Trú og list

5. júlí 2021

Trú og list

Bænaklefinn, listaverk eftir Steingrím Eyfjörð, mynd: hsh

Oft má sjá trúarleg stef í verkum nútímalistamanna og í sumum tilvikum eru þau sterk en í öðrum veik. Listamenn sem eiga samtal við samtíma sinn og lifa í honum komast ekki hjá því að varpa orði á það sem tilheyrir trú og skipulegri trúarstarfsemi. Þessi viðbrögð listamanna eru ýmist hlutlaus að því marki sem það er hægt eða drekkhlaðin skoðunum.

Í Listasafni Reykjanesbæjar (Duus-húsi) er yfirlitssýning á verkum listamannsins Steingríms Eyfjörð. Þetta er mikil sýning og áferðagóð.

Í sýningarskrá kemur fram að sýningin sé sambland endurlits og nýrra verka listamannsins sem unnin eru 2020-2021. Sýningin er því nokkurs konar söguleg yfirferð á eldri listaverkum Steingríms ásamt nokkrum nýjum.

Kirkjan.is gekk þar fyrir skömmu um sali og hvetur þau sem eiga leið um Reykjanesbæ að líta þar við. Listsýningarrýmið er stórt og tekur vel á móti gestum. Auk þess er ókeypis inn.

Steingrímur hefur starfað að list í fjóra áratugi. Efniviður hans við listsköpunina er fenginn úr nánast öllum áttum. Hefðbundnum sem óhefðbundnum: Málverk, teikningar, postulínsmálun, gjörningar, innsetningar, myndbönd og texti sem stendur einn og sér. Mörg verka hans eru mjög svo kröfuhörð á listneytandann – í sumum er býsna mikill texti sem þarf að lesa og rýna í.

Eins og flest listaverk þá er skírskotun til margra átta, samtíma og sögu. Sumt er pólitískt og annað ekki – eða jafnvel hvort tveggja eða ekki. Ljóst er þegar verk hans eru skoðuð að ekkert virðist honum óviðkomandi í mannlegu lífi og menningu þeirri sem það elur af sér.

Úr sýningarskrá
Áherslan á „andlega vegferð“ áhorfandans dregur fram mikilvægt hlutverk dulspeki og andlegra hefða í verkum Steingríms, sem marka þeim nokkra sérstöðu í samhengi íslenskrar konseptlistar. Vart þarf að horfa lengi yfir höfundarverkið til að koma auga á vægi dulspekinnar í hugmyndaheimi listamannsins. ...

Steingrímur hefur sjálfur lýst því að trúarbrögðin og hinar dulrænu hefðir hafi heillað sig sem „póetísk vísindi“ og vísar þar með til þeirrar annars konar þekkingarleitar sem er drifkraftur dulspekinnar. (Tegundagreining ... Um þekkingarleit og andlegar hefðir... (sýningarskrá), Benedikt Hjartarson, bls. 12 og 14).

Hér verður ekki gerð frekari tilraun til að fara yfir verk Steingríms með augum hins hversdagslega listrýnanda heldur aðeins vakin athygli á þeim verkum þar sem trú kemur við sögu.

Bænaklefinn (Hið ósnertanlega)
Listaverk sem kallar á gagnvirkt samband milli listneytanda og listamanns. Þó verkið beri þetta heiti mætti einnig líta á það sem skriftastól. Til að komast inn í klefann verður að beygja sig verulega og þar með að sýna auðmýkt. Bænaklefann er nokkurs konar syndaþvottasturta, sturtuklefi. Eða eins og stendur í sýningarskrá: „...ljós Guðs baðar sýningargestinn og hreinsar hann af syndum sínum með blóði Krists.“ (Tegundagreining, Steingrímur Eyfjörð, R. 2021, bls. 23 (sýningarskrá) og þar má finna nánari útlistum listamannsins á verkinu. Þetta verk er frá 1994). Bænaklefinn er gerður úr krossvið og plexigleri. Hann er í eigu Listasafns Íslands.

Heilög Teresa frá Lisieux – matarstell, postulínsmálað
Myndir á því enduróma sögu dýrlingsins og ástæða þess að Steingrímur velur að mála hana á stellið er rakin í sýningarskránni (bls. 24-25). Kona nokkur sagði honum frá dýrlingnum og lét hann fá ofið hálsmen sem hafði að geyma bút úr sængurveri sem heilög Teresa (1873-1897) hafði snert – hálsmenið var komið frá nunnunum í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði sem vildu gefa honum það með því skilyrði að hann bæri það nótt sem dag meðan hann vann að verkinu.

En eins og alltaf: Sjón er sögu ríkari. Þetta eru tvö dæmi um listaverk af sýningunni. Þau eru hins vegar mýmörg, og í sumum verkum eru önnur listaverk fólgin.

Kirkjan.is mælir með að lesendur skoði sýningu Steingríms Eyfjörð hafi þeir tök á því. Á Reykjanesinu er margt að sjá (annað en gos) og hægt að flétta saman list, náttúru og mannlífi, í einni ferð.

Feisbókarsíða safnsins  og þar má finna viðtal við listamanninn um sýninguna.

hsh


Nær er Bænaklefinn - fjær er Orgone-kassinn (Hið ósnertanlega)


Heilög Teresa frá Lisieux – matarstell