Presta- og djáknastefna sett

1. september 2021

Presta- og djáknastefna sett

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, flytur setningarræðu prestastefnu 2021. Við hlið hennar er vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson - mynd: hsh

Það má með sanni segja að setning presta- og djáknastefnu 2021 síðdegis í gær hafi verið einstök og fari í kirkjusögubækurnar.

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, flutti setningarræðu sína frammi fyrir upptökuvél og athöfninni var varpað út með rafrænum hætti frá salnum Þingvöllum í Katrínartúni 4. Þetta var fyrsta setning presta- og djáknastefnu með þessum hætti, í netheimum. Viðstaddir auk biskups Íslands voru sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, biskupsritari sr. Þorvaldur Víðisson, sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir, prestur Kvennakirkjunnar, og fréttaritari kirkjunnar.is, hsh. Fjöldi presta var „mættur“ á skjáinn og sat við sína tölvu heima fyrir eða annars staðar.

Stefnan fór vel af stað ef frá eru taldir nokkrir hnökrar í byrjun þar sem prestar voru með kveikt á hljóðnemum tölva sinna og bárust ýmis vinaleg heimilishljóð frá þeim: stólar dregnir til, kaffi hellt í bolla, barn hrópaði að baki einhvers og hundgá. Svo heyrðist meira að segja hressileg hreppstjórasnýta. Biskup bað fólk að slökkva á hljóðnemum sem það og gerði þegar það áttaði sig á því að kveikt væri á þeim. 

Samkvæmt venju við setningu prestastefnu fór biskup Íslands yfir starf kirkjunnar á þessu tímabili, 2019-2021. 

Það óvenjulegasta við setningarræðu biskups var kannski hinn langi listi af nývígðum prestum sem hún las upp enda hefur prestastefna ekki verið haldin síðan 2019 þannig að nývígðir prestar höfðu safnast upp ef svo má segja, alls átján einstaklingar. Glæsilegur hópur átta karla og tíu kvenna, á öllum aldri, vígður til þjónustu hér heima, til sjávar og sveita, borgar og bæja, og til útlanda. Auk þess voru vígðir fjórir djáknar til starfa 2019-2021, einn karl og þrjár konur, til fjölbreytilegrar þjónustu.

Biskup greindi frá því að drög að endurskoðaðri handbók þjóðkirkjunnar hefðu verið lögð fram og gætu prestar og djáknar gert athugasemdir við þau. Handbókin hefur verið í endurskoðun í tvo áratugi. Stefnt er að því að leggja fram nýja handbók til samþykktar á prestastefnu á næsta ári.

Yfirlitsræða biskup sýndi fjölbreytilegt starf kirkjunnar á þessum tíma og hvernig hún brást snaggaralega við eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á. Margt er hefðbundið en svo er annað nýtt og spennandi. Setningarræðu biskups má lesa hér í heild sinni.

Sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, las upp ávarp og kveðju frá dómsmálaráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, en hún gat ekki verið viðstödd setninguna vegna anna.

Prestastefnunni verður svo fram haldið með þeim hætti að biskup fundar með prestum í hverju prófastsdæmi fyrir sig.

Fyrstu stefnufundir biskups með prestum og djáknum verða í dag. Sá fyrri er í safnaðarheimili Bústaðakirkju og hefst kl. 9.00 á eftir og þá eru það prestar og djáknar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra sem biskup hittir. Seinni stefnufundurinn er í safnaðarheimili Kópavogskirkju með prestum og djáknum í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, hann hefst kl. 16.00. Fundurinn í Kjalarnessprófastsdæmi verður á morgun í Safnaðarheimili Ástjarnarkirkju og hefst kl. 9.00. Síðan mun biskup fara í önnur prófastsdæmi en nákvæm fundatímasetning liggur ekki enn fyrir.

Á þessum fundum mun biskup ræða við presta og djákna um margvísleg mál sem hafa verið í umræðu meðal þeirra eins og ný þjóðkirkjulög, kjaramál og störf kirkjunnar á kórónuveirutíð.

hsh


Söguleg stund: Setning presta- og djáknastefnu 2021 í netheimum 


Að lokinni setningu: Frá vinstri sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, og sr. Þorvaldur Víðisson, biskupsritari

  • Fundur

  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Biskup

Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði
Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall