Störf kirkjuþings

29. október 2021

Störf kirkjuþings

Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings, frestaði fundum 62. kirkjuþings fram í nóvember - mynd: hsh

Kirkjuþing sem sett var síðastliðinn laugardag við hátíðlega athöfn í Bústaðakirkju lauk síðdegis í fyrradag. Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings, frestaði þingfundi fram í nóvember. Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, fór með fararbæn- og blessun í lok þings.

Á fundi kirkjuþings í fyrradag var kosið í fyrsta sinn til nýrrar framkvæmdanefndar kirkjuþings. Kosningu hlutu: Anna Guðrún Sigurvinsdóttir, dr. Skúli Sigurður Ólafsson, og Einar Már Sigurðarson. Varamenn: Sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir, Árný Herbertsdóttir og Hermann Ragnar Jónsson. Formaður framkvæmdanefndar var kjörin Anna Guðrún Sigurvinsdóttir.

Skrifstofustjóri þingsins var Ragnhildur Benediktsdóttir, lögfræðingur og Guðrún Finnbjarnardóttir, starfsmaður þingsins. Jóna Finnsdóttir, var ritari þingsins, og þau Anný Ingimarsdóttir og sr. Magnús Erlingsson, voru þingskrifarar. 

Fjöldi mála lá fyrir þinginu, bæði frá fyrra þingi og svo ný mál.

Samþykkt mál

1. mál, 2021-2022: Skýrsla kirkjuráðs til kirkjuþings 2021 - nefndarálit á þingskj. 50
17. mál, 2020-2021: Tillaga að starfsreglum um ráðningu í prestsstörf – nefndarálit - með breyt.til. á þingskj. 40
3. mál, 2021-2022: Skýrsla um fasteignir þjóðkirkjunnar - nefndarálit á þingskj. 46
4. mál, 2021-2022: Tillaga til þingsályktunar um heildarstefnu þjóðkirkjunnar - með áorðnum breytingum á þingskj. 51
7. mál, 2021-2022: Tillaga til þingsályktunar um breytingu á viðbragðaáætlun kirkjunnar

12. mál, 2021-2022: Tillaga að starfsreglum um kjaranefnd Þjóðkirkjunnar/Biskupsstofu
13. mál, 2021-2022: Tillaga að starfsreglum um fjármál þjóðkirkjunnar - nefndarálit á þingskj. 44
16. mál, 2021-2022: Tillaga að starfsreglum um söfnuði og sóknarnefndir - nefndarálit, þingskj. 48
23. mál, 2021-2022: Tillaga til þingsályktunar um hlutdeild ungs fólks í kirkjustarfi og stjórn þjóðkirkjunnar á Íslandi nefndarálit, þingskj. 47
25. mál, 2021-2022: Tillaga til þingsályktunar um niðurlagningu Kirkjumálamiðstöðvarinnar við Vestmannsvatn

29. mál, 2021-2022: Tillaga til þingsályktunar um leiðréttingu sóknargjalda
32. mál, 2021-2022: Tillaga til þingsályktunar um áframhaldandi gildi samþykktra þingsályktana kirkjuþings
33. mál, 2021-2022: Tillaga til þingsályktunartillaga um stefnur þjóðkirkjunnar
34. mál, 2021-2022: Tillaga til þingsályktunar um stefnu þjóðkirkjunnar í málefnum innflytjenda og fólks á flótta - nefndarálit, þingskj. 34
36. mál, 2021-2022: Tillaga til þingsályktunar um skipan framkvæmdanefndar kirkjuþings og erindisbréf  – breyt. til. á þingskj. 53 samþ.

37. mál, 2021-2022: Tillaga til þingsályktunar um heitið þjóðkirkja nefndarál. og breyt. till. á þingskj. 49 samþ.
39. mál, 2021-2022: Tillaga til þingsályktunar um tímabundna stöðvun nýráðninga - nefndarálit, þingskj. 45

Mál dregin til baka

4. mál, 2020-2021: Tillaga til þingsályktunar um samskipta- og siðareglur þjóðkirkjunnar
14. mál, 2021-2022: Tillaga til þingsályktunar um fjölda starfa í vígðri þjónustu
22. mál, 2020-2021: Tillaga að starfsreglum um Skálholtsstað

Felld

26. mál, 2021-2022: Frávísunartillaga við tillögu til þingsályktunar um afnám gjaldtöku í áföngum vegna prestsþjónustu þjóðkirkjunnar. –  þingskjal nr. 42.  - Felld með tólf atkvæðum gegn átta.

Frestun mála

Afgreiðslu annarra mála var frestað fram til 6. fundar kirkjuþings í nóvember.

Vísað er til málaskrár kirkjuþings  2021-2022 til að skoða mál frekar ásamt fylgigögnum sem kunna að fylgja þeim. Vakin skal athygli á að mál frá síðasta kirkjuþingi, 2020-2021, eru númeruð í málaskrá frá og með nr. 50. 

Kosning varaforseta

Anna Guðrún Sigurvinsdóttir var kjörin formaður framkvæmdanefndar kirkjuþings sem áður getur og þar sem hún hefur gegnt starfi 2. varaforseta kirkjuþings, þurfti að kjósa í hennar stað. Margrét Eggertsdóttir var kjörin 2. varaforseti kirkjuþings. 

Fyrirspurnir

Þrjár fyrirspurnir voru lagðar fram á kirkjuþingi af sr. Hreini S. Hákonarsyni. Þeim svaraði sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup.

1. Hvar er verkefnið „Ein saga – eitt skref statt“?
Þjóðkirkjan og Samtökin ´78 hófu samstarf um þetta verkefni með það í huga að gera upp og læra af sögu misréttis gagnvart hinsegin fólki í kirkjunni. Rætt var um að safna sögum frá fólki sem taldi sig orðið hafa fyrir fordómum og andstöðu þjóðkirkjunnar vegna kynhneigðar sinnar og réttindabaráttu vegna hneigðar sinnar. Sett var upp síða sem kölluð var sögusíða og gat fólk deilt þar sögum sínum. Síðan átti að birta þessar sögur í kirkjum landsins, eða hengja upp eins og kallað var, til vitnisburðar og lærdóms. Eftir því sem fyrirspyrjandi veit best hefur lítið til þessa verkefnis spurst og í ljósi þessi er fyrirspurn þessi sett fram.
Svar: Vinnan stendur enn yfir og miðar verkefninu vel áfram. Áætlað er að miðla sögunum á nýju ári. Söfnun er á lokametrum en gert er ráð fyrir að sögurnar veðri um 12 talsins.

2. Hvar er verkefnið „Skírnarskógur“ statt? Hvað hefur verið veitt miklu fjármagni í það?
Ágætri hugmynd um skírnarskóga var varpað upp fyrir nokkrum árum og vakti mikla og verðskulduga athygli. Rætt var um að planta trjám niður fyrir hvert skírt barn. Nákvæm framkvæmdaáætlun lá ekki fyrir hvernig staðið yrði að verk og því er spurt um þetta. Fyrirspyrjanda er kunnugt um skírnarskóginn í Skálholti en einnig var rætt um að skírnarskógar yrðu í öllum prófastsdæmum landsins eða sóknum.
Svar: Verkefnið skírnarskógar er farið af stað. Búið er að velja svæði auk þess sem fundir hafa átt sér stað með próföstum sem jafnframt fengu meðfylgjandi fylgigagn með ítarlegri lýsingu á verkefninu. Reiknað var með að prófastsdæmin önnuðust framkvæmdina í hverju prófastsdæmi en viðbrögð prófasta hafa verði dræm til þessa þó einstaka prófastar hafa lýst áhuga. Enn sem komið er hefur aðeins verið farið af stað í Skálholti, verkefnið fór af stað í fyrra og voru þá gróðursettar ca. 100 plöntur. Kostnaður hefur numið kr. 101.779.

3. Skipuð var nefnd til að athuga með framtíðarhúsnæði Biskupsstofu/Þjóðkirkju – hvað hefur hún haldið marga fundi og hverjar eru helstu hugmyndir hennar um húsnæði Biskupsstofu/Þjóðkirkjunnar? Er komin tímasetning á flutning?
Svar: Að tillögu forseta kirkjuráðs var á fyrri hluta árs 2021 skipaður fjögurra manna starfshópur til að ræða framtíðarhúsnæðismál yfirstjórnar kirkjunnar. Hópinn mynda auk biskups, forseti kirkjuþings, lögfræðingur kirkjuþings og framkvæmdastjóri kirkjuráðs. Hópurinn hefur rætt þessi mál og var ákveðið að kanna fyrst hvort finna mætti framtíðarhúsnæði fyrir yfirstjórnina í einhverri af kirkjubyggingum á höfuðborgarsvæðinu. Hópurinn hefur sérstaklega litið til Grensáskirkju (Háaleitisbraut 66, Reykjavík) þar sem þjóðkirkjan á nú þegar neðri hæð fasteignarinnar Háaleitisbrautar 66, en á efri hæð er safnaðarheimili Grensássóknar í eigu safnaðarins. Söfnuðurinn á rýmið sem er undir kirkjuskipinu auk kirkjunnar sjálfrar. Þar er Hjálparstarf kirkjunnar til húsa og Dagsetur. Þjóðkirkjan leigir þrjár skrifstofur á efri hæð fyrir sérþjónustupresta. Kirkjuþing hafa oft farið fram í safnaðarheimilinu, svo og kirkjuþing unga fólksins og aðrir fundir á vegum þjóðkirkjunnar. Aðgengi fatlaðra er tryggt, staðsetning miðsvæðis og samgöngur góðar. Óformlegar viðræður hafa verið við fulltrúa sóknarnefndar Grensássóknar um málið og er það allt saman til athugunar. Í fréttabréfi biskups, dags 6. maí sl., var farið yfir húsnæðismálin og kynnt að starfshópur hefði verið skipaður til að skoða málin frekar. Þar var jafnframt tekið fram að tillögum og ábendingum sem snúa að húsnæðismálum biskupsstofu yrði tekið fagnandi. Samhliða þessu hefur verið athugað hvort framleigja megi hluta þriðju hæðar Katrínartúns 4 eða jafnvel alla hæðina, þegar fyrir liggur hvar framtíðaraðsetur yfirstjórnar kirkjunnar verður. Skal þess getið að rætt hefur verið óformlega við Framkvæmdasýslu ríkisins um það hvort ríkið hefði áhuga á að taka hæðina á leigu, en ríkið hefur verið að koma sér fyrir á Höfðatorgi undanfarin ár. Einnig hefur verið rætt við aðila sem eru staðsettir í Katrínartúni 4, ef hugsanlegt væri að þeir hefðu áhuga á að stækka húsnæði sitt.

Þau sem kunna að rekast á einhverjar villur í þessari frétt eru vinsamlega beðin um að hafa samband við: hreinn@biskup.is

hsh


  • Menning

  • Samfélag

  • Þing

  • Frétt

Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði
Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall