„Kærleikur og traust...“

7. júní 2021

„Kærleikur og traust...“

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, prédikar í Dómkirkjunni á sjómannadaginn 2021 - vinstra megin er heiðursfáninn og engin stjarna á honum enda drukknaði enginn sjómaður á liðnu ári við skyldustörf - mynd: hsh

Sjómannadagurinn er hátíðisdagur þjóðarinnar sem er fagnað með ýmsum hætti vítt og breitt um landið. Fánar blöktu við hún hér og þar í borginni og um allt land í gær, 6. júní.

Hluti af þessum hátíðarhöldum er hátíðarguðsþjónusta í Dómkirkjunni í Reykjavík þar sem biskup Íslands prédikar. Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, var viðstaddur guðsþjónustuna.

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir steig í prédikunarstól Dómkirkjunnar. Fulltrúar Landhelgisgæslunnar sáu um ritningarlestra. Dómkirkjupresturinn, sr. Sveinn Valgeirsson, þjónaði fyrir altari. Dómkórinn söng, söngstjóri og organisti var Kári Þormar. Um einsöng sá Magnús Már Björnsson. Guðsþjónustunni var útvarpað á Rás 1

Sr. Agnes óskaði sjómönnum til hamingju með daginn og bað þeim og fjölskyldum þeirra blessunar Guðs. Síðan rifjaði hún upp hvenær sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur en það var fyrir 84 árum, í Reykjavík og á Ísafirði.

Biskups sagði:

Markmiðið var að vekja þjóðina til meðvitundar um starfssvið sjómannastéttarinnar, lífskjör og gildi í þjóðfélaginu. Þeirra hugsun var að sjómannadagurinn yrði hvatning til nýrra viðhorfa og með honum kæmu nýir straumar sem hefðu áhrif á sjómannafélögin og þjóðlífið allt. Dagurinn átti að verða upphafið að því að áhrifa sjómanna gætti meira.

Síðan vék hún að gömlum siðum fyrr á tíma og óttanum:

Hér áður fyrr þegar menn fóru á vetrarvertíðina sem hófst 3. febrúar þótti sjálfsagt að biðja fyrir ferðinni og vertíðinni allri. Þá voru skipin illa búin til að takast á við krafta hafsins og óttinn um að skaði yrði blundaði í fólki. Óttinn er fylgifiskur okkar mannanna og allir finna fyrir ótta einhvern tímann á lífsleiðinni. Verst er þegar óttinn nær tökum á okkur og stjórnar líðan okkar og hugarástandi. Óttinn vekur upp í okkur varnarleysi og við eigum erfitt með að treysta bæði sjálfum okkur og öðrum.

Sr. Agnes fór nokkrum orðum um samstöðudaginn sem nítján trú- og lífsskoðunarfélög boðuðu til á laugardaginn, samstöðu til að efla baráttu og samhug vegna kórónuveirufaraldursins:

Undanfarið ár og rúmlega það hefur mannkyn allt verið á sama báti. Gengið í gegnum heimsfaraldur. Veiran skæða hefur ekki spurt um leyfi til að setjast að í líkama fólks og afleiðingarnar eru skelfilegar víða um heim og margir eiga um sárt að binda. .... Trúar- og lífsskoðunarfélög, sem stóðu að þessu átaki, sáu um viðburði, samkomur, bænahald eða aðrar uppákomur, hvert eftir sínum sið og venjum.

Biskup ræddi um að kirkjuganga hefði verið allt frá fyrstu tíð órjúfanlegur hluti af hátíðarhöldum sjómannadagsins og sagði:

Kirkjuhúsinu er líkt við skip. Það er talað um kirkjuskip. Skipstjórinn á því skipi er Drottinn sjálfur. Við erum flest hásetar á því skipi, þó einnig finnist þar vélstjórar sem sjá til þess að skipið geti siglt, stýrimenn sem beina því í rétta átt og kokkar sem sjá til þess að líkaminn haldi kröfum. Í þessu skipi erum við stödd í dag og tökum við boðskapnum sem hér er fluttur í tali og tónum. Boðskapnum sem segir að allt sé í almáttugri hendi Guðs sem getur breytt stormviðrinu í blíðan blæ, leitt sjómenn í höfn gegn um brotsjói og er nálægur þegar hættu ber að höndum.

Biskup dró saman boðskap sjómannadagsins í kjarnasetningu: 

Kærleikur og traust í stað óreiðu og ótta. Það er boðskapur sjómannadagsins sem við tökum með okkur út í hversdaginn.

Á sjómannadeginum er fáni í Dómkirkjunni með hvítum krossi. Inn í krossinn er sett stjarna fyrir hvern þann sjómann sem drukknar. Enginn drukknaði á síðasta ári við sjómennsku og því engin stjarna í fánanum. Sr. Agnes sagði:

Hér í Dómkirkjunni er fáni og sem betur fer eru engar stjörnur á honum því þegar þær eru, eru þær jafnmargar og fjöldi þeirra sem hlutu hina votu gröf á umliðnu ári. Nöfn þeirra fjölmörgu sem hafið hefur tekið og líf þeirra allra er geymt í hjarta Guðs. Við sameinumst í bæn fyrir þeim og ástvinum þeirra.

Guðsþjónustunni lauk svo á því að biskup veitti drottinlega blessun og lokasálmur var sunginn, Faðir andanna.


Forsetinn og biskupinn - dómkirkjupresturinn fyrir altari