„Kærleikur og traust...“

7. júní 2021

„Kærleikur og traust...“

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, prédikar í Dómkirkjunni á sjómannadaginn 2021 - vinstra megin er heiðursfáninn og engin stjarna á honum enda drukknaði enginn sjómaður á liðnu ári við skyldustörf - mynd: hsh

Sjómannadagurinn er hátíðisdagur þjóðarinnar sem er fagnað með ýmsum hætti vítt og breitt um landið. Fánar blöktu við hún hér og þar í borginni og um allt land í gær, 6. júní.

Hluti af þessum hátíðarhöldum er hátíðarguðsþjónusta í Dómkirkjunni í Reykjavík þar sem biskup Íslands prédikar. Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, var viðstaddur guðsþjónustuna.

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir steig í prédikunarstól Dómkirkjunnar. Fulltrúar Landhelgisgæslunnar sáu um ritningarlestra. Dómkirkjupresturinn, sr. Sveinn Valgeirsson, þjónaði fyrir altari. Dómkórinn söng, söngstjóri og organisti var Kári Þormar. Um einsöng sá Magnús Már Björnsson. Guðsþjónustunni var útvarpað á Rás 1

Sr. Agnes óskaði sjómönnum til hamingju með daginn og bað þeim og fjölskyldum þeirra blessunar Guðs. Síðan rifjaði hún upp hvenær sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur en það var fyrir 84 árum, í Reykjavík og á Ísafirði.

Biskups sagði:

Markmiðið var að vekja þjóðina til meðvitundar um starfssvið sjómannastéttarinnar, lífskjör og gildi í þjóðfélaginu. Þeirra hugsun var að sjómannadagurinn yrði hvatning til nýrra viðhorfa og með honum kæmu nýir straumar sem hefðu áhrif á sjómannafélögin og þjóðlífið allt. Dagurinn átti að verða upphafið að því að áhrifa sjómanna gætti meira.

Síðan vék hún að gömlum siðum fyrr á tíma og óttanum:

Hér áður fyrr þegar menn fóru á vetrarvertíðina sem hófst 3. febrúar þótti sjálfsagt að biðja fyrir ferðinni og vertíðinni allri. Þá voru skipin illa búin til að takast á við krafta hafsins og óttinn um að skaði yrði blundaði í fólki. Óttinn er fylgifiskur okkar mannanna og allir finna fyrir ótta einhvern tímann á lífsleiðinni. Verst er þegar óttinn nær tökum á okkur og stjórnar líðan okkar og hugarástandi. Óttinn vekur upp í okkur varnarleysi og við eigum erfitt með að treysta bæði sjálfum okkur og öðrum.

Sr. Agnes fór nokkrum orðum um samstöðudaginn sem nítján trú- og lífsskoðunarfélög boðuðu til á laugardaginn, samstöðu til að efla baráttu og samhug vegna kórónuveirufaraldursins:

Undanfarið ár og rúmlega það hefur mannkyn allt verið á sama báti. Gengið í gegnum heimsfaraldur. Veiran skæða hefur ekki spurt um leyfi til að setjast að í líkama fólks og afleiðingarnar eru skelfilegar víða um heim og margir eiga um sárt að binda. .... Trúar- og lífsskoðunarfélög, sem stóðu að þessu átaki, sáu um viðburði, samkomur, bænahald eða aðrar uppákomur, hvert eftir sínum sið og venjum.

Biskup ræddi um að kirkjuganga hefði verið allt frá fyrstu tíð órjúfanlegur hluti af hátíðarhöldum sjómannadagsins og sagði:

Kirkjuhúsinu er líkt við skip. Það er talað um kirkjuskip. Skipstjórinn á því skipi er Drottinn sjálfur. Við erum flest hásetar á því skipi, þó einnig finnist þar vélstjórar sem sjá til þess að skipið geti siglt, stýrimenn sem beina því í rétta átt og kokkar sem sjá til þess að líkaminn haldi kröfum. Í þessu skipi erum við stödd í dag og tökum við boðskapnum sem hér er fluttur í tali og tónum. Boðskapnum sem segir að allt sé í almáttugri hendi Guðs sem getur breytt stormviðrinu í blíðan blæ, leitt sjómenn í höfn gegn um brotsjói og er nálægur þegar hættu ber að höndum.

Biskup dró saman boðskap sjómannadagsins í kjarnasetningu: 

Kærleikur og traust í stað óreiðu og ótta. Það er boðskapur sjómannadagsins sem við tökum með okkur út í hversdaginn.

Á sjómannadeginum er fáni í Dómkirkjunni með hvítum krossi. Inn í krossinn er sett stjarna fyrir hvern þann sjómann sem drukknar. Enginn drukknaði á síðasta ári við sjómennsku og því engin stjarna í fánanum. Sr. Agnes sagði:

Hér í Dómkirkjunni er fáni og sem betur fer eru engar stjörnur á honum því þegar þær eru, eru þær jafnmargar og fjöldi þeirra sem hlutu hina votu gröf á umliðnu ári. Nöfn þeirra fjölmörgu sem hafið hefur tekið og líf þeirra allra er geymt í hjarta Guðs. Við sameinumst í bæn fyrir þeim og ástvinum þeirra.

Guðsþjónustunni lauk svo á því að biskup veitti drottinlega blessun og lokasálmur var sunginn, Faðir andanna.


Forsetinn og biskupinn - dómkirkjupresturinn fyrir altari



Kvöddu kirkjugesti með brosandi augum - sóttvarnir virtar og grímuskylda í kirkjunni 


Margir starfsmenn Landhelgisgæslunnar sóttu guðsþjónustuna - stilltu sér upp fyrir utan kirkjuna 


Í Dómkirkjunni á sjómannadaginn 2021

hsh

Hér er ræða biskups í heild sinni

Prédikun flutt í Dómkirkjunni á sjómannadag 6. júní 2021.
Textar: Davíðssálmur 107.1-2, 20-31; Postulasgan 27.13-15; 20-25; Matteusarguðspjall 8.23-27.


Við skulum biðja: Drottinn Guð. Þú sem hastar á vinda og vatn og þau hlýða. Ver okkur nærri og lát okkur muna að þakka þér og treysta, í Jesú nafni. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ég óska sjómönnum til hamingju með daginn og bið Guð að blessa ykkur og fjölskyldur ykkar.

Það eru 84 ár frá því sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur hér á landi, fyrst hér í Reykjavík og á Ísafirði en fleiri staðir við sjávarsíðuna bættust við. Fyrst var dagurinn haldinn hátíðlegur 2. í hvítasunnu en lengst af fyrsta sunnudag í júní nema þegar hvítasunnudag ber upp þann dag, þá er sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur 2. sunnudag í júní.

Sjómannadagurinn tók að nokkru leyti við af 11. maí sem var hinn gamli lokadagur vetrarvertíðar hjá árabátum og síðar vélbátum. Skútur og togarar héldu áfram veiðum til maí loka og var þá farið að undirbúa sumarið. Þótti því byrjun júní mánaðar vel fallin til hátíðarhalda Sjómannadagsins. Frumkvöðlar þessa dags settu starfinu stefnu. Markmiðið var að vekja þjóðina til meðvitundar um starfssvið sjómannastéttarinnar, lífskjör og gildi í þjóðfélaginu. Þeirra hugsun var að sjómannadagurinn yrði hvatning til nýrra viðhorfa og með honum kæmu nýir straumar sem hefðu áhrif á sjómannafélögin og þjóðlífið allt. Dagurinn átti að verða upphafið að því að áhrifa sjómanna gætti meira. Sjómenn vildu vekja athygli á því að afkoma og velmegun þjóðarinnar byggðist á starfi þeirra og að þau verðmæti sem sjómennska og siglingar færðu þjóðarbúinu væru undirstaða menningarlífs í landinu. Einnig vonuðust menn eftir því að samstarf og skilningur á milli hinna mörgu og ólíku atvinnustétta myndi aukast.

Margt hefur breyst á þessum 84 árum sem sjómannadagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur en manneðlið hefur ekki breyst. Enn býr í brjósti nútímamannsins sú löngun að lifa góðu og gjöfuli lífi sjálfum sér og sínum til gleði og láta gott af sér leiða til hagsbóta fyrir samfélagið. Sjómenn hafa svo sannarlega mótað samfélögin við sjávarsíðu þessa lands. Þeir hafa ekki aðeins fært björg í bú heldur einnig mótað lífstakt fólksins sem þar býr.

Allt frá fyrstu tíð hefur kristin kirkja verið sér meðvitandi um nálægð mannsins við hafið. Við heyrðum í guðspjalli dagsins um ferð Jesú og lærisveinanna yfir Geneseretvatnið og síðasti sunnudagur eftir þrettánda er í kirkjunni nefndur bænadagur að vetri í kirkjunni. Hér áður fyrr þegar menn fóru á vetrarvertíðina sem hófst 3. febrúar þótti sjálfsagt að biðja fyrir ferðinni og vertíðinni allri. Þá voru skipin illa búin til að takast á við krafta hafsins og óttinn um að skaði yrði blundaði í fólki. Óttinn er fylgifiskur okkar mannanna og allir finna fyrir ótta einhvern tímann á lífsleiðinni. Verst er þegar óttin nær tökum á okkur og stjórnar líðan okkar og hugarástandi. Óttinn vekur upp í okkur varnarleysi og við eigum erfitt með að treysta bæði sjálfum okkur og öðrum.

Það sést vel í guðspjalli dagsins að lærisveinar Jesú voru ekkert öðruvísi en annað fólk hvað þetta áhrærir. Jafnvel þó þeir hafi verið með honum daglega í þó nokkurn tíma, orðið vitni að því að hann læknaði sjúka og tók málstað þeirra sem minna máttu sín voru þeir ofurseldir óttanum þegar náttúruöflin tóku yfirhöndina og þeir töldu sig hafa misst stjórnina á bátnum og aðstæðunum.

Við þekkjum sennilega öll þessa tilfinningu sem grípur okkur þegar vanmátturinn hellist yfir og við ráðum ekki við aðstæður. Undanfarið ár og rúmlega það hefur mannkyn allt verið á sama báti. Gengið í gegnum heimsfaraldur. Veiran skæða hefur ekki spurt um leyfi til að setjast að í líkama fólks og afleiðingarnar eru skelfilegar víða um heim og margir eiga um sárt að binda. Í gær sameinuðust 19 trúfélög um að bjóða öllum landsmönnum að halda dag samstöðu vegna heimsfaraldursins. Trúar- og lífsskoðunarfélög, sem stóðu að þessu átaki, sáu um viðburði, samkomur, bænahald eða aðrar uppákomur, hvert eftir sínum sið og venjum. Í tilkynningu frá þeim sagði: „Verum samhuga og minnumst fórnarlamba faraldursins, stöndum nær þeim sem þjást, réttum hjálparhönd þar sem þörfin eru mest og þökkum fyrir fórnfúst starf svo margra, sem standa víða um heim í víglínunni í baráttu við farsóttinni.“

Já, mannkyn allt hefur saman barist við veiruna skæðu og þegar bólusetningar eru hafnar verður okkur ljóst hve mikill munur er á lífskjörum og aðstæðum íbúa jarðarinnar. Þó mannkyn allt hafi verið saman á þessu ferðalagi er aflanum misskipt. Misskipting lífsins gæða hefur sjaldan verið mannkyni jafn augljós.

Allt frá fyrstu tíð hefur kirkjuganga verið órjúfanlegur hluti af hátíðarhöldum sjómannadagsins. Kirkjuferðin stendur eins og kirkjan sjálf og boðskapur hennar. Kirkjuhúsinu er líkt við skip. Það er talað um kirkjuskip. Skipstjórinn á því skipi er Drottinn sjálfur. Við erum flest hásetar á því skipi, þó einnig finnist þar vélstjórar sem sjá til þess að skipið geti siglt, stýrimenn sem beina því í rétta átt og kokkar sem sjá til þess að líkaminn haldi kröfum. Í þessu skipi erum við stödd í dag og tökum við boðskapnum sem hér er fluttur í tali og tónum. Boðskapnum sem segir að allt sé í almáttugri hendi Guðs sem getur breytt stormviðrinu í blíðan blæ, leitt sjómenn í höfn gegn um bortsjói og er nálægur þegar hættu ber að höndum.

Lífið er háskalegt, það fáum við svo oft að reyna. Ekkert er sjálfgefið og þó við manneskjurnar stjórnum mörgu þá stjórnum við ekki öllu eins og dæmin sanna. Í gegnum tíðina hefur mannkynið lært af reynslunni. Hver kynslóð lærir af annarri, en þarf samt að reka sig á. Alla tíð hafa sjómenn verið sér þess meðvitandi að lífið er háskalegt, að sjómennskan er háskaleg og þess vegna hefur verið unnið markvisst að því að bæta öryggi sjómanna. Og það hefur skilað góðum árangri.

Það er fróðlegt að heyra frásögur sjómanna í hlaðvarpinu Sjóarinn. Heyra sögur fólks sem dregið hefur björg í þjóðarbúið eða siglt um heimsins höf. Langflest viðtölin eru við karlmenn og örfá við konur enda fleiri karlmenn stundað sjóinn í gegnum tíðina, þó vissulega séu heimildir um sjósókn kvenna bæði frá fyrri tíð og nú.

Í dag, eins og alla sjómannadaga hafa textar verið lesnir úr helgri bók sem minna á hafdjúpin, sem eru í hendi Guðs. Á lífsháskann, sem fyrri hendi er á ævi hverrar manneskju. Á miskunn Guðs, sem leiðir okkur á lífsins hála vegi. Á þrá mannsins eftir öryggi og kærleika. Í Biblíunni eru margar tilvísanir til sjávarins.

Í guðspjalli dagsins heyrðum við hvernig Jesús stillir storminn og lægir öldurnar. Lærisveinarnir vekja hann og biðja um hjálp. Og þá spyr hann – af því er virðist – alveg út í bláinn: Hvers vegna óttist þið, trúlitlir? Undarleg spurning við þessar aðstæður. Auðvitað óttast menn þegar allt ætlar af göflunum að ganga. En engu að síður undrast Kristur þessi viðbrögð lærisveinanna.

Hvað gerið Jesús næst? Með orðum sínum hemur hann vindinn og kemur á kyrrð. Í sköpunarsögunni í fyrstu bók Biblíunnar talar Guð. Guð segir og það verður. Og nú eru það orð Jesú, eins og í sköpunarsögunni sem verða til þess að regla kemst á. Jesús kyrrir vind og sjó og hjörtu hræddra lærisveina sinna. Og jafnvel þó trú okkar sé lítil eins og lærisveinanna um borð í bátnum, lærisveinanna sem Jesús valdi sér til fylgdar, megum við eiga von á kærleiksverki af hendi frelsarans. Kærleikur og traust í stað óreiðu og ótta. Það er boðskapur sjómannadagsins sem við tökum með okkur út í hversdaginn.

Hér í Dómkirkjunni er fáni og sem betur fer eru engar stjörnur á honum því þegar þær eru, eru þær jafnmargar og fjöldi þeirra sem hlutu hina votu gröf á umliðnu ári. Nöfn þeirra fjölmörgu sem hafið hefur tekið og líf þeirra allra er geymt í hjarta Guðs. Við sameinumst í bæn fyrir þeim og ástvinum þeirra.

Nú á þessari stundu verður lagður blómsveigur að minnisvarða óþekkta sjómannsins í Fossvogskirkjugarði í virðingu, þökk og samúð. Rísið úr sætum og við lútum höfðum  svo í þögn.

TÓNLIST

Veit þeim, Drottinn, þína eilífu hvíld, og lát þitt eilífa ljós lýsa þeim. Þau hvíli í þínum friði. Hugga þau sem eiga um sárt að binda, signdu hverja minningu, varðveit hverja von, þerra hvert tár.  Í Jesú nafni. Amen. Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú. Amen.

 


  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Trúin

  • Biskup

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra