Vísitasía í myndum

4. júní 2021

Vísitasía í myndum

Helgafellskirkja - flaggað fyrir biskupnum yfir Íslandi þegar hann kemur til að vísitera - mynd: Þorvaldur Víðisson

Seinni dagur vísitasíu biskups Íslands, sr. Agnesar M. Sigurðardóttur, í Stykkishólmsprestakalli fór fram þriðjudaginn 1. júní s.l.

Í för með biskupi voru sr. Þorvaldur Víðisson, biskupsritari, sr. Gunnar Eiríkur Hauksson, sóknarprestur og prófasturinn sr. Þorbjörn Hlynur Árnason.

Leikskólinn í Stykkishólmi var heimsóttur og tekið var vel á móti gestunum. Spjallað var við stjórnendur og börn.


Leikskólinn hefur gert umhverfissáttmála


Sigrún Þórsteinsdóttir, leikskólastjóri, ræðir við biskup

Fastur liður í vísitasíum er kirknaskoðun og tekur hún oft tíma. Skoðunin er færð til bókar í sérstaka vísitasíubók. Rætt er við sóknarnefndarfólk um sitthvað er tengist kirkjustarfinu.

Helgafellskirkja var skoðuð. Kirkjan var smíðuð 1903 og hefur verið endurnýjuð að hluta. Hún er stórt timburhús með forkirkju og strýtuturni. Kirkjan er friðuð.

Í kirkjugarðinum er minningarmark um hinn kunna aflraunamann, Gunnar Salómonsson. Norðan við kirkjugarðinn er talið að Guðrúnar Ósvífursdóttur hvíli. 

Helgafellssókn er fámenn sókn.

Þegar gengið er á Helgafell er venja að ganga í þögn og ekki má líta aftur. Síðan þegar upp er komið á fólk að snúa sér í austur og óska sér einhvers. Svo mælir þjóðtrúin.