Þú velur næsta lag!

14. júlí 2021

Þú velur næsta lag!

Jón Bjarnason við orgelið - mynd: sunnlenska.is/Guðmunudr Karl

Þeim dettur margt í hug í Skálholti til að gleðja gesti og gangandi sem eiga þar leið um staðinn. Og staðurinn er vel mannaður. Hann er líka fullur af sögu og fegurð.

Óskalögin við orgelið er heiti á dagskrárlið í Skálholti sem boðið er upp á. Þetta er hressandi nýjung sem farið var af stað með í júnímánuði.

Allir hafa gaman af því að hlusta á tónlist. Ekki er verra að mega velja sín eigin uppáhaldslög.

Organistinn í Skálholti er einstaklega snjall tónlistarmaður. Jón Bjarnason hefur verið kantor við Skáholtsdómkirkju í tólf ár og býr á Laugarvatni.

Jón situr við orgelið á fimmtudögum milli klukkan 11.00 og 12.00 í Skálholtsdómkirkju og það er hægt að biðja hann um að leika hvað sem er. Nefndu lagið og áður en orðinu er sleppt hljómar það. Og hljómurinn í kirkjunni er einstaklega góður.

„Þessar stundir hafa verið gríðarlegar vel sóttar,“ segir Jón organisti þegar kirkjan.is spyr hann út í þær, „og það er bæði fólk úr sveitinni sem kemur og hefur gaman af þessu – og líka að sjálfsögðu ferðamenn sem eiga leið hér um.“

„Hvaða lög biður fólk um?“ spyr kirkjan.is. „Ég er með 107 laga lista til að velja úr og hef líka farið út fyrir hann ef einhver óskar þess.“

Listinn nær ótrúlega vítt um lagasmekk fólks enda er hann settur saman úr efni sem Jón hefur mikla reynslu af að leika við ólík tilefni.

„Og hvað er vinsælast?“ spyr kirkjan.is forvitin. „Bohemian Rhapsody hefur verið áberandi vinsælast hingað til,“ svarar Jón „en Heyr himnasmiður og Smávinir fagrir, eru í miklu uppáhaldi hjá fólki.“

Óskalögin við orgelið er viðburður sem hefur heppnast mjög vel og glatt hjörtu fólks. Einstaklingar, fjölskyldur og hópar hafa átt góða stund við orgelið hjá Jóni enda hann hress maður og með góða og notalega kímnigáfu. Og margir hafa tekið rösklega undir við einstök lög og notið þess að fá að syngja í kirkjunni fögru. 

Þegar rennt er í hlað í Skáholti er tilvalið að kanna hvort organistinn sé ekki við orgelið – hann fer reyndar að sjálfsögðu í sitt sumarfrí en er við orgelið bæði fyrir það og eftir. Frá kl. 11.00 til 12.00. Svo er auðvitað upplagt að bregða sér á veitingastaðinn í Skálholti sem býður upp á góða rétti á góðu verði.

Óskalögin við orgelið er dagskrárliður sem ætlað er að styðja við fegrun Skálholtsdómkirkju og þau sem vilja geta látið smávegið af hendi rakna til þess góða málstaðar.

Organistinn snjalli er við orgelið á morgun, fimmtudaginn 15. júlí. Þá er upplagt að skella sér í Skálholt. Enginn verður svikinn af því.

hsh


Skjáskot af 107 laga lista organistans - nokkur lög ....


  • Menning

  • Nýjung

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Viðburður

  • Frétt

Reykholtskirkja hin nýja, vígð 28. júlí 1996, og hin eldri, vígð 31. júlí 1887 - mynd: hsh

Tvöfalt afmæli í Reykholti

22. júl. 2021
...Reykholtskirkja og Reykholtshátíð 25 ára
Hóladómkirkja - glæsileg dagskrá Hólahátiðar helgina 14. -15. ágúst - mynd: hsh

Hólahátíð er engri lík

20. júl. 2021
14.-15. ágúst 2021
Steindur gluggi í Skálholtsdómkirkju eftir Gerði Helgadóttur (1928-1975) - mynd: hsh

Vegleg Skálholtshátíð

15. júl. 2021
...16. - 18. júlí