Stór stund í Skálholti
Það var fallegt veður í Skálholti í gær. Spenna í loftinu því að hífa átti upp í turn nýju klukkuna sem steypt var í Hollandi hjá Petit & Fritsen, og hefur tóninn H1.
Vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson, fylgdist grannt með því er böndum var brugðið á nýju dönsku kirkjuklukkuna og hún hafin upp af stórum og öflugum krana. Þekjan í suðurhluta turnsins hafði verið rofin og klukkan látin síga þar niður á turngólfið. Áður hafði brotna danska klukkan verið látin síga niður á hlaðið. Yfir kirkjuturninum sveif dróni og stóð kyrr um hríð og myndaði það sem fyrir augu bar frá sjónarhorni sem aðeins almættið og dróninn hafa. Hin myndarlega klukka sem fólk hafði skoðað á hlaðinu áður en hún var hífð upp sýndist alltaf smærri og smærri eftir því sem hún fór ofar.
Fyrir tveimur áratugum kvað mikill dynkur við í Skálholtsdómkirkju í upphafi Skálholtshátíðar og mun kirkjugestum sem voru hátt í þrjú hundruð hafa brugðið mjög í brún. Um stund nötraði kirkjan. Dynkurinn kvað við þegar kirkjuklukka sem Danir gáfu Skálholtsdómkirkju féll í gólfið og kollurinn brotnaði af henni. Fimm hundruð kíló að þyngd. Það munar um minna og dynkurinn í samræmi við þyngdina.
Í tilefni Skálholtshátíðar 1956 gáfu þrjár Norðurlandaþjóðanna kirkjuklukkur í Skálholt og studdu við endurreisn staðarins og byggingu kirkjunnar með mörgu öðru móti. Svíar gáfu tvær klukkur, Norðmenn eina og Finnar eina. Danska klukkan kom í kirkjuna 1961. En dönsku bræðurnir Ludvig Storr, aðalræðismaður í Reykjavík, og Edvard Storr, stórkaupmaður í Kaupmannahöfn, gáfu klukkuna. Þeim fannst afleitt að ekki væri líka dönsk klukka í Skálholti með bræðra- og systralags klukkunum norrænu. Stærstu klukkurnar vega 700 kg og sú minnsta 500 kg. Það eru sænsku klukkurnar tvær sem eru stærstar og þyngstar.
Danska klukkan hefur sem sé legið brotin í kirkjuturninum frá 2002. Í tvennu lagi.
Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir í Skálholti undanfarin ár og hefur Verndarsjóður Skálholtsdómkirkju komið þar að málum ásamt öðrum. Steindir gluggar kirkjunnar 43 að tölu eftir Gerði Helgadóttur voru í tíð sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar, fyrrum vígslubiskups í Skálholti, sendir utan til hreinsunar og lagfæringar til Oidtmann-fyrirtækisins þýska sem gerði þá á sínum tíma. Nú er búið að múra kirkjuna að utan og verið er að skipta um þakskífur. Múr og Mál sér um að taka steinskífurnar af þaki kirkjunnar og setja nýjar í þeirra stað. Til stendur að flytja bókasafnið í turni kirkjunnar í svokallaða Gestastofu sem áður var bústaður rektors og síðar vígslubiskupsins. Gestastofan verður hið nýja móttökuhús staðarins. Í gær var byrjað að pakka bókunum niður. Margt fleira stendur til. Segja má að vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson, veiti staðnum forstöðu með miklum myndarbrag og framsýni.
Norrænu klukkurnar fimm í kirkjuturninum hafa þagað síðan í haust. Til að hringja inn guðsþjónustur hefur verið notast við gamla klukku til bráðabirgða. Senn fær hún hvíldina aftur.
Verndarsjóður Skálholtsdómkirkju safnaði fyrir nýju klukkunni sem kostaði 2 milljónir króna. Mestu munaði um framlag AP-Møller sjóðsins í Danmörku. Þá hefur Landsvirkjun sýnt Skálholti mikinn hlýhug og stuðning. Einstaklingar og fyrirtæki hafa sömuleiðis látið fé af hendi rakna í sjóðinn.
Á næstunni koma danskir starfsmenn Thomo klokkeservice til að setja klukkurnar upp og tengja mótora og fleira sem þarf að gera. Vélsmiðjan Óðinn sá um smíði á grind í kringum klukkuna.
Nýja klukkan ásamt hinum mun hljóma á komandi Skálholtshátíð í júlí og verður það vígsluhringing hennar. Fullt tilefni til að skunda á Skálholtshátíð 16.-17. júlí næstkomandi.
Þau sem vilja leggja Skálholtsdómkirkju lið geta lag framlag í Verndarsjóðinn en þessar eru bankaupplýsingarnar: 152-15-380808 og kt. 451016-1210
hsh
Vígslubiskupinn og starfsmenn Múrs og Máls áður en klukkan var hífð upp