Áramótakveðja frá biskupi Íslands

31. desember 2021

Áramótakveðja frá biskupi Íslands

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands - mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson

Gamlársdagur – nýársdagur. Þessir dagar falla saman á dagatalinu. Annar tilheyrir því sem var hinn því sem verður.

Á síðasta degi ársins lítum við gjarnan um öxl og tökum með okkur lærdóm og reynslu ársins inn í nýtt ár. Á nýársdag horfum við til framtíðar með allar okkar vonir og væntingar.

Síðastliðin tvö ár hafa verið okkur erfið. Við höfum tekist á við margt sem jarðarbúar hafa ekki reynslu af. Heimsfaraldurinn er þar efst á blaði og óþolinmæði farið að gæta hjá vertíðarþjóðinni sem er alvön að takast á við áföll og tímabundin verkefni en minna þjálfuð í að takast á við langtímaverkefni sem ekki sér auðveldlega fyrir endann á. Það skapar óvissu sem alltaf er slæm. Þá er gott að hafa í huga orðin úr Orðskviðunum 3.5: „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.“

Við vitum ekki nákvæmlega hvað nýja árið færir okkur en vonum að það verði farsælt og gott. „Hvað boðar nýárs blessuð sól?“ spurði sr. Matthías í áramótasálmi sínum og í trúarvissu sinni hvetur hann okkur til dáða:

„Ó, sjá þú Drottins björtu braut,
þú barn, sem kvíðir vetrar þraut.
Í sannleik, hvar sem sólin skín
er sjálfur Guð að leita þín.

Guð er með okkur. Hann kom til okkar í barninu Jesú eins og jólin boða. Því megum við treysta og trúa.

Gleðilegt og farsælt ár 2022 með þökk fyrir árið 2021.

Agnes M. Sigurðardóttir,
biskup Íslands

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Biskup

Dr. Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor í sögu Mið-Austurlanda við Williams College, Massachussets

Góður gestur

18. jan. 2022
...bænavikan og Miðausturlönd
Skálholtsdómkirkja á vordegi - mynd: hsh

Starf laust í Skálholti

17. jan. 2022
...ráðsmaður og umsjónarmaður fasteigna
Seltjarnarneskirkja hefur sýnt mikinn kraft í rafrænu helgihaldi - sr. Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur - mynd: hsh

Rafrænt helgihald

16. jan. 2022
...margt í boði