Faraldurinn þyngist

13. janúar 2022

Faraldurinn þyngist

Neskirkja - upptökuvél og auðir bekkir á veirutíð - mynd: hsh

Um þessar mundir er íslenskt samfélag meira og minna undir hælnum á kórónuveirufaraldrinum. Daglega berast fréttir af auknum fjölda smita og neyðarstigi almannavarna var lýst yfir í fjórða sinn vegna faraldursins. Almenningur er hvattur til að hafa sem hægast um sig. Ástandið á Landspítalanum er grafalvarlegt og má lítið út af bregða. Skólastarf hefur raskast mjög mikið og hundruð starfsmanna skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar eru ýmist í sóttkví eða einangrun. Leikskólar ná ekki að manna starfsemi sína.

Í gær var svo upplýsingafundur almannavarna þar sem farið var yfir hina alvarlegu stöðu. Sóttvarnalæknir sagði að hann myndi hugsanlega skila inn nýju minnisblaði fyrir helgi þar sem lagðar yrðu til enn harðari aðgerðir en nú gilda.

Í ljósi þessa sendi biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, í gær bréf til presta, djákna, organista, sóknarnefnda og útfararstjóra. Þar segir hún meðal annars:

„Ég tel nauðsynlegt vegna þessarar erfiðu stöðu í faraldrinum og hve margir greinast smitaðir daglega að við höfum sömu reglu og um áramótin og köllum ekki fólk til helgihalds - streymum guðsþjónustum ef mögulegt er.

Allt safnaðarstarf í þessari viku og næstu helgi ætti einnig að fella niður. Þar sem hægt er að streyma helgihaldinu eða spila upptökur væri það mikil blessun. Eftir helgi kann að vera komin önnur staða sem við skoðum þá.“

Biskup bendir á að kirkjan hafi frá byrjun brugðist við faraldrinum með því að streyma beint frá fjölbreytilegu helgihaldi sem og taka það upp og senda út.

„Ég hvet ykkur til að halda því góða starfi áfram þar sem ekki er unnt að kalla fólk til kirkjunnar,“ segir biskup í bréfi sínu. „Ykkar elja og dugnaður við að móta og þróa þjónustu kirkjunnar í stundum næsta ómögulegum og síbreytilegum takmörkunum er vitnisburður um stórkostlega Þjóðkirkju og bjarta framtíð. Kirkjan er fólkið.“

Bréf biskups vegna kórónuveirufaraldurs - nr. 34 12. janúar 2022.pdf

Reglugerð um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar, tekur gildi í dag og gildir til 2. febrúar n.k. 

hsh


  • Covid-19

  • Frétt

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Biskup

Dr. Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor í sögu Mið-Austurlanda við Williams College, Massachussets

Góður gestur

18. jan. 2022
...bænavikan og Miðausturlönd
Skálholtsdómkirkja á vordegi - mynd: hsh

Starf laust í Skálholti

17. jan. 2022
...ráðsmaður og umsjónarmaður fasteigna
Seltjarnarneskirkja hefur sýnt mikinn kraft í rafrænu helgihaldi - sr. Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur - mynd: hsh

Rafrænt helgihald

16. jan. 2022
...margt í boði