Afleysingar hér og þar

4. nóvember 2021

Afleysingar hér og þar

Afleysingar eru nauðsynlegar og vandasamar - mynd: hsh

Öllum er ljóst að ráðningarbann það sem kirkjuþing setti á þessu ári og framlengdi nýverið til 1. janúar hefur áhrif. Kirkjan.is kannaði stöðuna hjá þeim söfnuðum þar sem prestar og djáknar hafa látið af störfum af ýmsum ástæðum á tíma ráðningarbannsins.

Sr. Halldóra J. Þorvarðardóttir, prófastur í Suðurprófastsdæmi, tjáði kirkjunni.is að þar sem sr. Haraldur M. Kristjánsson, sóknarprestur í Víkurprestakalli, hefði farið á eftirlaun frá og með 1. nóvember hafi sr. Axel Árnason Njarðvík, héraðsprestur verið kallaður til. Mun hann þjóna kallinu þar til nýr prestur verður ráðinn. Þá hafi sviplegt andlát sr. Egils Hallgrímssonar skilið eftir vandfyllt skarð. Sr. Axel þjónaði þar um tíma eftir lát hans. Nú mun sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, taka að sér þjónustu við Skálholtsprestakall að minnsta kosti til áramóta.

Kirkjan.is kannaði ástandið fyrir norðan. Sr. Jóhanna Gísladóttir, prestur í Akureyrar- og Laugalandsprestakalli, er í fæðingarorlofi. Tjáði hún tíðindamanni að sr. Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur, sæi um þjónustu í fjarveru hennar eða til 1. mars. Þá mun Eydís Ösp Eyþórsdóttir, djáknakandidat, taka að sér barnastarfið og fermingarfræðsluna.

Einn prestanna í Egilsstaðaprestakalli, sr. Ólöf Margrét Snorradóttir, var ráðinn prestur í Garða- og Saurbæjarprestakalli og hóf störf þar í síðustu viku. Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur í Austurlandsprófastsdæmi, sagði að Egilsstaðaprestakalli væri nú þjónað af tveimur prestum. Þau sjái ekki fram á að fá þriðja prestinn fyrr en með vorinu.

Sr. Karl Valgarður Matthíasson, sóknarprestur í Guðríðarkirkju, Grafarholtsprestakalli, lét af störfum fyrir aldurs sakir fyrir nokkru. Sr. Leifur Ragnar Jónsson tók við sem sóknarprestur og þjónar kallinu og nýtur þar aðstoðar sr. Péturs Ragnhildarsonar, prests og æskulýðfulltrúa. Væntanlega verður auglýst eftir presti þegar ráðningarbannið verður fellt niður.

Sr. Hjalti Jón Sverrisson var ráðinn sjúkrahúsprestur við Landspítala fyrir nokkru. Hann var áður prestur í Laugarneskirkju í Laugardalsprestakalli. Í hans stað þjónar sr. Jón Ragnarsson tímabundið.

Sr. Bryndís Valbjarnardóttir, sóknarprestur á Skagaströnd, tók við prestsþjónustu tímabundið á Blönduósi í september síðastliðnum en sóknarpresturinn þar, sr. Sveinbjörn R. Einarsson, gegnir prestsstörfum í Garðasókn.

Loks er þess að geta að sr. Eiríkur Jóhannsson, prestur í Háteigskirkju, flutti sig í haust tímabundið um set í Hallgrímskirkju og leysir þar af sr. Irmu Sjöfn Óskarsdóttur, sem er í námsleyfi. 

Í þessu ljósi verður ekki annað sagt en að kirkjan hafi brugðist skjótt við og leitast við að leysa þann vanda sem upp kom með tímabundnu ráðningarbanni.

hsh


  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sóknarnefndir

  • Trúin

  • Frétt

Leuenberg-samkomulagið verður undirritað í einni af höfuðkirkju landsins, Hallgrímskirkju - mynd: hsh

Söguleg athöfn

27. nóv. 2021
...undirritun samkomulags
Hallgrímskirkja í Saurbæ - starfsmenn Oitdmanns að lokinni vinnu - mynd: Kristján Valur Ingólfsson

Ljósið kemur langt og mjótt

26. nóv. 2021
...steindir gluggar Gerðar Helgadóttur
Góðar bækur og grípandi - mynd: hsh

Litlar bækur en efnismiklar

25. nóv. 2021
...smátt er fagurt