Mikilvæg bók

27. apríl 2021

Mikilvæg bók

Edda Möller, framkvæmdastjóri Skálholtsútgáfunnar - mynd: hsh

Skálholtsútgáfan hefur endurútgefið bók sr. Sigurðar Pálssonar, Börn og sorg. Hún var fyrst gefin út 1998 og seldist síðar upp.

Fljótlega kom í ljós að bókin Börn og sorg náði beint til fólks sem hefur þurft að tala við börn um andlát ástvina og þá sorg sem fylgir í kjölfarið. Bókinni var afar vel tekið vegna þess að í henni fjallar höfundur um börn og sorg af mikilli þekkingu og innsæi, nærfærni og skilningi. Bókin reyndist einkar heppileg ýmsum starfstéttum og var strax notuð í hjúkrunarnámi, uppeldisfræði- og kennaranámi, guðfræði- og djáknanámi, framhaldsskólum og hjálpar- og áfallahópum.

Sorgarmiðstöðin hvatti eindregið til endurútgáfu bókarinnar, aðstoðaði við útgáfuna og styrkti.

Edda Möller, framkvæmdastjóri Skálholtsútgáfunnar, þekkir vel til útgáfumála þegar kemur að útgáfu bóka er tengjast kristni og trú.

„Það var mjög brýnt að endurútgefa bókina Börn og sorg því að mikil eftirspurn var eftir henni,“ segir Edda þegar kirkjan.is ræddi við hana í dag. „Bókin er ómissandi hjálp í aðstæðum sem eru þungbærar og krefjandi,“ segir hún. Texti bókarinnar sé sígildur, málfar auðskilið og vandað. Það er ekki öllum gefið að ræða og skrifa um þann nístandi veruleika sem blasir við sumum börnum þegar þau missa til dæmis foreldri sitt eða systkini sín. Höfundur bókarinnar, sr. Sigurður, var ekki aðeins prestur heldur og kennari og uppeldisfrömuður sem hlustað var á.

Börn og sorg er 112 blaðsíður og er í þægilegu broti. Þetta er bók sem ætti að vera til í öllum skólum og kirkjum - reyndar sem víðast.

Skálholtsútgáfan hefur lagt sig fram um að gefa út bækur sem henta fólki í margvíslegum aðstæðum lífsins og fyrir fólk sem stendur á tímamótum í lífi sínu, til dæmis ef það horfist í augu við skilnað við maka. Þá hafa ýmsar bækur með hugleiðingum fyrir hvern dag ársins notið mikilla vinsælda, einnig bækur um börn og fyrir börn.

Skálholtsútgáfan er til húsa í Katrínartúni 4, fyrstu hæð.

Hver var sr. Sigurður Pálsson?
Sr. Sigurður Pálsson fæddist í Reykjavík 1936 og lést 2019. Hann lauk kennaraprófi og söngkennaraprófi 1957, guðfræðiprófi 1986 og doktorsprófi í menntunarfræðum 2008. Sr. Sigurður starfaði lengi sem kennari, var lögreglumaður, námsstjóri í kristnum fræðum og fíknivörnum, stundakennari við menntaskóla og Háskóla Íslands. Hann var vígður til prestsþjónustu í Hallgrímsprestakalli 1988 og þjónaði þar með hléum til ársins 2006 er hann lét af störfum. Hann samdi kennslubækur í kristnum fræðum og ritaði sögu Hallgrímskirkju. Sr. Sigurður var afar vel ritfær maður, snjall ræðumaður og fyrirlesari. Kona hans er Jóhanna G. Möller, söngkona, og áttu þau tvær dætur.

hsh

 


  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Umsókn

  • Frétt

Í Akraneskirkju - mynd: hsh

Auglýst eftir presti

12. maí 2021
Garða- og Saurbæjarprestakall
Hjálparstarf kirkjunnar rekur Skjólið

Starfið gengur vel

11. maí 2021
...konurnar ánægðar í Skjólinu
Hafnarfjarðarkirkja í gær: Frá vinstri: sr. Jón Helgi Þórarinsson, sr. Hans Guðberg Alfreðsson og sr. Jónína Ólafsdóttir - mynd: hsh

Innsetning

09. maí 2021
...hvað er nú það?