Flott framtak

12. apríl 2022

Flott framtak

Framtakssamar stúlkur í Framhaldsskólanum á Laugum, frá vinstri: Elín Rós Sigurðardóttir, Edda Hrönn Hallgrímsdóttir, Sigrún Anna Bjarnadóttir, Karólína Dröfn Jónsdóttir, Bryndís Anna Magnúsdóttir. Mynd: Líney Lára Kristinsdóttir

Kirkjan.is frétti af einstaklega fallegu framtaki nokkurra stúlkna í Framhaldsskólanum á Laugum í Þingeyjarsýslu. Þær hafa gengið til áheita fyrir nýrri Miðgarðakirkju í Grímsey í stað þeirrar er brann til grunna 22. september í fyrra og kirkjan.is sagði frá hér. Það var mikið tjón fyrir Grímseyinga en þeir hafa staðið sem einn maður í því að byggja nýja kirkju og í þeim er mikill hugur. Áætlaður kostnaður við byggingu nýrrar kirkju er um 100 milljónir króna.

En stúlkurnar í Laugaskóla gengu frá skólanum sínum að félagsheimilinu Ýdölum sem er um 20 kílómetra leið.

„Við völdum dag sem var gott veður,“ segir Bryndís Anna Magnúsdóttir, þegar kirkjan.is ræddi við hana. „Það hefur snjóað mikið í vetur, snjórinn reyndar komið og farið, og við vildum ganga í þokkalega góðu veðri.“

Bryndís Anna hafði yfirumsjón með göngunni sem tók rúmar fjórar klukkustundir. Hún hefur líka verið að hringja i fyrirtæki og safna áheitum.

En hvernig datt þeim þetta verkefni í hug?

„Mamma mín hefur verið mikið úti í Grímsey að taka myndir og svoleiðis og ég hef líka komið þangað nokkrum sinnum,“ segir Bryndís Anna, „og svo brann kirkjan og þá kom upp þessi hugmynd að safna fyrir nýrri kirkju.“ Bryndís Anna segir að hún og vinkonur hennar hafi verið að leita að sérstöku samfélagsverkefni og fannst þetta smellpassa við það. Þær eru allar á fyrsta ári í Framhaldsskólanum á Laugum og eru mjög ánægðar með skólavistina. Í skólanum eru rúmlega 100 nemendur að sögn Bryndísar Önnu. Flestir nemanna eru úr sveitunum í kring og frá Húsavík og Akureyri. „Þetta er æðislegur skóli,“ segir Bryndís Anna.

Hver og einn ræður því hve mikið hann eða hún gefur en stúlkurnar hafa sett viðmið, til dæmis fyrir fyrirtæki, kr. 5000-10.000, og einstaklinga að lágmarki kr. 1000.

Kirkjan.is óskar þessum stúlkum til hamingju með þetta fína framtak og hvetur sem flesta til að leggja þeim lið.

Greiða má áheitin beint inn á reikning Miðgarðakirkju Grímseyjar.

Reiknings númer 565 04 250731 og kennitölu 460269-2539.
Merkið greiðsluna „Áheitasöfnun Laugaskóla“
– mikilvægt er að fólk sendi rafræna kvittun í heimabankanum á netfangið: fjarmal@laugar.is

Framhaldsskólinn á Laugum

Kirkjan.is ræddi og við skólameistarann á Laugum, dr. Sigurbjörn Árna Arngrímsson. Hann var að vonum afar ánægður með framtak stúlknanna. „Við erum alltaf ánægð þegar nemendur okkar láta gott af sér leiða,“ sagði hann.

Spurður nánar út í Framhaldsskólann á Laugum svaraði hann svo: „Á þessari vorönn erum við með 118 nemendur skráða í nám hjá okkur. Þar af eru 91 sem koma daglega á staðinn til náms. Af þeim búa 82 á heimavistinni, 2 eru við nám við útibúið okkar á Vopnafirði (koma 1 viku í mánuði í Laugar) og 7 nemendur búa í nágrenninu og koma í skólann á hverjum degi. 7 nemendur eru svo í grunnskóla en eru þegar byrjaðir að taka framhaldsskólaáfanga hjá okkur og 20 nemendur eru það sem við köllum utan skóla. Þeir búa heima hjá sér og eru að taka 1-3 áfanga. Yfirleitt eru það nemendur sem eru við það að útskrifast og eiga mjög lítið eftir og fá því að stunda nám heima (við erum almennt ekki að gefa okkur út fyrir að vera fjarnámsskóli)“.

Eins og margir aðrir framhaldsskólar þá geta nemendur valið um ólíkar brautir:
„Almenn braut (undirbúningsnám fyrir stúdentsbrautir fyrir þá sem ekki hafa náð námsmarkmiðum grunnskólans): 9 nemendur
Félagsvísindabraut: 31 nemandi
Íþróttabraut: 26 nemendur
Kjörsviðsbraut (hér setja menn sitt eigið kjörsvið saman til stúdentsprófs í stað þess að taka fyrirfram sett kjörsviðin okkar sem eru íþróttir, félagsvísindi og náttúruvísindi): 25 nemendur
Náttúruvísindabraut: 18 nemendur
Íþrótta- og náttúruvísindabraut (í raun að taka próf af tveimur brautum): 1 nemandi
Íþrótta- og félagsvísindabraut: 1 nemandi
Og svo eru þessir 7 grunnskólanemendur sem myndu þá vera flokkaðir á kjörsviðsbraut.

Í skólanum eru 47 karlkynsnemendur og 71 kvenkynsnemendur. Á heimavist eru 32 karlkynsnemendur og 50 kvenkynsnemendur.“

hsh

 


  • Hjálparstarf

  • Samfélag

  • Sjálfboðaliðar

  • Viðburður

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju