Kirkja og menning

9. maí 2022

Kirkja og menning

„Svo hleypur æskan unga/óvissa dauðans leið...“ – málverk eftir Þránd Þórarinsson – mynd: hsh

Torgið í Neskirkju er lifandi mannlífstorg og upplagður staður fyrir myndlistarsýningar og alls konar uppákomur. Kirkjan hefur verið fundvís á kröftugar listsýningar, síðast var til dæmis athyglisverð listaverkasýning Hallgríms Helgasonar á Torginu. Þar hafa einnig verið bókmenntakynningar og menningarumræður um eitt og annað. Söngur og upplestur. Torgið hefur svo sannarlega verið mannlífsdeigla þar sem fjallað hefur verið um trú og menningu, kirkju og samfélag.

Í gær var opnuð myndlistarsýning í Neskirkju að lokinni guðsþjónustu þar sem sr. Skúli Sigurður Ólafsson þjónaði og prédikaði. Við orgelið var Steingrímur Þórhallsson. Kór Neskirkju söng.

Það er listmálarinn Þrándur Þórarinsson sem sýnir verk sín á Torginu. Þessi verk geyma stef úr Hólavallagarði sem tekinn var í notkun 1838.

Listaverkin á sýningunni eru ekki mörg en þau eru grípandi og umhugsunarverð. Þau njóta sín afar vel á stórum veggjum Torgsins. Stefið er lífið og dauðinn sem og kirkjugarðurinn við Suðurgötu. Litameðferð er mjúk og oft dauf sem gefur rétt dularfull hughrif sem oft fylgja kirkjugörðum. 

Þetta eru olíumálverk og sum þeirra allstór eins og myndirnar af klukknaportinu í garðinum. Þær eru fjórar og sýnir ein mynd hverja árstíð fyrir sig. Verkin skírskota til sögunnar eins og vökukonunnar í Hólavallagarði, Guðrúnar Oddsdóttur, þar sem hún tekur á móti kvenskörungnum Þorbjörgu Sveinsdóttur. Einnig eru þar verk sem vísa til bókmenntanna en þar má sjá hjónin í Brekkukoti sem Halldór Laxness skrifaði svo fallega um í Brekkukotsannál. Þá er í einu verka hans sterk tilvísun í sálm sr. Hallgríms Péturssonar, Um dauðans óvissan tíma:

Svo hleypur æskan unga
óvissa dauðans leið...

Kirkjan.is spurði listamanninn hvenær hann hefði byrjað að mála þessar myndir.

„Ég byrjaði í nóvember en náði ekki að klára allar,“ svarar, „þær ókláruðu bíða síns tíma.“

Verkin eru öll til sölu og aðspurður kvaðst Þrándur lifa á list sinni.

Listamaðurinn
Þrándur er fæddur á Akureyri 1978. Hann hóf myndlistarnám en hvarf frá því vegna þess að honum fannst of mikil áhersla lögð á konseptlist. Síðar lauk hann meistaraprófi í heimspeki. Hann gaf málverkið ekki frá sér og hélt sínu striki. Hann stundaði myndlistarnám hjá Odd Nerdrum 2003-2006. Þrándur er hrifinn af hinum gömlu klassísku meisturum. Verk hans eru að hluta til rómantísk og full af nostalgíu til liðins tíma. Mörg verkanna geyma snarpar pólitískar satírur sem taka á málum líðandi stundar, önnur eru landslagsverk, borgarstemningarmyndir, stef úr norrænni goðafræði og popmenningu og poptónlist. Hann sækir einnig efnivið sinn í íslenska sögu, þjóðsögur og fornar sagnir. Stundum kennir áhrifa frá barrok í list hans sem og súrrealisma. Þrándur hefur haldið margar sýningar hér á landi og í Danmörku.

Texti í dagskrá sýningarinnar er mjög svo fræðandi en hann er eftir Friðrik Sólnes.

Sjón er sögu ríkari og getur kirkjan.is mælt svo sannarlega með þessari sýningu.

Heimasíða Þránds Þórarinssonar.

hsh

Þorbjörg Sveinsdóttir og vökukonan, Guðrún Oddsdóttir