Sumartónar frá Hvalsnesi

10. júlí 2021

Sumartónar frá Hvalsnesi

Hvalsneskirkja á Rosmhvalanesi byggð 1886-1887 - mynd: hsh

Sumarið lyftir ekki bara huga og sinni mót sólu heldur streyma hrífandi tónar úr öllum áttum. Tónar sem lyfta sumrinu enn hærra og gleðja mannanna börn.

Sígildir tónar eru í boði fyrir vestan, norðan, austan og sunnan. Já, um allt land. Kirkjurnar eru nefnilega ljómandi góð tónleikahús. Og tónlistin er alþjóðlegt tungumál.

„Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á tónleikaröð í Hvalsneskirkju,“ segir Magnea Tómasdóttir, listrænn stjórnandi sumartónleikanna þar. „Við erum mjög spennt að sjá hvernig aðsóknin muni verða en dagskrá tónleikaraðarinnar er sérstaklega vönduð,“ segir hún full tilhlökkunar. „Hljómburðurinn er mjög góður í kirkjunni eftir að tekin voru teppi af gólfum fyrir nokkrum árum.“

Sumartónar í Hvalsneskirkju.

Hvað er í boði?
Þriðjudaginn 13. júlí kl. 19.30
Flaututónar: Guðrún Sigríður Birgidóttir og Martial Nardeau leika dúó eftir Jóhannes S. Bach, og W.F. Bach og Telemann. Einnig íslensk þjóðlög í útsetningu Snorra Birgissonar og Dropaspil eftir Þorkel Sigurbjörnsson

Þriðjudaginn 10. ágúst kl. 19.30
Sellósvítur: Gunnar Kvaran leikur svítur eftir Jóhannes S. Bach.

Þriðjudaginn 14. september kl. 19.30
Sönglög með nýjum blæ: Þar er Kjartan Guðnason á slagverkinu og Kjartan Valdemarsson fer fimum fingrum um píanóið og leikur einnig á harmonikku. Það er listrænn stjórnandi sumartónanna, Magnea Tómasdóttir, sem stígur á svið, og syngur. Lögin eru eftir Atla Heimi Sveinsson og Jón Ásgeirsson, við texta Jónasar Hallgrímssonar og Halldórs Laxness.

„Að loknum tónleikum verður boðið upp á molasopa og konfekt inni í bænum,“ segir Magnea en sjálf er hún ættuð frá Hvalsnesi. Kirkjan.is spyr hvað það taki langan tíma að aka úr borginni og í Hvalsnes og segir Magnea það vera um tæpan klukkutíma.

Hvalsneskirkja er mjög vinsæl til athafna eins og brúðkaupa. Enda er hún einstaklega falleg og á ríkulega sögu.

Þá segir Magnea að til standi að bjóða upp á vetrardagskrá í kirkjunni bæði í tali og tónum. Það sé allt í bígerð.

Aðgangseyrir er enginn en frjáls framlög eru vel þegin.

Héraðsnefnd Kjalarnessprófastsdæmis er styrktaraðili Sumartóna í Hvalsneskirkju.

Kirkjan.is hvetur tónlistaráhugafólk að skella sér í Hvalsneskirkju suður á Reykjanesi eitthvert þriðjudagskvöldanna,13. júlí, 10. ágúst og 14. september. Tónleikar byrja kl. 19.30. 

hsh


  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

Reykholtskirkja hin nýja, vígð 28. júlí 1996, og hin eldri, vígð 31. júlí 1887 - mynd: hsh

Tvöfalt afmæli í Reykholti

22. júl. 2021
...Reykholtskirkja og Reykholtshátíð 25 ára
Hóladómkirkja - glæsileg dagskrá Hólahátiðar helgina 14. -15. ágúst - mynd: hsh

Hólahátíð er engri lík

20. júl. 2021
14.-15. ágúst 2021
Steindur gluggi í Skálholtsdómkirkju eftir Gerði Helgadóttur (1928-1975) - mynd: hsh

Vegleg Skálholtshátíð

15. júl. 2021
...16. - 18. júlí