Jóhannes Møllehave látinn

13. maí 2021

Jóhannes Møllehave látinn

Jóhannes Møllehave (1937-2021) - Rithöfundurinn Einar Már Guðmundsson minnist hans: „Um leið og ég byrja að tala um Johannes þá bara opnast gáttirnar, hann var í stuttu máli frábær ...“ Mynd: Wikipedia

Jóhannes Møllehave (1937-2021) var áhrifamikill prestur og með þekktari rithöfundum Dana, prédikari, uppistandari og meðal annars sérfræðingur í Kirkegaard, H. C. Andersen, Shakespeare. Einnig í Íslendingasögunum. Hann lést 10. maí, 84 ára að aldri.

Jóhannes fæddist á Friðriksbergi í Kaupmannahöfn 1937 og lauk prófi í guðfræði 1963. Hann gaf út fjölda bóka og var vinsæll, umdeildur, og virtur af löndum sínum. Hann þjónaði sem prestur í dönsku kirkjunni, var meðal annars sóknarprestur, og fangaprestur, prestur Dana í Brussel.

Kirkjan.is hafði samband við Einar Má Guðmundsson, rithöfund, en hann þekkti Jóhannes Møllehave og bað hann um að minnast hans með nokkrum orðum sem hann brást fúslega við:

„Við Johannes Møllehave vorum góðir vinir. Við fórum víða saman og vorum með dagskrár, prógröm eða foredrag einsog Danir kalla það. Hann var alveg ótrúlegur miðlari, gat staðið í fullum íþróttasal með fólki á öllum aldri, úr öllum þjóðfélagshópum, og haldið erindi um Sören Kirkegaard, og allir hlustuðu. Þetta gerði hann með frásagnarlist og skáldskap, og mjög sennilega anda guðs, en þetta er allt samofið. Að minnsta kosti hjá Johannesi Møllehave, og humorinn, kímnigáfan, er vitskuld hluti af þessu öllu. Þekking hans á bókmenntum var yfirgripsmikil. Mest mat hann H. C. Andersen, Shakespear, Dostojevski, og þegar fram liður stundir Íslendingasögurnar. Hann varð algjör sérfræðingur í þeim, og þær mjög í hans anda, fullar af replikkum. Um leið og ég byrja að tala um Johannes þá bara opnast gáttirnar, hann var í stuttu máli frábær, en auðvitað ekki allra, fyrirferðarmikll og hávær fannst sumum, en ég veit og hef heyrt að margir sakna fyrirgangsins nú þegar rödd hans er hljóðnuð.“

Danir kölluðu Jóhannes stundum kulturfænonem.

Kristeligt Dagblad minntist hans með þeim orðum að enginn af kynslóð Jóhannesar Møllehave hafi mótað trú Dana eins og hann. Hann var óþreytandi fyrirlestrahaldari og mjög eftirsóttur. Mælskur og fullur af kímni og gamansemi sem hann blandaði með alvöru við hæfi. Møllehave hafði áhrif í dönsku samfélagi langt út fyrir kirkjulegar raðir. Allir gátu lesið og hlustað á Jóhannes Møllehave. Hann hafði alltaf eitthvað frumlegt og skemmtilegt, og umhugsunarvert í pokahorninu.

Hann var líka umdeildur maður. Gerði mikinn usla meðal íhaldssams kirkjufólks í Danmörku þegar hann lýsti því yfir að hann og kona hans, Herdis Møllehave (1936-2001) væru í opnu hjónabandi. Mörgum þótti líka ofuráhersla hans á kærleikann sem kjarna kristinnar trúar vera full léttvæg. Í viðtalsbók, Møllehave: et liv har fem akter, sem kom út 2002 kemst hann svo að orði, bls. 245: 

Ef þú elskar ekki þá skilur þú ekki neitt. Elska og að skilja er eitt og hið sama. Ef þú spyrð: Hver er tilgangur lífsins þá skaltu byrja á því að elska því að þá ferðu að skilja. Það er kærleikurinn sem veitir skilning.

Jóhannes kom nokkrum sinnum til Íslands. Ferðaðist um landið og flutti fyrirlestra, til dæmis um kímni í Norræna húsinu 1998 og um H.C.Andresen á sama stað ári síðar.

Blessuð veri minning Jóhannesar Møllehave.

hsh

Í Morgunblaðinu 27. apríl 2003 birtist gott viðtal við Jóhannes Møllehave sem Sigríður Hagalín Björnsdóttir tók.  • Frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Erlend frétt

Frá fundi aukakirkjuþings 2021 - Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings í ræðustól - mynd: hsh

Aukakirkjuþingi 2021 frestað

22. jún. 2021
...fjármálaumræða setti svip sinn á þingið
Biskup Íslands flytur blessun í lok vígslunnar - mynd: hsh

Fjölmenni við vígsluna

22. jún. 2021
...fallegt veður á Esjubergi
Kirkjuþingsfulltrúar á aukakirkjuþinginu - mynd: hsh

Aukakirkjuþing sett

21. jún. 2021
...þinginu lýkur síðdegis í dag