Jól hjá Leiðinni okkar allra

21. desember 2021

Jól hjá Leiðinni okkar allra

Nýir hlaðvarpsþættir: Leiðin okkar allra - mynd: Völundur Jónsson

Í síðustu viku fór fyrsta sería hlaðvarpsþáttarins Leiðin okkar allra í loftið en í tilefni af vetrarsólhvörfum hefur jólaþátturinn einnig verið gerður aðgengilegur, Verði ljós, elskan.

Spyrlar þáttanna eru prestarnir Ása Laufey Sæmundsdóttir og Bolli Pétur Bollason en umsjónarmaður er Arnaldur Máni Finnsson. Þættirnir draga nafn af innihaldsríku ljóði Einars Georgs Einarssonar og lagi Þorsteins Einarssonar, Leiðin okkar allra, en Þorsteinn ljáði hlaðvarpinu einnig nýja útgáfu af laginu fyrir inngang og stef þáttarins. Einstaklega viðeigandi og sterka útgáfu.

„Stefið og inntakið tala mjög skýrt saman, þetta eru samtöl sem snúast um að líta innávið og hvíla í því að ná tengslum og dvelja með öðrum“ segir Arnaldur en hann sér einnig um tæknilega hlið dagskrárgerðarinnar, klippingu og hljóðvinnslu. „Ég vona að hlustendur láti ekki umgjörðina trufla sig, við erum öll að læra nýja hluti og erum að feta okkur áfram í því að miðla á nýjan hátt. Styrkur þáttanna held ég að felist annars í því að vera í öðrum takti en mikið af fjölmiðlaefni samtímans og gefa rými fyrir hugleiðingar og hliðar á málunum sem annars lenda á jaðrinum. Við fáum að sjá aðrar hliðar á fólki sem margir þekkja, þær sem til að mynda snúa að trú þeirra - hvaða nafni sem hún annars er nefnd, og það tel ég vera mikilvægt á okkar tímum. Trú er oft bæði jaðarsett og útmáluð í einföldum litum, svarthvítu nánast og aðeins þau sem vilja sjálf vera þekkt fyrir að vera trúuð á einhvern ákveðinn hátt fá að tjá sig um trú sína. Venjulegt fólk er helst ekki spurt um trú, það er jafnvel of persónuleg spurning, eins og sagt er,“ segir Arnaldur. „Við erum kannski bara svona aðeins að reyna mæta því. Og sýna fram á að við séum þáttakendur í samtali sem á sér stað, því ef kirkjan færi að vinna á sömu forsendum og það sem Jesús kallar heiminn að sínu hlaðvarpi, þá værum við ekki að fylgja því fordæmi hans að vera þar sem þörfin er. Hér eru ekki bara hin innvígðu og sanntrúuðu. Það þurfa allir sitt, en við erum svona að reyna fóta okkur á torginu, á meðal fólks í dagsins önn. Samferða vonandi, ekki bara föst á musterishæðinni.“

Viðmælendur þáttanna koma úr ýmsum áttum og hafa ólíkan bakgrunn en eru teknir upp í hljóðstofu sem hefur hlotið nafnið Skrúðhúsið og er staðsett í Katrínartúni 4.

„Það er gaman að læra á sig í nýjum aðstæðum. Þetta er krefjandi eins og öll þau verkefni sem kalla á að maður sé í 100% hlustun og nánd, því það er fullkomin einlægni í gangi,“ segir Ása Laufey en á meðal viðmælendanna eru bæði fjölmiðlavant fólk, sem og fólk sem hefur aldrei áður komið í svona viðtöl. „Ég held að maður eigi bara eftir að vaxa með þessu verkefni, því það er auðvitað mjög gaman að kynnast fólki í svona nýju samhengi og oft á mjög djúpstæðan hátt.“


Viðmælendur

„Það er framtíð í þessu held ég, tónn sem fólk þarf alveg á að halda í öllum þessum hraða samtímans,“ segir Bolli Pétur, en hann er ánægður með viðbrögð hlustenda við þáttunum. „Við Ása erum spyrlar en ekki bara spyrlar heldur ekki síður hlustendur. Okkar mikilvægasta verkefni er að hlusta vel eftir því sem viðmælendur eru að segja og gefa þeim gott rými til að segja sögu sína. Maðurinn var náttúrulega skapaður með tvö eyru en aðeins einn munn og ég held að það séu skilaboð um að við ættum að hlusta að minnsta kosti helmingi meira en við tölum.“

Viðmælendur fyrstu seríu Leiðarinnar eru: Björn Hjálmarsson, Þórunn Sigurbergsdóttir, Nói Blomsterberg, Svana Helen Björnsdóttir, Ólafur Teitur Guðnason, Rósa Björg Brynjarsdóttir og Haukur Ingi Jónasson auk söngvaskáldsins Svavars Knúts Kristinssonar. Í jólaþættinum er rætt við skáldið Soffíu Bjarnadóttur en vonir standa til þess að snemma á næsta ári komi næsta sería út.

Leiðin okkar allra - á Spotify

Sjá einnig þennan tengil: https://podcasts.apple.com/us/podcast/leiðin-okkar-allra/id1601295589

amMyndir með frétt

VIðmælendur
  • Guðfræði

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

Dr. Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor í sögu Mið-Austurlanda við Williams College, Massachussets

Góður gestur

18. jan. 2022
...bænavikan og Miðausturlönd
Skálholtsdómkirkja á vordegi - mynd: hsh

Starf laust í Skálholti

17. jan. 2022
...ráðsmaður og umsjónarmaður fasteigna
Seltjarnarneskirkja hefur sýnt mikinn kraft í rafrænu helgihaldi - sr. Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur - mynd: hsh

Rafrænt helgihald

16. jan. 2022
...margt í boði