Mikill hugur í fólki
„Þetta er allt í góðu, það er bræla, ég er nú sjómaður,“ segir Alfreð Garðarsson sóknarnefndarformaður Miðgarðasóknar í Grímsey þegar kirkjan.is spyr hvernig hún sæki að honum með smá spjall. „Já, það er bara hrein og klár norðanfýla.“
Kirkjan brann til grunna 21. september á síðasta ári eins og kunnugt er. „Það var ekki eitt einasta snitti eftir,“ segir Alfreð. „Þetta skeði í brjáluðu veðri.“ Kirkjubruninn var þungt áfall fyrir byggðina og fundu landsmenn mjög til með þeim Grímseyingum. Strax varð ljóst að menn vildu reisa kirkju sem fyrst og söfnun var ýtt úr vör.
Mikil menningarverðmæti fóru forgörðum þegar Miðgarðakirkja í Grímsey brann. Kirkjan var reist 1867 og endurbætt síðar í tvígang, hún stækkuð 1932 og turn settur á. Kirkjan átti marga góða gripi. Skírnarfontur var til dæmis útskorinn af Einari Einarssyni 1958, þá var altaristaflan eftirmynd af kvöldmáltíðarmynd da Vincis, máluð af Arngrími Gíslasyni, málara, 1879. Einnig tvær söngtöflur eftir Einar. Ljósakrónur, gamlar, voru frá seinni hluta 19. aldar. Tvær klukkur átti kirkja og voru þær úr Siglufjarðarkirkju, frá 1799 og 1862. Miðgarðakirkja er nú hluti af Dalvíkurprestakalli og þjónað þaðan.
„Nýja kirkjan sem verður byggð verður ekki ólík þeirri sem brann, það verður vísað í hana með ýmsu móti,“ segir Alfreð, „hún verður stærri og krossarnir settir á turnhornið.“
Búið er að teikna kirkjuna - það verk var í höndum Hjörleifs Stefánssonar, arkitekts. Smíðin verður meira og minna í höndum smíðaverkstæðisins Loftkastalans sem sóknarnefnd samdi við.
Söfnunin gengur vel en þó vantar töluvert upp á til að ná upp í byggingarkostnaðinn sem verður um 80-100 milljónir.
Ríkið styrkti söfnunina um 20 milljónir og eru Grímseyingar afar þakklátir fyrir það.
Alfreð Garðarsson hefur verið sóknarnefndarformaður Miðgarðasóknar frá 1999, uppalinn á eyjunni frá fæðingu. Í Grímsey er byggðin fámenn, vetursetu hafa um 30 manns. Yfir sumarið er hátt í hundrað manns og mannlífið fjörugt. Mikið um aðkomubáta og skólakrakkarnir koma heim. Skólanum í eynni var lokað og nú fara börnin til Akureyrar í skóla og voru það mikil viðbrigði. Fermingarbörn eru engin þetta árið en voru tvö í fyrra. Skólahúsnæðið verður notað fyrir helgihald þar til kirkjan verður risin. Engin var þó jólamessan þar sem kórónuveiran setti strik í reikninginn eins og alþjóð er kunnugt og að auki var aftakaveður í eynni. Prestarnir komust svo ekki dagana þar á eftir vegna ýmissa anna. Sjónvarp og útvarp miðluðu jólaboðskapnum Grímseyingum til ánægju og gleði.
„Við ætlum að byrja strax í vor á kirkjubyggingunni, erum búin að ráða smiði,“ segir Alfreð fullur af kappi, „já, þeir eru að forsmíða ýmislegt eins og glugga – svo erum við búin að ráða rafvirkja og pípara.“ Steypustöðin á Dalvík sér um alla jarðvinnu og steypu.
Alfreð segir að stefnt sé að því að loka kirkjubyggingunni í haust: „Gaman væri að vígja hana ári síðar en sú gamla brann.“
„Við erum að velta því fyrir okkur að nota stuðlaberg hér í eynni í altari, gólfflísar og skírnarfontinn,“ segir Alfreð, „stuðlabergið eru úr bjarginu sem Guðmundur góði Arason biskup vígði forðum daga. Gaman að geta vísað til þess.“ Hann vígði öll eyjabjörgin nema Eyjarfótinn fyrir utan Köldugjá.
Þannig stóð á í lífi biskupsins Guðmundar góða að hann var á flótta undan Sturlungum og hafðist við í eynni. Þetta var árið 1222 eða fyrir 800 árum á þessu ári. Þegar Sturlungar sóttu að honum leitaði hann skjóls í kirkjunni í Grímsey ásamt sínum mönnum en við ofurefli var að etja. Biskupinn var sóttur í kirkjuna og fluttur til lands. Margir menn Guðmundar féllu.
Kirkjubyggingin þjappar íbúum Grímseyjar saman og vekur upp góðar minningar hjá öllum þeim sem kirkjan hefur þjónað. Kirkjan var mikil eyjarprýði og vakti yfir fólki og mannlífi í eyjunni. Svo mun verða áfram. Nú er bara að leggja verkefninu lið.
Reikningsnúmer söfnunar Miðgarðakirkju: 565-04-250731, kt. 4602692539.
Kirkjan.is sagði frá brunanum.
Nánar má lesa um Miðgarðakirkju sem brann í 9. bindi í Kirkjum Íslands frá 2007, bls. 152-188.
hsh
Tölvumynd af hinni fyrirhuguðu nýju kirkju - mynd fengin af vef: Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra
Við brunarústir Miðgarðakirkju. Frá vinstri: Arna Björg Bjarnadóttir, verkefnisstjóri, Inga Lóa Guðjónsdóttir og Hilmar Páll Jóhannesson frá Loftkastalanum, Hjörleifur Stefánsson, arkitekt, og Alfreð Garðarsson, sóknarnefndarformaður.
Mynd/Halla Ingólfsdóttir