Skírnin á tímamótum?

2. febrúar 2022

Skírnin á tímamótum?

Fallegur stuðlabergs-skírnarfontur Neskirkju - mynd: hsh

Kirkjuþing samþykkti 2018 þingsályktun um fræðslustefnu þjóðkirkjunnar. Þar var rækilega tekið fram að sérstök áhersla næstu árin skyldi vera á skírnarfræðslu og fræðslu um umhverfismál. Tveimur árum áður hafði kirkjuþing samþykkt tillögu um skipan þriggja manna starfshóps um skírnarfræðslu sem skylda leggja fram markvissar tillögur um „kynningu og fræðslu um gildi skírnarinnar.“ Sú nefnd skilaði skýrslu um málið sem lesa má hér, bls. 35. Nefndin er er enn starfandi og er formaður hennar sr. Sjöfn Jóhannesdóttir. 

Um 1975 voru flestir landsmanna í þjóðkirkjunni og flest börn fengu nafn við skírn. Mikil breyting hefur orðið á þessu.

Nú hefur skírnum fækkað nokkuð hin síðari ár bæði hér á landi og í öðrum löndum þar sem lúthersk kirkja stendur styrkum fótum. Ástæður þess eru ekki fullljósar og eflaust ólíkar að einhverju leyti frá einu landi til annars. Hér á landi hefur verið til dæmis bent á auknar vinsældir svokallaðra nafnaveislna sem eina skýringu. Eflaust eru margar samverkandi skýringar sem geta varpað ljósi á fækkun skírna í kirkjunum. Skírn er lykilatriði í kristinni trú og út frá því er gengið að öll þau sem tilheyra þjóðkirkjunni séu skírð enda þótt svo sé ekki. 

Dagana 19. -20. janúar var haldið norrænt samráðsþing um skírnina á vefnum. Fulltrúar þjóðkirkjunnar á samráðsþinginu voru Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings; sr. Alfreð Örn Finnsson, sr. Gunnar Einar Steingrímsson, sr. Hans Guðberg Alfreðsson, sr. Kristján Valur Ingólfsson, Magnea Sverrisdóttir, fulltrúi þjóðkirkjunnar í samráðsnefnd um kirkjur á tímum breytinga og sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, fulltrúi þjóðkirkjunnar í rannsóknarnefnd um skírnina.

Allt breytist...
Skírnarumhverfið er að breytast á Norðurlöndum. Ungbarnaskírnum fækkar en skírnum ungmenna og fullorðinna fjölgar. Mikilvægt er að kanna möguleika á fjölbreyttari athöfnum, nýjum nálgunum við að kynna skírnina og vinna að helgihaldi sem tekur mið af mismunandi aðstæðum og aldri skírnarþega.
Viðbrögð við þeim áskorunum sem felast í fjölhyggju og fjöltrúar samfélagi og breyttu skírnarumhverfi eru meginþema tillagna til lútherskra þjóðkirkna frá samráðsþingi um skírnina... Samfélag okkar hefur tekið breytingum, fjölhyggja og mismunandi trúarbrögð skapa nýjar áskoranir fyrir kirkjuna. Einnig hafa hefðir tengdar skírninni breyst. (Úr fréttatilkynningu).

Kirkjan.is ræddi við sr. Steinunni Arnþrúði Björnsdóttur um netsamráðsþingið um skírnina og spurði fyrst hver væri að hennar mati staða skírnarinnar í þjóðkirkjunni.

„Skírnum hefur fækkað mikið, eins og sjá má á efni um tölfræði á churchesintimesofchange.org en þar er að finna gríðarlega mikið efni um skírn,“ segir sr. Steinunn Arnþrúður. „Skírn ungbarna sem hefð virðist frekar á undanhaldi en algengara er að þau sem velja skírn geri það eftir umhugsun sem þýðir að valið er meðvitaðra. Það er líka jákvætt.“ Hún segir jafnframt að við höfum margt hér sem er jákvætt sé miðað við aðrar þjóðir. „Bæði hvað varðar sveigjanleika og að mæta fólki þar sem það er statt og meðal annars nýjungar, t.d. í tengslum við foreldraviðtöl og fræðslu. Það er mikilvægt að líta á þessar áskoranir sem tækifæri.“

Að hvaða leiti þarf að efla skírnarfræðsluna að þínu mati?

„Ég var mjög hrifin af þeirri nálgun miðlunarhópsins um að færa áhersluna á viðtakandann. Að mæta fólki og bjóða til samfélags, þar sem við tilheyrum. Þar gæti verið tækifæri til að styrkja tengsl við þau sem koma með börn til skírnar og fylgja þeim tengslum betur eftir. Sem og við þau sem koma stálpuð eða fullorðin. Við eigum talsvert af efni en það miðast allt við ungabörn. Þarna getum við gert betur.“

Í sambandi við guðfeðgin, kom til umræðu að hlutverk þeirra væri sögulega úrelt eða það væri enn mikilvægt sem áður?

„Norrænu þjóðkirkjurnar hafa ólíkar reglur um guðforeldra. Danir krefjast þess að guðforeldrar séu skírðir en þeir mega vera utan trúfélaga. Finnar krefjast þess að guðforeldrar séu í kirkjunni. Oft hefur það verið erfitt og því biðja þeir bara um eitt guðforeldri. Svíar hafa ekki kröfu um guðforeldra. Prestur frá Noregi benti á að þó að guðforeldri sé í kirkjunni vitum við ekkert um trú þess einstaklings. Kannski er einhver utan trúfélaga trúaðri og hefði kristin gildi meira í hávegum, þó að hann megi ekki vera guðforeldri. Þessi setning ögrar okkur því til að skoða betur hlutverk og væntingar til guðforeldra og efla fræðslu og tengsl til þeirra.“

Horft til skírnar út frá fjórum þáttum:
Tölfræði og þjóðfélagsbreytingum, guðfræði skírnarinnar, kynningu á skírninni og fræðslu ásamt skírnarathöfninni sjálfri. Sé litið til síðustu tveggja áratuga hefur skírnum fækkað í öllum kirkjunum sem tóku þátt í þinginu, auk stórfelldra samfélagsbreytinga. Þessi atriði voru til umfjöllunar sem áskorun til þess að endurskoða hefðir, eiga samtal og kynnast ólíkum hefðum. Auk þess að kappkosta að skýra guðfræði skírnarinnar svo að hún sé öllum aðgengileg og skiljanleg. Þá eru kirkjur einnig hvattar til sífelldrar endurskoðunar á málfari helgihaldsins og framkvæmd.
Niðurstöður rannsóknarvinnunnar er að finna á vefsvæðinu churchesintimesofchange.org. Þar er meðal annars að finna yfirlit rannsókna á Norðurlöndum er varða skírn, upplýsingar um kynningarherferðir, yfirlýsingar kirkna og fleira. Hægt er að skoða gagnagrunninn eða hlaða niður lista með kynningum á efninu. Þar má einnig sjá upptökur af vefþingunum. Þátttaka í vefþingum verkefnisins var góð. Alls tóku 350 manns þátt, margir oft og voru að meðaltali 50 á hverri vefstofu, sem stundum fór yfir 100 þátttakendur. Þar voru hlutfallslega margir frá Íslandi, sem var mjög gleðilegt... (Úr fréttatilkynningu).


Samráðsþingið var ekki opið heldur var fólki boðið að taka þátt í því og voru þátttakendur um 50. Prestar og kirkjufólk, úr söfnuðum, kirkjustjórn, háskólum og frá rannsóknarstofnunum. Á þinginu voru kynntar tillögur og leiðbeiningar sem byggja á rannsóknarvinnunni og níu vefstofum sem voru opnar og haldnar árið 2021.

Sr. Steinunn Arnþrúður segir að afrek þessa skírnarverkefnis hafi verið að stofna gagnagrunn á netinu og að halda allar vefstofurnar. Hátt í fjórða hundrað manns hafi sótt vefstofurnar og að meðaltali 50 í hverri stofu og fóru stundum yfir 100 þátttakendur. Hún segir það hafa líka verið gleðilegt að þátttaka okkar hafi verið mjög góð.

hsh

Úr skýrslunni (skjáskot):

Fyrsti dálkur: Ár, annar dálkur: Skírn í þjóðkirkjunni, þriðji dálkur: Nýfædd börn, og fjórði nýfædd börn er tilheyra þjóðkirkjunni

Skírn í prósentum: Ár: Svíþjóð, Noregur, Danmörk, Ísland og Finnland. Fækkun skírna hefur verið hröð á Íslandi, Finnland og Ísland eru á pari aldamótárið 2000 en tveimur áratugum síðar er Ísland 20% undir Finnlandi, nær Svíþjóð sem þó var með 72,8% um aldamótin. 

 


  • Frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Fræðsla

  • Fréttin er uppfærð

Sveinbjörn Blöndal í góðum félagsskap herra Guðbrands Þorlákssonar og fleiri andans kappa- mynd: hsh

Viðtalið: Menningarlegt þrekvirki

05. júl. 2022
...um Guðbrandsbiblíu og fleira
Hallgrímskirkja í gær - Bente Colding-Jørgensen stjórnar nokkrum félögum úr Nordisk Koncertkor Nuuk - mynd: hsh

Kirkjulegt menningarstarf

04. júl. 2022
...kór frá Nuuk og upphafstónleikar Orgelsumarsins
Dr. Guðmundur Björn við doktorsvörnina í Brussel - mynd: Haraldur Hreinsson

Doktor í Brussel

04. júl. 2022
...guðfræðingur og heimspekingur ver doktorsritgerð