Örboðskapur úr skónum

22. desember 2021

Örboðskapur úr skónum

Snjöll hugmynd í Grafarvogskirkju: Örboðskapur úr skónum - sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir - mynd: Guðrún Karls Helgudóttir

Þó hefðir og siðir séu traust uppistaða í öllu kirkjustarfi þá er alltaf mikilvægt að brydda upp á einhverjum nýjungum samhliða. Þær verða eins og ilmandi nýtt krydd í kirkjustarfinu sem vekur athygli á boðskap og starfi kirkjunnar með öðrum hætti en hinum hefðbundna. Hvort tveggja er gott með öðru.

Það er þetta með jólaskóinn. Siður sem er skemmtilegur og uppbyggilegur, elur á eftirvæntingu og gleði barna sem fullorðinna. Meira að segja var í fréttum um daginn að blessaðir fangarnir í Hólmsheiðarfangelsinu hefðu fengið í skóinn. Reyndar kartöflu þann daginn sem var nú fremur fúlt. En örugglega hefur ræst úr því næsta dag. Vonandi.

Nýir miðlar kalla á nýjar aðferðir. Kirkjunnar fólk lærir smám saman að nota þá.

Sóknarprestinum í Grafarvogsprestakalli, sr. Guðrúnu Karls Helgudóttur, datt snjallræði í hug þegar hún átti fund með Instagramsérfræðingum að nýta þann miðil með því að styðjast við skóinn sem börnin setja út í glugga þessa þrettán daga fyrir jól þegar jólasveinarnir standa í sínu skemmtilega brölti.

Í skóinn frá Grafarvogskirkju, heitir innslagið á Instagram og Facebook. Eða: Örboðskapur úr skónum. Prestarnir kíkja í skóinn, það er alltaf sami skórinn, fallegur íþróttaskór. „Myndrænn skór sem fólk á breiðu aldursstigi notar,“ sagðir sr. Guðrún þegar kirkjan.is ræddi við hana. „Ekki of fínn skór eða uppstrílaður heldur venjulegur.“ Þau nota alltaf saman hvíta og svarta íþróttaskóinn. Og sr. Guðrún bætir því við að boðskapurinn sem tengist því er í skónum leynist sé nefnilega einfaldur, hnitmiðaður og fallegur.

Enginn þáttur er tekinn upp á sama stað, upptakan fer yfirleitt fram degi á undan sýningu og þetta upplegg gerir formið dálítið frjálst og persónulegt. Í fyrstu voru ákveðin temu tekin fyrir en síðar var efnið algerlega í höndum þeirra er um það sáu í hvert sinn.

Sr. Guðrún segir að viðtökurnar hafi verið mjög góðar. Á Instagramminu og Facebook. Reynt hafi verið að miða lengdina við það myndskeiðið rúmaðist innn Story. Það hefur tekist.

Kirkjan.is tók nokkrar stikkprufur á þessu skemmtilega framlagi Grafarvogskirkju. Ekki olli það vonbrigðum.

Fyrst var það 12. desember og sr. Guðrún dró upp úr skónum kerti. Kveikti á því og sagði það gefa ró, birtu og ilm. Það væri gott í desembermánuði sem gæti verið stressandi mánuður. Reykurinn sem stigi upp frá kertinu gæti og verið hljóð bæn. Þetta var hnitmiðaður örboðskapur sem var fylgt eftir með óvæntri innkomu jólakattarins – eða köttur var það svo sannarlega, vonandi ekki jólakötturinn!


Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir dró þann 13. desember upp úr skónum gamlan jólasvein sem var uppáhaldsjólasveinn hennar þegar hún var lítil og hafði mamma hennar átt hann þegar hún var lítil. Sr. Arna Ýr minnti á að jólin tengja saman kynslóðirnar, nútíð og framtíð; það sást vel í gamla jólasveininum. Jólin gefa gleði í nútíðinni og von inn í framtíðina.


Þá var það 15. desember. Þar var sr. Magnús Erlingsson með skóinn og dró upp úr honum auðan miða. Og lagði út af honum með örstuttri og snjallri hugleiðingu: Kannski er þetta góð mynd af Jesú þetta spurt er hver hann sé. Hann sé nefnilega hver sá sem við mætum daglega. Góður örboðskapur!


Daginn eftir - eða þann 16. desember – var sr. Guðrún aftur mætt með skóinn og dró upp úr honum mannbrodda sem hún tengdi vel við hversdagslegt líf og hvernig Guð getur komið inn í líf fólks.


Þann 18. desember gekk sr. Sigurður Grétar Helgason að skónum og dró upp úr honum lítinn jólapakka sem dóttir hans hafði beðið um að færi í kirkjuna. Stærsta jólagjöfin væri hins vegar frelsarinn. Hann kæmi með frið og kærleika. Örboðskapur sem hittir í mark.


Kirkjan.is hvetur fólk til að renna yfir örboðskapinn úr skónum hjá þeim í Grafarvogskirkju. Góður boðskapur og hlýr, skemmtilegur og settur fram með persónulegum hætti.

hsh

  • Frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Nýjung

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Fræðsla

Dr. Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor í sögu Mið-Austurlanda við Williams College, Massachussets

Góður gestur

18. jan. 2022
...bænavikan og Miðausturlönd
Skálholtsdómkirkja á vordegi - mynd: hsh

Starf laust í Skálholti

17. jan. 2022
...ráðsmaður og umsjónarmaður fasteigna
Seltjarnarneskirkja hefur sýnt mikinn kraft í rafrænu helgihaldi - sr. Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur - mynd: hsh

Rafrænt helgihald

16. jan. 2022
...margt í boði