Lögreglumessa 1. maí

2. maí 2022

Lögreglumessa 1. maí

Lögreglukórinn söng af miklum krafti - stjórnandi hans , Matthías V. Baldursson, við flygilinn - mynd: hsh

Í gær var haldin lögreglumessa en hún kallast svo vegna þess að lögreglumenn koma fram í henni. Lögreglukórinn syngur og einhver úr röðum laganna varða stígur í stólinn.

Nú var lögreglumessan í Hjallakirkju í Kópavogi. Lögreglukórinn söng undir stjórn Matthíasar V. Baldurssonar. Sr. Sunna Dóra Möller þjónaði fyrir altari.

Texta laganna sem lögreglukórinn söng var varpað upp á kórvegg og gátu viðstaddir tekið undir ef þeir vildu.

Sr. Sunna Dóra bauð kirkjugesti velkomna og lýsti ánægju sinni með að Hjallakirkja skyldi vera valin þetta árið fyrir lögreglumessuna. Það væri mikill heiður. 

Það var gaman að sjá lögreglukórinn í hátíðarbúningum sínum standa á kórpöllum, fimmtán manna kór karla og kvenna.

Kirkjan var vel sótt af lögreglumönnum, bæði starfandi og þeim sem voru komnir á eftirlaun, og fjölskyldum þeirra.

Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, flutti ræðu. Ræddi hann um starf lögregluþjóna í samfélaginu. Sagði lögregluþjóna þjóna borgurunum í margvíslegum aðstæðum. Það mætti alls ekki gleyma þjónshlutverki lögreglunnar því að það segði svo mikið um hvers eðlis starfið væri. Stór hluti af starfi þeirra byggði á kærleikanum þar sem þeir réttu samborgurunum hjálparhönd. Starf lögregluþjóna væri gefandi en það tæki líka á. Það væri ánægjulegt að kenna börnum umferðarreglur og leiðbeina þeim. En lögregluþjónar gengju líka oft inn í alvarlegar aðstæður í lífi fólks þar sem þörf væri á stillingu og skilningi. Samhliða þessu þyrfti að sýna öllum virðingu og jöfnuð því allir væru jafnir fyrir lögunum.

Það kom fram í máli Fjölnis að lögreglan hefði þurft að ganga inn í ótrúlegustu störf á tíma kórónuveirunnar og ekki öll skemmtileg né heldur til vinsælda fallin eins og að fara á veitingastaði og segja fólki að fara snemma heim vegna samkomutakmarkana. Eins og gengi hafi ekki allir brugðist skjótt við þeim tilmælum né heldur með bros á vör.

Lögreglumenn gegna lykilhlutverki í samfélaginu. Borgararnir eru ánægðir með störf lögreglunnar og hún nýtur mikils trausts samkvæmt traustleikamælingu Gallups eða 72%. Víst er að enginn vildi búa í landi sem væri án löggæslu.

Starf lögregluþjóna er líka vandasamt og krefst þess að þau sem veljast til þess séu ábyrg, skilningsrík og umhyggjusöm en hafi þó til að bera festu sem er nauðsynleg í starfinu.

Lögreglumessa var fyrst haldin í Bústaðakirkju árið 1994. Þá þjónuðu að henni sr. Kjartan Sigurbjörnsson, sr. Pálmi Matthíasson og sr. Sigurður Kr. Sigurðsson. Síðan hefur lögreglumessa jafnan verið höfð um hönd 1. maí fyrir utan nýliðin kórónuveiruár. Þetta var sem sagt fyrsta lögreglumessan í tvö ár.

hsh


Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, steig í stólinn - sr. Sunna Dóra Möller sat í kór og hlýddi á 


Lagatextum sem laganna verðir sungu var varpað upp á kórvegg


Léttar veitingar í lokin


Nokkrir vélfákar lögreglunnar fyrir utan kirkjuna


  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta