést krossinn blómstrandi í fullri stærð


Hér rennur altariskrossinn saman við hinn blómstrandi kross


Svo var annar kross sem minnti á krossfestinguna og þjáninguna