Góð tíðindi af kirkjugörðum

14. júlí 2021

Góð tíðindi af kirkjugörðum

Sáluhlið Þingvallakirkjugarðs - kirkjugarðar eru „sjálfseignarstofnanir“ á lagamáli en „helgra Guðs barna legstaðir“ á máli trúarinnar – mynd: hsh

Kirkjugarðar eru fallegir staðir og margir þeirra fjölsóttir. Sumir eru nánast skrúðgarðar. Fólki þykir vænt um hinsta hvílustað ættmenna sinna og vina. Vill að þeim sé sómasamlega sinnt og hirðir sjálft um margt í kringum þá. En allt kostar sitt. 

Sjaldnast dvelur hugur fólks sem fer um kirkjugarða við veraldleg málefni heldur eru það fremur hin andlegu mál sem banka upp á. Fáum dettur það svo sem í hug þá gengið er um friðsæla kirkjugarða að þeir séu sjálfseignarstofnanir og beri að skila inn reikningum til Ríkisendurskoðunar enda hljóma kannski sterkar í huga þeirra orð sálmaskáldsins góða, séra Hallgríms Péturssonar:

Jurtagarður, er Herrans hér
helgra Guðs barna legstaðir.
Þegar þú gengur um þenna reit,
þín sé til reiðu bænin heit,
andláts þíns gæt, og einnig þá
upprisudaginn minnstu á.

En þó staðreyndir veraldarinnar um samband Ríkisendurskoðunar og kirkjugarðanna sé á fárra vörum þá vita þetta auðvitað öll þau sem í sóknarnefndum sitja.  

Um kirkjugarða eru sérstök lög og þar er margt tíundað eins og vera ber. Röð og regla þarf að vera á hlutunum.

Þau gleðitíðindi sem tengjast kirkjugörðum að þessu sinni eru að skil ársreikninga þeirra eru „ívið betri“ nú í ár en í fyrra eins og Ríkisendurskoðun kýs að orða það á heimasíðu sinni.

Þessu ber náttúrlega að fagna. Enda batnandi mönnum best að lifa og þá ekki síst í kirkjugarðsmálunum.

Kirkjugarðar á landinu eru 238 og nú var skilað inn 195 ársreikningum fyrir árið 2019. Tekjur af kirkjugarðsgjöldum námu 1.180 m. kr. Og það er ekki halli á þeim þegar á heildina er litið heldur eru samanlagðar tekjur umfram gjöld 29, 29 m. kr. Það er hærra en árið 2018.

Sérstök eyðublöð fyrir ársreikninga kirkjugarða voru gerð á sínum tíma af Biskupsstofu í samvinnu við Ríkisendurskoðun. Það var mikil framför og styrkti alla upplýsingagjöf um rekstur þessara mikilvægu sjálfseignarstofnana.

Kirkjugarðsstjórnir þurfa að semja tekjuáætlun og áætlun um gjöld þeirra kirkjugarða sem þær hafa umsjón með. Þá þarf að taka saman ársreikning og senda Ríkisendurskoðun. Þetta fyrirkomulag hefur verið við lýði frá 1993 og er skv. lögum nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.

Sjá: Yfirlit úr ársreikningum kirkjugarða 2019 - Ríkisendurskoðun.

En sem sagt: nú þarf bara að grafa upp reikningana hjá skussunum sem ekki skila - en allt er hins vegar í rétta átt hjá kirkjugörðunum og það er ánægjuefni.

hsh


Skil á kirkjugarðsreikningum - skjáskot af heimasíðu Ríkisendurskoðunar

 


  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

Reykholtskirkja hin nýja, vígð 28. júlí 1996, og hin eldri, vígð 31. júlí 1887 - mynd: hsh

Tvöfalt afmæli í Reykholti

22. júl. 2021
...Reykholtskirkja og Reykholtshátíð 25 ára
Hóladómkirkja - glæsileg dagskrá Hólahátiðar helgina 14. -15. ágúst - mynd: hsh

Hólahátíð er engri lík

20. júl. 2021
14.-15. ágúst 2021
Steindur gluggi í Skálholtsdómkirkju eftir Gerði Helgadóttur (1928-1975) - mynd: hsh

Vegleg Skálholtshátíð

15. júl. 2021
...16. - 18. júlí