Klakabönd veirunnar losna

28. júní 2021

Klakabönd veirunnar losna

Sr. Guðrún Eggerts Þórudóttir, sóknarprestur í Ólafsfjarðarprestakalli - mynd: hsh

Fáni blakti við hún fyrir utan Ólafsfjarðarkirkju þegar kirkjan.is átti þar leið um á sólbjörtum degi fyrir skömmu og hitinn í bænum sveif léttilega yfir 20 gráður; umfaðmaði mannlífið í gleði sinni og elskusemi.

Það var glaðvær ómur sem barst frá kirkjunni þegar inn var gengið. Fólk sat þar til borð í sínu fínasta pússi og í enda salarins var barnahorn þar sem börn lágu á gólfi og teiknuðu og léku sér.

Þetta var skírnarveisla í safnaðarheimilinu og skírnarathöfninni lokið.

„Þetta er fyrsta skírnarveislan hér í safnaðarheimilinu eftir að ég kom hingað í október síðastliðnum,“ segir sóknarpresturinn sr. Guðrún Eggerts Þórudóttir. Hún er hress í bragði og segir að nú komist vonandi allt í fullan gang þegar talið berst að nýjustu tíðindum um afléttingu samkomutakmarkana.

Kom nývígð norður í kófinu
Sr. Guðrún var vígð í október á síðasta ári og hefur því ekki verið lengi prestur. Þegar hún kom skömmu síðar til Ólafsfjarðar hélt kórónuveirufaraldurinn öllu í klakaböndum. Það var sérstakt fyrir starfsama konu að vera komna á kirkjuvettvang og horfast í augu við margvíslegar samkomutakmarkanir. Hún fór í fótspor margra presta sem streymdu helgihaldi og reyndu að vinna út frá þeirri stöðu sem var í spilunum eftir ýmsum leiðum. En óneitanlega var þetta undarlegur tími.

„Nú lítur þetta allt öðruvísi út,“ segir sr. Guðrún og er eitt sólskinsbros. „Nokkrar skírnir bíða og einnig hjónavígslur.“ Hún leysir einnig af sóknarprestinn á Siglufirði sem er nú í sumarfríi og því er í mörg horn að líta. Frá því að hún kom í kallið hefur hún haft um hönd átta útfarir.

Síðar í sumar verður hátíð þeirra Ólafsfirðinga, Berjadagar, haldin og segir sr. Guðrún að hún muni að sjálfsögðu taka þátt í þeim og flytja fyrirlestra. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir presta úti á landsbyggðinni að vera virkir þátttakendur í samfélaginu og það kann fólk að meta. Í augum þess er presturinn og starf kirkjunnar einn af hornsteinum samfélags landsbyggðarinnar.

Sr. Guðrún er ákaflega ánægð í Ólafsfirði og segir fólkið einstaklega alúðlegt og hafi tekið sér afar vel. Hún er fjórða konan sem gegnir starfi sóknarprests í Ólafsfirði. Á undan henni voru þær sr. Sigríður Guðmarsdóttir, sr. Elínborg Gísladóttir og síðast sr. Sigríður Munda Jónsdóttir.

Ólafsfjörður er ein sókn með tvær kirkjur
Sóknarkirkjan er Ólafsfjarðarkirkja; fádæma fallegt guðshús og stendur svo að segja í hjarta bæjarins. Hún var byggð árið 1915 og vígð ári síðar. Kirkjan var sú síðasta sem Rögnvaldur Ólafsson (1874-1917) teiknaði en þar kom og við sögu aðstoðarmaður hans, Einar Erlendsson (1883-1968) þar sem Rögnvaldur var orðinn dauðsjúkur af berklum. Á tíunda áratug síðustu aldar var safnaðarheimili byggt og kirkjan lengd. Hún var endurvígð 1998.

Svo er kirkja á Kvíabekk. Þar standa yfir miklar framkvæmdir eins og kirkjan.is sagði frá á sínum tíma. Búið er að taka kirkjuna af grunni og verður hún færð til, sett á nýjan hlaðinn grunn. Það er Hollvinafélag Kvíabekkjarkirkju sem stendur að framkvæmdum.

Sr. Guðrún segir aðstöðuna einstaklega góða í Ólafsfjarðarkirkju. Hún hefur ljómandi fína skrifstofu og í kirkjunni er auk þess lítil og einkar falleg kapella. Safnaðarheimilið er prýðilegur salur og kirkjan sjálf snotur og mjög hlýleg. Hún segist vera afar heppin með organista en það er Ave Kara Sillaots og er hún frá Eistlandi. Kirkjukórinn er kröftugur og mjög áhugasamur.

Sóknarprestur þeirra Ólafsfirðinga lítur því björtum augum til komandi sumars við fjörðinn fagra og fjöllin háu.

hsh


Söngloftið í Ólafsfjarðarkirkju er myndarlegt 


Allar innréttingar í Ólafsfjarðarkirkju eru vandaðar


Ólafsfjarðarkirkja er mikil bæjarprýði


Kvíabekkjarkirkja - kirkjan var tekin af grunninum og færð

  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Covid-19

Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta