Legsteinn afhjúpaður

30. maí 2021

Legsteinn afhjúpaður

Legsteinninn afhjúpaður - fremst á myndinni er dr. Ágúst H. Bjarnason og á dúknum heldur Ásdís Kalman - mynd: hsh

Það var milt veður í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu, Hólavallagarði, þegar hópur fólks kom þar saman í gær til að taka þátt í stuttri athöfn við leiði Páls Ólafssonar (1827-1905), skálds. Litríkar regnhlífar voru á lofti og bros lék um andlit viðstaddra. Það var sumar í lofti þó sólin væri víðsfjarri. Þetta var ekki sorgarathöfn heldur mikla fremur gleðirík stund.

Leiði skáldsins hafði verið týnt í eina öld. Páll lést 1905 á Þorláksmessu í Reykjavík og var jarðsunginn í janúar 1906. Kona hans Ragnhildur Björnsdóttir hirti vel um leiðið og það var vaxið baldursbrám. Þegar hún andaðist 1918 tók enginn að sér umsjón leiðisins. Það týndist.

Dr. Ágúst H. Bjarnason, grasafræðingur, sagði frá því að einhverju sinni hefði hann gengið Laufásveginn með föður sínum sem var svo sem ekki í frásögur færandi. En þegar þeir gengu framhjá húsi einu hafi faðir hans sagt að þar hafi skáldið Páll látist. Hann hafi verið með hönd undir kinn í andlátinu. Ósk hans var sú að hann yrði grafinn í fósturstellingu. Það var gert. Kistan var kassalaga eða ferningslaga.

Tæknin gerði það kleift að kista Páls fannst. Dr. Ágústi flaug í hug að hægt væri að nota jarðsjá til að finna leiðið út frá lögun kistunnar.

Farið var með jarðsjá í þann hluta garðsins sem grafið var í á árabilinu 1903-1908. Jarðsjáin varð vör við kassalaga hlut undir einni kistu. Þar var örugglega kominn í ljós legstaður skáldsins. Eina kistan í garðinum sem var kassalaga.

Fenginn var steinsmiður til að smíða minningarmark sem er ferningur að lögun og minnir því á kistu skáldsins. Það er hátt í tonn að þyngd.

Við athöfnina í gær fór Jón Benedikt Guðlaugsson nokkrum orðum um skáldið. Oddur Sigurðsson söng nokkur lög. Dr. Ágúst H. Bjarnason sagði frá leitinni að leiðinu. Þess má geta að skáldið Páll var hálfbróðir langafa hans sem hvílir í næsta leiði við, Jóns Ólafssonar (1850-1916), ritstjóra.

Ásdís Kalman, barna-barnabarn skáldsins, afhjúpaði legsteininn en hann er verk steinsmiðsins Þórs Sigmundssonar.

Hákon Óskarsson, líffræðingur, flutti einnig stutta ræðu. Í lok ræðunnar hellti hann úr vínpela við legsteininn í minningu skáldsins. Páll orti margt um vín og þessa heims nautnir.

Í lokin var fjöldasöngur sem áðurnefndur Oddur stýrði og Gunnar Guttormsson. Viðstaddir tóku undir.

Þessi athöfn var að mörgu leyti einstök. Svo margt fólk samankomið til að fagna því að leiði skáldsins var fundið og öll þau sem komu að vinnu við gerðu það af mikilli gleði og tóku ekkert fyrir. Og margir lögðu fram fé til að kosta legsteininn góða 

Grasafræðingurinn, dr. Ágúst, benti viðstöddum á það í lokin að baldursbráin væri þegar farin að koma til við leiðið. 

hsh


Legsteinninn - gljáfægður í rigningunni - mynd: hsh