Fólkið og menningararfurinn

17. júní 2021

Fólkið og menningararfurinn

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir á leið til Dómkirkjunnar í morgun - mynd: hsh

Allt frá lýðveldisstofnun hefur verið útvarpað hátíðarguðsþjónustu, fyrst 17. júní 1944 frá Þingvöllum og síðar alla þjóðhátíðardagana frá Dómkirkjunni í Reykjavík. Biskup Íslands hefur ætíð prédikað á þessum degi.

Ekki var brugðið út af þeirri rótgrónu hefð og prédikaði biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir í Dómkirkjunni í morgun. Séra Sveinn Valgeirsson og séra Elínborg Sturludóttir þjónuðu fyrir altari. Dómkórinn söng undir stjórn Kára Þormars og Sólveig Sigurðardóttir söng einsöng.

Biskup hefur nýverið vísiterað í Vesturlandsprófastsdæmi og nú í vikunni í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi. Vísitasíurnar voru því eðli máls ofarlega í huga hennar og sagði hún:

Eitt af verkefnum biskups er að heimsækja söfnuði landsins. Söfnuðurinn er fólkið sem býr í sóknunum sem kirkjurnar eru kenndar við. Kirkjuhús landsins eru hátt í 300 talsins og eru langflest varðveitt af fólkinu í landinu. Vel er haldið utan um þann þjóðmenningararf okkur sem í kirkjunum býr af fólki sem þykir vænt um kirkjuna sína og hefur verið kosið til að annast kirkjuhúsið í sinni sókn. Því miður duga félagsgjöld sóknarbarnanna ekki til þessa viðhalds enda margar sóknir fámennar og kirkjuhúsin gömul og þurfa stöðugt viðhald. Við gleymum því oft að menningararfinum er ekki eingöngu viðhaldið með fjárútlátum úr sameiginlegum sjóðum okkar heldur er það fólkið í landinu sem fyrst og fremst lætur til sín taka á þessu sviði. Á ferðum mínum til fólksins í landinu hef ég orðið vör við áhyggjur þeirra sem nú eru í sóknarnefndunum og sinna kirkjuhúsunum í hinum dreifðu byggðum landsins af því að þau óttast það að sjálfboðin þjónusta við þennan menningararf verði ekki fyrir hendi innan fárra ára.

Sr. Agnes sagði bætti því við að ef þessi gömlu kirkjuhús fengju mál þá hefðu þau frá mörgu að segja. Gætu sagt frá fólkinu sem hefði komið saman í þeim á liðnum öldum hvort heldur í gleði eða sorg. Þau gætu líka sagt frá tónlistinni sem þar hefði ómað og mörgu öðru sem gerst hefði í þeim.

Síðan sagði hún:

Þjóðararfurinn er mikilvægur okkur sem byggjum þetta land. Hann minnir okkur á rætur okkar og skyldur okkar við landið sem okkur hefur verið úthlutað til varðveislu nú og fyrir komandi kynslóðir.

Og:

Fólkinu sem ég hef hitt síðustu daga í kirkjunum sínum fyrir vestan og norðan þykir vænt um kirkjuna sína og þann boðskap sem þar hefur verið fluttur. Kirkjuhúsin eru andlegar orkustöðvar sem mynda þéttriðið net um landið allt.

Í lok prédikunar sinnar minnti sr. Agnes á skírnarskipunina í Matteusarguðspjallinu og sagði:

Stjórnarskrá kirkjunnar stendur í einu guðspjallanna. Hana þarf ekki að ræða, henni þarf ekki að breyta. Hún er kölluð skírnarskipunin og í henni segir Jesús lærisveinum sínum á öllum tímum að fara og skíra og kenna. Hann sendir lærisveina sína í krafti valds síns, sem hann hefur á himni og á jörðu og það vald hefur verið nefnt vald kærleikans. Vegna þessarar stjórnarskrár hafa kirkjur verið byggðar. Vegna hennar biðjum við, leitum og finnum. Knýjum á og dyr opnast. Okkur ber að varðveita þennan þjóðararf.

Venju samkvæmt var haldið út á Austurvöll að lokinni guðsþjónustu. Þar lagði forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar. Síðan hélt dagskráin áfram með ræðu forsætisráðherra, kórsöng, og ávarpi Fjallkonunnar.

Hér má lesa prédikun biskups í heild sinni: 

Prédikun flutt í Dómkirkjunni 17. júní 2021. Matt. 7.7-12
Við skulum biðja:
Hefjum í dag til dýrðar þér,
Drottinn vor, lofgjörð nýja.
Gjörum það fyrr en of seint er
undir þinn væng að flýja.
Gef, að vor þjóð
ei missi móð,
mæti oss élið þunga.
Helgist vort ráð.
Um lög og láð
lofi þig sérhver tunga.
                Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega hátíð á þjóðhátíðardegi okkar. Það er jafnan mikil hátíð þennan dag um landið allt. Margir skarta þjóðbúningnum og íslenski fáninn er ekki aðeins á fánastöngum heldur einnig í hendi margra. Íslenski fáninn, þjóðfáni okkar var fyrst opinberlega staðfestur með úrskurði Kristjáns 10. konungs 19. júní árið 1915. Sá dagur er líka í minnum hafður vegna staðfestingar konungsins á breyttri stjórnarskrá sem meðal annars heimilaði konum að kjósa til alþingis. Enn eldri er hugmyndin um útlit þjóðfánans sem mun vera komin frá Matthíasi Þórðarsyni þáverandi þjóðminjaverði sem stakk upp á honum árið 1906. Áttu litirnir að tákna fjallablámann, ísinn og eldinn. Matthías hefur sennilega ekki grunað að rúmri öld síðar hefðu jöklarnir bráðnað svo mjög að minningarathöfn hefur verið haldinn um einn þeirra sem horfinn er.

Við stöndum á grunni fortíðar, þess sem var, þess sem var ákveðið, þess sem var staðfest. Það gerðist ekki óvænt og án undanfara að íbúar þessarar eyju í norðurhöfum urðu íbúar lýðveldisins Íslands fyrir 77 árum. Kynslóðir koma og kynslóðir fara, hver kynslóð tekur við arfi frá fyrri kynslóð. Arfi sem varðveita ber og hlúa að.

Eitt af verkefnum biskups er að heimsækja söfnuði landsins. Söfnuðurinn er fólkið sem býr í sóknunum sem kirkjurnar eru kenndar við. Kirkjuhús landsins eru hátt í 300 talsins og eru langflest varðveitt af fólkinu í landinu. Vel er haldið utan um þann þjóðmenningararf okkur sem í kirkjunum býr af fólki sem þykir vænt um kirkjuna sína og hefur verið kosið til að annast kirkjuhúsið í sinni sókn. Því miður duga félagsgjöld sóknarbarnanna ekki til þessa viðhalds enda margar sóknir fámennar og kirkjuhúsin gömul og þurfa stöðugt viðhald. Við gleymum því oft að menningararfinum er ekki eingöngu viðhaldið með fjárútlátum úr sameiginlegum sjóðum okkar heldur er það fólkið í landinu sem fyrst og fremst lætur til sín taka á þessu sviði. Á ferðum mínum til fólksins í landinu hef ég orðið vör við áhyggjur þeirra sem nú eru í sóknarnefndunum og sinna kirkjuhúsunum í hinum dreifðu byggðum landsins af því að þau óttast það að sjálfboðin þjónusta við þennan menningararf verði ekki fyrir hendi innan fárra ára.

Ef þessi gömlu kirkjuhús gætu talað hefðu þau frá mörgu að segja. Þau gætu sagt frá fólkinu sem í gegnum tíðina hefur komið þar saman á gleði- og sorgarstundum. Þau gætu sagt frá tónlistinni sem þar hefur hljómað og ef til vill skondnum atvikum sem þar hafa gerst. Í hinu mikla ritverki um friðaðar kirkjur á Íslandi segir í formála: „Fyrr á tíð var kirkjan ekki einasta musteri trúar heldur oftar en ekki sýnileg táknmynd þess besta, sem samtíðin megnaði í húsagerðarlist og griðastaður fyrir jafnt minningarmörk sem listmuni og aðra fegurð.“ Enn fremur segir: „Þangað hefur þjóðin sótt náð og blessun um aldir og iðkað trú sína í gleði og sorg, ást og erfiði, og þar hefur margt barnið fyrsta sinni séð prestinn prúða, patínu, kaleik, ljós og skrúða, eins og séra Matthías Jochumsson lýsir ferð sinni að Stað á Reykjanesi, þá fimm ára gamall.”

Þjóðararfurinn er mikilvægur okkur sem byggjum þetta land. Hann minnir okkur á rætur okkar og skyldur okkar við landið sem okkur hefur verið úthlutað til varðveislu nú og fyrir komandi kynslóðir.

Þjóðhátíðardagur. Hátíðisdagur þjóðarinnar. Hvað er þjóð? Auðvitað hafa fræðimenn rannsakað málið og það er ekki einhlítt svar við þessari spurningu frekar en mörgu öðru. Mannlífið er fjölbreytt, skoðanir margar, mörg tungumál töluð, ekki ein trúarbrögð, fjölbreytt matarmenning. Hvað sem öllu þessu líður búum við öll sem eyjuna byggjum á Íslandi. Það er það sem sameinar okkur og saman myndum við félag, þjóðfélag þar sem við lútum sömu reglum hver svo sem bakgrunnur okkar er.

Guðspjall þjóðhátíðardagsins setur fram þrjú orð í boðhætti, biðjið, leitið, knýið á og það endar á gullnu reglunni sem mörgum er kunn. Þessi texti hvetur okkur til athafna. Við eigum ekki að vera aðgerðarlaus heldur athafnasöm. Ef við biðjum fáum við svör, ef við leitum þá finnum við, ef við knýjum dyra verður opnað fyrir okkur. Samkvæmt þessu eigum við að sýna frumkvæði. Við eigum ekki að sitja með hendur í skauti. Við eigum að vera framtakssöm. Undanfarið rúmt ár hefur verið mannkyni öllu erfitt vegna heimsfaraldursins. Pestin hefur þó ekki fengið að eiga sviðið að öllu leyti. Við höfum sammælst um að kveða hana niður og hefur almenningur í þessu landi verið samtaka um að sitja ekki lengi uppi með þann gest. Það hafa þau sem ráðleggja og ráða einnig verið sammála um. Ef við hefðum ekkert gert hefði voðinn verið vís. Með markvissum aðgerðum tókst að draga úr útbreiðslu veirunnar þegar hún ætlaði að ná yfirhöndinni. Saman getum við þetta sagði í auglýsingunni. Við höfum rækilega verið minnt á að afstaða, hugsunarháttur skiptir máli ef árangur á að nást. Þó lífsskoðun þegna þessa lands sé ekki einsleit tókst að mynda samstöðu um að treysta þeim sem þekkinguna hafa og að fara eftir þeim reglum sem þar til bær stjórnvöld settu.

Gullna reglan er ein af umferðarreglum lífsins ásamt boðorðunum tíu. Hún krefur okkur um afstöðu til lífsins og hvernig við komum fram við hvert annað. Trú er lífsskoðun. Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að yfir 90% þjóðarinnar er í skráðum trúar- og lífsskoðunarfélögum. Þar af eru tæp 80% skráð í trúfélögum sem treysta á æðri mátt í lífi sínu. Það er því ekki hægt að segja að trúin sé ekki ráðandi í lífi þegna þessa lands. Sjaldan hefur andleg leit fólks verið meiri og vart er opnað blað eða fésbókarsíða án þess að sjá tilboð um námskeið þar sem andleg leit kemur við sögu. Íhugun kristninnar er ekki aðeins inn á við heldur beinist hún líka út á við til náunga okkar. Um leið og við styrkjum okkur sem manneskjur erum við færari um að gefa af okkur til samferðafólksins.

Í guðspjallinu er bænin fyrst nefnd af þessum þremur boðum sem við eigum að framkvæma. Biðjið, leitið, knýið á. Það er góður vegvísir fyrir daglegt líf okkar. Að biðja um leiðsögn Guðs í dag og alla daga. Að ana ekki áfram í hugsunarleysi heldur ígrunda málin til að finna bestu niðurstöðuna og að lokum að opna öðrum leið til að njóta þeirrar niðurstöðu þannig að opnist fyrir nýja vídd eða möguleika fyrir heildina.

Gullna reglan hvetur okkur ekki aðeins til framtakssemi og athafna heldur felur hún í sér jafna stöðu allra manna. Við lútum öll sama lögmáli hver svo sem staða okkar er í mannlegu samfélagi.

„Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ Þessi orð eiga ekki aðeins við í daglegu lífi okkar heldur einnig hvernig við hugsum til arfleifðar þeirra sem á undan okkur fóru og til þeirra sem erfa munu landið. Við vitum af ógninni við lífið á jörðinni sem stafar af gróðurhúsaáhrifunum. Það er okkar en ekki þeirra sem á eftir koma að breyta lífsstíl okkar á þann veg að hér verði hægt að lifa og starfa. Það er líka okkar að bera virðingu fyrir því góða sem fyrri kynslóðir lögðu til svo við getum lifað hér góðu lífi.

Fólkinu sem ég hef hitt síðustu daga í kirkjunum sínum fyrir vestan og norðan þykir vænt um kirkjuna sína og þann boðskap sem þar hefur verið fluttur. Kirkjuhúsin eru andlegar orkustöðvar sem mynda þéttriðið net um landið allt. Fyrir nokkrum árum var sýning á Torginu í Neskirkju í Reykjavík. Á einu verkanna mátti sjá útlínur Íslands af því er virtist við fyrstu sýn. Pinnum hafði verið komið fyrir á vegg en þeir sýndu hvar kirkjuhús eru á landinu. Þegar öllum pinnunum hafði verið raðað á sína staði blasti við útlínur landsins okkar.

Í þessum 300 kirkjum hefur verið beðið frá því þær risu. Þar hefur Orð Guðs verið flutt, bænir beðnar, sálmar sungnir og Guð vors lands lofaður. Þess vegna þykir fólkinu vænt um kirkjurnar sínar og vill gefa af tíma sínum og kröftum í sjálfboðinni þjónustu.

Stjórnarskrá kirkjunnar stendur í einu guðspjallanna. Hana þarf ekki að ræða, henni þarf ekki að breyta. Hún er kölluð skírnarskipunin og í henni segir Jesús lærisveinum sínum á öllum tímum að fara og skíra og kenna. Hann sendir lærisveina sína í krafti valds síns, sem hann hefur á himni og á jörðu og það vald hefur verið nefnt vald kærleikans. Vegna þessarar stjórnarskrár hafa kirkjur verið byggðar. Vegna hennar biðjum við, leitum og finnum. Knýjum á og dyr opnast. Okkur ber að varðveita þennan þjóðararf.

Orð Hallgríms Péturssonar eiga enn við:

Gefðu, að móðurmálið mitt,
minn Jesús, þess ég beiði,
frá allri villu klárt og kvitt,
krossins orð þitt út breiði
um landið hér,
til heiðurs þér,
helst mun það blessun valda,
meðan þín náð
lætur vort láð
lýði og byggðum halda.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.

hsh


  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Trúin

  • Biskup

Hver vegur að heiman.jpg - mynd

Einlæg glíma við mannlega tilveru

05. des. 2024
...ný bók eftir sr. Vigfús Bjarna Albertsson
Matur.jpg - mynd

Hjálpumst að heima og heiman

04. des. 2024
...árleg jólasöfnun Hjálparstarfsins
HAìDEGISTOìNLEIKAR copy.png - mynd

Ertu búin/n að Bach-a fyrir jólin?

03. des. 2024
...hádegistónleikar í Hallgrímskirkju