Mál innflytjenda og fólks á flótta

3. nóvember 2021

Mál innflytjenda og fólks á flótta

Prestar innflytjenda og fólks á flótta: sr. Toshiki Toma og sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir - í Breiholtskirkju þar sem Alþjóðlegi söfnuðurinn hefur aðsetur - mynd: hsh

Nýliðið kirkjuþing samþykkti allviðamikla stefnu þjóðkirkjunnar í málefnum innflytjenda og fólks á flótta. Þessar tillögur eiga rætur sínar hjá starfshópi sem biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, skipaði fyrir tæpum tveimur árum.

Stefnan skiptist í sex kafla: Þjóðkirkjan og málefni innflytjenda; Þjóðkirkjan og málefni flóttafólks; Skipulag; Verkefni og markmið þjóðkirkjunnar í málefnum innflytjenda og fólks á flótta; Framtíðarsýn og loks Alþjóðlegi söfnuðurinn.

Í stefnunni kemur meðal annars fram að þjóðkirkjan þurfi að bæta þjónustu sína við fólk með erlendan bakgrunn og skapa með því lifandi samfélag. Þjóðkirkjan muni leggja sitt af mörkum til að hjálpa innflytjendum að aðlagast íslensku samfélagi og kirkjan styðji starf Alþjóðlega safnaðarins í Breiðholtskirkju. Þá þurfi söfnuðir þjóðkirkjunnar að skapa vettvang svo að innflytjendur geti tekið þátt í helgihaldi og átt samfélag við Íslendinga. Bent er á að nú þegar sé starf fyrir innflytjendur í Hallgrímskirkju í Reykjavík, Ástjarnarkirkju í Hafnarfirði og svo í Alþjóðlega söfnuðinum í Breiðholti. Móttökusöfnuðir verði Háteigskirkja, Breiðholtskirkja, Ástjarnarkirkja og Keflavíkurkirkja. Mun biskup Íslands skipa framkvæmdanefnd sem fylgi eftir stefnu þjóðkirkjunnar í þessu máli.

Þau sr. Toshiki Toma, sérþjónustuprestur sem þjónar innflytjendum og flóttamönnum, og sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir, sérþjónustuprestur á sama sviði og var ráðin út þetta ár, þekkja best til þessara mála hér. Það er sr. Toshiki sem verður fyrir svörum enda hann búinn að þjóna þessum málaflokki í áratugi.

Breytir þessi tillaga miklu í sambandi við starf með flóttafólki í Alþjóðlega söfnuðinum í Breiðholti?

„Já, það skiptir miklu máli fyrir almennt starf þjóðkirkjunnar við flóttafólk ekki síst starf í kringum Alþjóðlega söfnuðinn í Breiðholtskirkju,“ segir sr. Toshiki. „Hingað til var þjónusta kirkjunnar við flóttafólk (sérstaklega við umsækjendur um alþjóðlega vernd við hælisleitendur) aðeins prestsbundin eða persónubundin. Sem sé, það var ákveðinn prestur sem sá um slíka þjónustu og aðstoðarfólk hans. Alþjóðlegi söfnuðurinn í Breiðholtskirkju varð til sem vettvangur prests innflytjenda og samstarfsfólks hans.“

Hann segir að með samþykkt stefnunnar hafi þjónusta við flóttafólk fengið formlegan grunn í ramma þjóðkirkjunnar. Hún sé ekki lengur bara persónubundin eða prestsbundin, heldur megi segja að hún sé orðin ,,þjóðkirkju-bundin" þjónusta.

Hvað finnst þér best við þessar tillögur?
„Það sem gott í þessari samþykktu stefnu er að hún er opin fyrir alla söfnuði í landinu og hver söfnuður getur valið starfsemi ,,við og með innflytjendum" sem hentar hverjum og einum söfnuði. Lífsaðstæður innflytjenda eru ekki eins og það er talsveldur munur t.d. milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Náttúrlega verður nálgun safnaðar við innflytjendur mismunandi eftir þeim aðstæðum.“

Sr. Toshiki segir að stefnan krefjist ekki þess að allir söfnuðir séu með samskonar starfsemi, heldur leggi hún áherslu á það að hver söfnuður skapi tækifæri til þátttöku í safnaðarstarfi fyrir innflytjendur og hann megi ákveða hvers konar safnaðarstarf passar og hvernig eigi að framkvæma það. Mikilvægt sé að Íslendingar í söfnuðinum vinni saman með innflytjendum. Fyrirhuguð framkvæmdarnefnd muni aðstoða söfnuði ef nauðsyn krefur.

Hvað vilt þú sjá fyrst koma til framkvæmda í stefnunni?
„Það eru nokkur brýn mál til staðar,“ svarar sr. Toshiki, „sálgæsla við flóttafólk og áþreifanleg aðstoð hljóta að hafa forgang. Einnig áskorun til ríkisins um réttmæta og mannúðarlega meðferð í málefnum þessa hóps og afgreiðslu á hælisumsóknum þess. Kirkjan á að taka að sér að vera rödd þessa fólks þar sem það sjálft er veikt fyrir og raddlaust.“

Sr. Toshiki segir að í sambandi við þjónustu við innflytjendur blasi það við að nauðsyn sé á íslenskukennslu. „Breiðholtskirkja  er nýbúin að koma á fót ókeypis íslenskukennslu og voru laus sextán sæti sem fylltust strax. Þrjátíu manns eru á biðlista.“ Hann hvetur aðra söfnuði til að hugsa út í að koma af stað íslenskukennslu. Þess má geta að íslenskukennsla fyrir innflytjendur fer einnig fram í Ástjarnarkirkju í Hafnarfirði. Samband íslenskra kristniboðsfélaga hefur líka boðið upp á íslenskukennslu.

„Síðast en ekki síst, er það mjög mikilvægt að fleira fólk taki þátt í starfi í kringum flóttafólk og innflytjendur, bæði fagfólk og sjálfboðaliðar,“ segir sr. Toshiki. „Sérstaklega vil ég skora á að starf samstarfsprests í þessum málefnum verði áfram.“ Hann segir það vera lífsnauðsynlegt fyrir starfið.

Sr. Solveig Lára flutti málið á kirkjuþingi

Það var vígslubiskupinn á Hólum, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, sem flutti tillöguna um stefnu þjóðkirkjunnar í málefnum innflytjenda og fólks á flótta. Þessum málaflokki hefur hún sinnt af mikilli alúð og einlægum áhuga undanfarin ár.

Kirkjan.is spurði hvað henni þætti mikilvægast í stefnu þjóðkirkjunnar í málefnum innflytjenda og fólks á flótta.

„Mér finnst mikilvægast að nú hefur kirkjuþing viðurkennt og sýnt því starfi virðingu sem unnið hefur verið undanfarin ár meðal innflytjenda og fólks á flótta.

Prestur innflytjenda hefur starfað í þjóðkirkjunni í yfir 20 ár, en síðustu 10 ár hefur starfið gjörbreyst, eftir að flóttafólksstraumurinn varð meiri.

Ég hef reynt að standa við bakið á sr. Toshiki Toma í hans erfiða starfi og við það að koma upp hinum svokölluðu Seekers-hópum sem er starf fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Nú hafa þeir hópar þróast í alþjóðlega söfnuðinn í Breiðholtskirkju, sem með þessari stefnu fær formlega stöðu og aukinn fjárhagslegan stuðning.

Nú eru stöðugildin líka orðin tvö eftir að sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir kom til starfa í fyrra og hópur presta í báðum Reykjavíkurprófastsdæmunum og Kjalarnesprófastsdæmi er þeim til aðstoðar og unnu að þessari stefnu sem nú hefur verið samþykkt.
Í stefnunni er lögð mikil áhersla á þátttöku innflytjenda í safnaðarstarfi, en einnig á að gera nokkra söfnuði að sérstökum móttökusöfnuðum. Þessir söfnuðir verða til að byrja með í Háteigskirkju, Breiðholtskirkju, Ástjarnarkirkju og Keflavíkurkirkju.

Eitt af því mikilvægasta sem fer fram í þessum söfnuðum er íslenskukennsla og trúfræðsla fyrir þau sem þess óska. Auk þess er barnastarf og helgihald á mörgum tungumálum. Það er ánægjulegt að segja frá því að margir sjálfboðaliðar hafa sprottið fram sem hafa boðist til þessara starfa. Í framhaldi af þessu starfi geta allir söfnuðir gerst móttökusöfnuðir, óski þeir þess. Í stefnunni er að finna hvernig skuli standa að því.

Í stefnunni er sett fram áætlun um hvað eigi að verða að veruleika innan eins árs og síðan að víkka starfið út á næstu fjórum árum, sem er mjög raunhæft því þetta er viðkvæmt starf sem verður að vinna hægt og eftir þörfum.

Við verðum að horfast í augu við það að innflytjendur á Íslandi voru 19. október s.l., 57.126 eða 15,5 % landsmanna og inni í þeirri tölu eru ekki þau sem eru að sækja um alþjóðlega vernd af því að þau eru ekki komin með íslenska kennitölu.“

hsh

 


Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, í ræðustól á kirkjuþingi


  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta