Nýjung í Garðasókn

14. maí 2022

Nýjung í Garðasókn

Blessunarguðsþjónustan í Vídalínskirkju - börnin blessuð af prestum og djákna - mynd: Vídalínskirkja

Þau eru hugmyndarík í Garðasókn.

Blásið var til blessunarguðsþjónustu um síðustu helgi í Vídalínskirkju þar sem skírnarbörnum síðasta vetrar var sérstaklega boðið að koma. Það er nýjung og athyglisverð leið til að ná til skírnarbarna og foreldra þeirra. Guðsþjónustan var aðlöguð að börnum á aldrinum þriggja til átján mánaða og er óhætt að segja að það sé nýlunda. Áslaug Helga Hálfdánardóttir, djákni hjá Lindakirkju, hefur sérhæft sig í krílasálmum og stjórnaði stundinni ásamt þeim sr. Jónu Hrönn Bolladóttur og sr. Henning Emil Magnússyni. Stefnt er að því að halda námskeið í Krílasálmum í haust.

„Blessunarguðsþjónustan var á forsendum barnanna og kom í kjölfarið á krílasálmanámskeiði sem haldið var í aprílmánuði,“ segir sr. Henning Emil þegar hann er spurður um messuna. „Krílasálmarnir voru uppistaðan í helgihaldinu og lögð var áhersla á skynjun og hreyfingu.“ Sr. Henning Emil segir að helgihaldið hafi heppnast vel. Gleði sveif yfir vötnum og þau séu ákveðin í því að halda áfram á sömu braut.

Eins og gefur að skilja þá þarf að beita öðrum aðferðum en venjulega til að ná athygli svo ungra barna. Sápukúlur svifu um loftið og litskrúðugar blöðrur, alls konar hljóðfæri voru notuð, dansspor stigin og brúður tóku til máls.

Skírnin hefur verið til umræðu í þjóðkirkjunni undanfarin ár. Spurt hefur verið hvort skírnin sé á tímamótum en dregið hefur nokkuð úr því að fólki láti skíra börnin sín.  

Tími vorhátíðanna
Vorhátíð sunnudagaskólanna í Urriðaholti og Vídalínskirkju verður haldin á morgun, 15. maí. Mikið verður um að vera. Boðið verður upp á grillaðar pylsur, andlitsmálun stendur til boða og hoppukastalinn vinsæli svíkur ekki frekar en fyrri daginn. Þá verða alls konar skemmtiatriði til að gleðja börn og fullorðna. Barnakórar Vídalínskirkju syngja undir stjórn Davíðs Sigurgeirssonar. Sr. Matthildur Bjarnadóttir, æskulýðsprestur, þjónar ásamt sr. Jónu Hrönn Bolladóttur, sóknarpresti.

Þess er og skylt að geta að víða eru vorhátíðir sunnudagaskólanna haldnar um þessar mundir og eru þær margar með svipuðu sniði. Kirkjan.is bendir lesendum sínum á að skoða heimasíður og Feisbókarsíður sóknarkirkna sinna til að sjá hvenær vorhátíðir eru haldnar hjá þeim.

hsh


  • Barnastarf

  • Frétt

  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Nýjung

  • Samfélag

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju