Vorboðinn

19. apríl 2021

Vorboðinn

Ferming í Akraneskirkju 18. apríl 2021 - fermingarbörn ganga til kirkju - mynd: hsh

Flestar fermingar fara fram að vori. Þær eru vorboði, bæði í kirkju og samfélagi. Sumardagurinn fyrsti er líka í þessari viku og hann er vinsælll fermingardagur. Mörg börn hafa þegar verið fermd.

Kórónuveiran hefur truflað fermingarstarfið en prestar hafa verið duglegir við að aðlagast breyttum aðstæðum og fermingarfræðslan haldið áfram þó stundum hafi hún tekið ýmsar beygjur. En alltaf haldið áfram og prestarnir ekki látið deigan síga.

Kirkjan.is var stödd fyrir utan Akraneskirkju í gærmorgun. Það skiptust svo sannarlega á skin og skúrir. Og hann kastaði líka éljum. Fjórir fermingarbarnahópar voru fermdir, fimm börn í einu á klukkutíma fresti og síðasti hópurinn kl. 13.00. Samtals tuttugu börn. Þau skutust á milli safnaðarheimilisins Vinaminnis og kirkjunnar, og sömu leið til baka í hvítu fermingarkyrtlunum sínum. Ganga þeirra var mishröð eftir því hvort sól skein yfir Skagann, kalsarigning helltist yfir eða élið dansaði í loftinu.

„Fjórir gestir voru með hverju fermingarbarni,“ segir sr. Þráinn Haraldsson, sóknarprestur á Akranesi, í Garða- og Saurbæjarprestakalli, þegar kirkjan.is spyr hann út í málin. Hann segir að flestir hafi kosið að halda þessum fyrirframákveðna fermingardegi með skilyrðum. Síðan verði fermt á hvítasunnu. „Svo eigum við tvær athafnir eftir í Innra-Hólmskirkju,“ segir sr. Þráinn.

Hvaða fermingarefni nota Skagamenn?

„Eigið efni, spjall og margvísleg verkefni,“ svarar sr. Þráinn að bragði.

Kirkjan.is hafði samband við nokkra presta vítt og breitt um landið og spurði út í fermingarnar. Hópurinn er tvískiptur - eins og í mörgum fermingum! Annar viðlíka stór hópur svarar á morgun. 

Sr. Sigríður Gunnarsdóttir, Sauðárkróki
„Fermingarbörnin á Króknum eru óvenju fá í ár, rúmlega tuttugu,“ segir sr. Sigríður Gunnarsdóttir, sóknarprestur á Sauðárkróki. Hún vonast til þess að fermingum ljúki á hvítasunnudag. „Ég er búin að ferma ellefu börn í þremur athöfnum, það gátu verið fimm kirkjugestir með hverju barni í fyrstu athöfninni og fjórir í tveimur næstu. Aðrir fjölskyldumeðlimir fylgdust með úr fjarlægð gegnum netið.“

Hún segist styðjast við fræðsluefnið Con Dios ásamt öðru efni sem hún hafi komið sér upp héðan og þaðan. „Í vetur horfðu krakkarnir á Markúsarguðspjall og gerði verkefni með frá honum Halldóri Elíasi Guðmundssyni djákna,“ segir hún í lokin og hafi það gefist vel.
Sr. Sigurður Grétar Sigurðsson, Útskálaprestakalli
„Fermingarbörnin eru 42 þetta árið,“ segir sr. Sigurður Grétar Sigurðsson, sóknarprestur að Útskálum, „og fermt verður 25. apríl ef ekkert breytist.“ Fermt var samkvæmt venju í sóknum hans 1. og 3. sunnudag eftir páska. Fermingarathafnir hjá sr. Sigurði eru samtals níu, fjögur til fimm börn fermd í hverri athöfn, og fjórir til fimm sem fylgja hverju barni.

Og fermingarfræðsluefnið?

„Námsefni úr ýmsum áttum eins og Nýja testamentið, efni í lausblaðamöppu frá presti, fönduráhöld, kvikmynd, myndbönd, söngtextablöð, og myndglærur frá presti,“ segir sr. Sigurður Grétar. Fermingarstarfið hjá sr. Sigurði Grétari hefst á fimm daga fermingarnámskeiði í Vatnaskógi.
Sr. María Gunnarsdóttir, Hvammstanga
„Fermingarbörnin hjá mér eru sjö og lýkur fermingum 13. júni,“ segir sr. María Gunnarsdóttir, starfandi sóknarprestur á Hvammstanga.

Þrjátíu manns mega vera við hverja athöfn og fermir hún tvö til þrjú börn í einu.

„Biblían, Kirkjulykillinn, Con Dios og margt fleira,“ segir sr. María þegar hún er spurð um fermingarnámsefnið sem hún hefur notast við.

Sr. Sigurður Ægisson, Siglufirði
„Þau eru sjö fermingarbörnin í ár,“ segir sr. Sigurður Ægisson, sóknarprestur á Siglufirði. Hann fermir á hvítasunnudag ef ekkert breytist. Fermingarefnið sem hann notar er Jesús – maðurinn sem breytti sögunni ásamt efni sem hann hefur sjálfur búið til.
Sr. Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavík
„Fermingarbörnin eru 44 hjá okkur,“ segir sr. Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavík og mun fermingum ljúka á hvítasunnu. Sr. Elínborg fermdi í gær 21 barn í fimm athöfnum og voru þrjátíu viðstaddir hverja athöfn svo sem reglur segja til um.

Námsefnið sem sr. Elínborg notar í fræðslunni er AHA! og Biblían. Auk þess notar hún eigið efni.

Sr. Magnús Erlingsson, sóknarprestur á Ísafirði
Sr. Magnús Erlingsson, sóknarprestur á Ísafirði og prófastur sagði að 23 fermingarbörn hefðu verið hjá sér í vetur í fræðslu og lýkur henni í maí.

„Í mars fórum við í fimm sólarhringa ferðalag í Vatnaskóg, sem tókst mjög vel,“ segir sr. Magnús. „Ég er reyndar búinn að ferma fimm börn. Það var gert á skírdag og þá í tveimur messum.“ Hann segir að altarisganga hafi verið um hönd höfði í fermingunni og sérbikarar notaðir til að tryggja sóttvarnir. Stefnt sé að því að ferma tíu börn á hvítasunnudag og kannski verði bara þrjár fermingarmessur þann daginn. Þá er ráðgerð ferming á sjómannadaginn og 17. júní. Í júlí og ágúst verður einnig fermt.

„Námsefnið í fermingarfræðslunni er byggt á efninu Lif með Jesú,“ , segir sr. Magnús . Hann segir að Gídeonmenn hafi komið í heimsókn og gefið fermingarbörnunum Nýja testamentið. „Í einn mánuð lásum við Markúsarguðspjall og unnum verkefni, sem Halldór Elías Guðmundsson, djákni, hefur unnið,“ segir sr. Magnús og bætir við hann hafi stundum útbúið eigin efni og fyrirlestra. „Ég reyni að hafa þetta fjölbreytt og skemmtilegt. Alla vega er ég sjálfur mjög ánægður með fræðslutímana enda eru börnin prýðisgóð og stillt. Unglingar í dag eru miklu stilltari en unglingar voru í gamla daga og það gera símarnir, sem krakkarnir grúfa sig ofan í áður en tíminn hefst. Það er alltaf dauðaþögn í safnaðarheimilinu enda þótt börnin séu mætt hálftíma áður en tíminn hefst.“

Sr. Ólöf Margrét Snorradóttir, sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli

„Um fimmtíu eru fermingarbörnin þetta árið,“ segir sr. Ólöf Margrét Snorradóttir, sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli. „Fermt er í Egilsstaðakirkju og svo á nokkrum útkirkjum, síðasta fermingin væntanlega í lok júlí.“

Sr. Ólöf Margrét segir að þau hafi haft þann hátt á í þeim fermingum sem afstaðanr eru að ferma færri börn í hverri athöfn og þá gátu um fimm manns fylgt hverju barni.

Hún segist styðjast við fermingarbókina Con Dios og AHA! – efnið.

Sr. Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur í Dómkirkjuprestakalli

„Fermingarbörnin eru fimmtán,“ segir sr. Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur í Dómkirkjusókn í Reykjavík. Hann segir að stefnt sé að ljúka fermingum á hvítasunnu og ef kórónuveiran fer á eitthvert flug þá verði boðið upp á fermingar í lok ágúst eða byrjun september.

„Við erum búin að ferma nokkur börn svo þetta verður nú ekki stór hópur,“ segir sr. Sveinn. „Sennilega munum við þó skipta þeim upp, þrjú til fjögur börn fermast í einu og þá mega sjö til átta manns fylgja þeim að því gefnu að 30 manna markið haldist.“

Þau í Dómkirkjusókn styðjast við heimagert fermingarfræðsluefni í samvinnu við Neskirkjusókn. Þá nota þau AHA! – fræðsluefni sem og heimasmíðað.

Síðsumars var sameiginlegt námskeið fyrir fermingarbörn Neskirkjusókn og Dómkirkjusókn. Fermingarkverið er gefið út árlega og byggir á eldra efni sem orðið hefur til í samvinnu þessara tveggja sókna.

Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur, Vídalínskirkju

„Það eru 220 börn sem fermast hjá okkur í Garðaprestakalli - þar af 183 í Vídalínskirkju,“ segir sr. Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Vídalínskirkju. „Fermingum mun ljúka 29. ágúst.“ 

„Við náðum að ferma 80 börn helgina áður en hægt var öllu og þá ákváðum við að hætta að ferma í bili og buðum upp á þessar tvær helgar, í lok maí og ágúst og munum vera með alls átta athafnir en þegar allt er talið þá verða þær fjórtán,“ segir sr. Jóna Hrönn og bætir því við að þau hafi verið alveg á móti því að ferma börnin í svona miklum hindrunum og ótta. Fermingin tæki allt árið ef aðeins væru fermd nokkur í einu. „Í mínum huga mínum er fermingin fjölskylduhátíð og mér finnst athöfnin og dagurinn missa marks ef fjölskyldan má ekki vera nærri til að gleðjast yfir og með barninu. Á þessum degi erum við m.a að valdefla unglingana og það er erfitt með nánast tóma kirkju,“ segir sr. Jóna Hrönn. Þá biðji margir fyrir því að allt komist sem fyrst í eðlilegt horf.

Hvað fermingarfræðsluna snertir segir sr. Jóna Hrönn að þau leggi mikla áherslu á að kenna biblíusögur vegna þess hversu takmörkuð kristindómsfræðikennslan sé í grunnskólunum. „Þetta kennsluefni mótum við sjálf með myndum og ýmsu öðru,“ segir hún, „börnin læra Faðir vorið, boðorðin tíu, tvöfalda kærleiksboðorðið og Gullnu regluna.“ Fræðsluefnið AHA! er líka notað. Þá kynjaskipta þau bæði fermingartímum og fermingarferðalaginu í Vatnaskóg.

Kórónuveiran truflaði allt kirkjustarf eins og kunnugt er og þar með talið fermingarstarf. „Þess vegna bjuggum við til efni til að senda út í hverri viku þegar börnin gátu ekki sótt tíma og streymdum frá viðburðum sem þau hefðu sótt undir eðlilegum kringumstæðum eins og frá fyrirlestri um líkamsvitund og óskastund fermingarbarna.“ Hún segir að í engu hafi verið slegið af og tekið hafi verið persónulegt viðtal við hvert barn í mars þar sem farið var yfir það sem þau áttu að læra utan að og biblíuþekking þeirra könnuð eftir veturinn. Sr. Jóna Hrönn segir að þau hafi verið ákaflega stolt yfir því hvað börnin voru vel að sér og það hafi verið gaman til þess að vita hve margir foreldrar höfðu horft á biblíufræðslumyndböndin með börnunum sínum.

Sr. Jón Ármann Gíslason, sóknarprestur á Skinnastað
„Fermingarbörnin eru fimm þetta árið,“ segir sr. Jón Ármann Gíslason, sóknarprestur á Skinnastað, „fermt verður 5. júní og 19. júní.“ Sr. Jón Ármann segist nota fermingarkverið Con Dios.

Sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir, sóknarprestur í Odda
„Fermingarbörnin eru sex að tölu í þetta sinn,“ segir sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir, sóknarprestur í Odda, og munu þrjú þeirra fermast sumardaginn fyrsta í tveimur athöfnum og þrjú á hvítasunnudag.

Fermingarefnið sem sr. Elína Hrund notar er aðallega AHA! og Biblían.

Sr. Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju
Í Akureyrarkirkju verða fermd 120 börn og hvert sumar koma alltaf einhver börn sem eiga rætur í bænum og láta ferma sig . „Við ráðgerum að klára fermingarnar sjómannadagshelgina, þá fyrstu í júní, þótt reikna megi með stökum fermingum í einkaathöfnum og við messur í sumar,“ segir sóknarpresturinn á Akureyri, sr. Svavar Alfreð Jónsson. „Nú eru reglurnar þannig að við megum skipta kirkjunni í tvö hólf og hafa 30 í hvoru“.

Fermingarefnið?

„Við erum með tvennskonar fermingarefni,“ segir sr. Svavar Alfreð, „Annars vegar förum við með krakkana í gegnum myndefnið í gluggum kirkjunnar. Þar er saga Jesú í sömu tímaröð og í guðspjöllunum ef farið er réttsælis um kirkjuna, þar eru atburðir úr íslenskri kirkjusögu, einnig í tímaröð og ennfremur ýmis grundvallartákn. Hins vegar reynum við að tengja trúna samtíðinni og lífi krakkanna með því að vinna með þeim verkefni og fara í leiki. Þá höfum við undanfarin ár boðið krökkunum upp á sjálfstyrkingarnámskeið sem tekur heilan laugardag.“ En kirkjan.is hafði samband við nokkra presta vítt og breitt um landið og spurði út í fermingarnar.

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogsprestakalli
„Fermingarbörnin eru 160 og verða öll fermd í fjórtán til fimmtán athöfnum í júní,“ segir sr. Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogsprestakalli. Fjöldi viðstaddra fer þá eftir því hvernig kórónuveirumálin standa.

„Við notum fjölbreytt námsefni héðan og þaðan,“ segir sr. Guðrún „til dæmis Con Dios – og Alfa-myndbönd.“

Sr. Gunnar Stígur Reynisson, sóknarprestur í Bjarnanesprestakalli
„Þau eru nítján fermingarbörnin hjá okkur,“ segir sr. Sr. Gunnar Stígur Reynisson, sóknarprestur í Bjarnanesprestakalli. „Fermingum lýkur um hvítasunnu nema hvað tvö börn verða fermd í sumar.“ Tvö börn hafa fermst í einu hingað til og þá gátu níu fylgt hverju barni fyrir utan kór og prest.

Sr. Gunnar Stígur sagði að vegna fjöldatakmarkana hefði verið streymt frá öllum fermingarathöfnum.

Fermingarfræðsluefnið sem stuðst er við er AHA! og Con Dios.

hsh

 

 

 

 

 

 

 

 


  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Covid-19

Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta