Dagar almanaka taldir?

7. janúar 2022

Dagar almanaka taldir?

Dagatal Kristniboðssambandsins 2022 - myndir af fólki og tilvitnun í Biblíuna fylgja hverjum mánuði

Útgáfa á dagatölum hefur látið undan síga á síðustu áratugum en heldur þó enn velli. Ýmis fyrirtæki gefa enn út dagatöl en þó í minni mæli en áður. Mörg félagasamtök gefa út dagatöl í ágóðaskyni en þó ekki síður til að auglýsa starfsemina og vekja almenna athygli á henni.

Dagatal sem hangir á vegg vekur athygli ef myndir eru fallegar og áhrifamiklar. Myndirnar tengjast viðfangsefnum þeirra er gefa út dagatalið og geta vakið áhuga annarra á þeim.

Elsta dagatalið sem út kemur er almanak Hins íslenzka þjóðvinafélags og hefur áunnið sér sérstakan sess en það kom fyrst út 1875. Þar er að finna ýmsar upplýsingar um sjávarföll, helgidaga, gang himintungla, mælieiningar, tímabelti jarðar, og ríki heims.

Eitt kunnasta dagatalið kemur út á vegum Kristniboðssambandsins. Fyrsta dagatalið komið út í árslok 1985 fyrir árið 1986. Það hefur því komið út í rúm þrjátíu ár. Þetta dagatal var hugsað sem bein fjáröflun og selt. Síðar var horfið frá því að selja það og dagatalið sent áskrifendum Kristniboðsfrétta, dreift í kirkjur og víðar. 

Myndirnar á dagatali Kristniboðssambandsins sýna okkur inn í heim sem við fæst þekkjum. Það er vettvangur kristniboða, störf þeirra og líf. Einnig hversdagslegt líf fólks á kristniboðssvæðum. Oft sterkar mannlífsmyndir og mjög fallegar. Eitt árið prýddu myndir af gróðri og landslagi dagatalið.

„Hugmyndin er að minna á og kynna starfið og því mikilvægt að myndirnar sýni það eða eitthvað sem því tengist,“ segir sr. Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Kristniboðssambandsins. „Við reynum að velja fallegar myndir eða mótíf. Svo eru upplýsingar um starfið og helstu verkefni í almanakinu og eins um gjafareikninga og fleira. Ritningarvers er fyrir hvern mánuð.“

Prentað upplag af almanakinu hefur komist upp í tíu þúsund eintök en er nú prentað í fimm þúsund eintökum.

Dagatal samráðsvettvangs trúfélaga og lífskoðanafélaga er til þess að gera nýtt á markaðnum. Hefur komið út í rafrænu formi í þrjú ár og telst slíkt vera nýjung. Öll félögin sem eru innan vettvangsins standa að útgáfunni en þau eru 25 að tölu. Hönnuður þessa dagatals er Geoffrey Pettypiece. Lárus E. Bjarnason tók myndirnar. Enginn höfundarréttur fylgir dagatalinu og er því ætlast til dreifingar að vild.

Þetta dagatal er óvenjulegt fyrir þær sakir að á því má finna helstu hátíðisdaga og minningardaga hinna ólíku trúfélaga.

„Þetta er ekki trúboðsáróður af neinu tagi heldur er leitast við að miðla upplýsingum til almennings, sem geta nýst á margvíslegan hátt í fjölmenningarþjóðfélagi nútímans.“ segir sr. Jakob Roland, prestur kaþólsku kirkjunnar, þegar kirkjan.is spyr hann um málið. Mikilvægt sé að vekja skilning í samfélaginu um að trúar- og lífsskoðunarfélög eigi sér ólíka daga sem tengjast þeim og þá alla verði að taka með virðingu og tillitssemi. Sr. Jakob vonast til að dagatalið stuðli að samheldni samfélagsins á Íslandi með umburðarlyndi og gagnkvæma virðingu að leiðarljósi. 

Í þessu sambandi má nefna nokkur samtök sem gefa út dagatöl: Dýrahjálp Íslands, Kattavinafélag Íslands, og Blindrafélagið.

hsh


Dagatal samráðsvettvangs trúfélaga og lífskoðanafélaga - janúar - hátíðir og minningadgar merkir - (skjáskot)