Biskupafundur: Svipuð þróun

2. júlí 2022

Biskupafundur: Svipuð þróun

Norrænu biskuparnir ásamt mökum og fylgdarliði við Botnstjörn í Ásbyrgi - mynd: Kristján Björnsson

Norræni biskupafundurinn á Akureyri hófst síðastliðinn mánudag og sagði kirkjan.is frá fundinum fyrir skömmu.

Fundinum lauk í gær og var í alla staði vel heppnaður. 

Við opnunarguðsþjónustuna í Akureyrarkirkju setti sr. Agnes M. Sigurðardóttir fundinn. Sr. Kristján Björnsson þjónaði fyrir altari og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir prédikaði. Organisti var Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og félagar úr kirkjukór Akureyrarkirkju sungu.

Lokaguðsþjónustan var í Glerárkirkju þar sem biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, þjónaði fyrir altari, og Jógvan Friðriksson, Færeyjarbiskup, prédikaði. Kór Glerárkirkju söng og organisti var Valmar Väljaots.

Á fundinum fluttu biskuparnir skýrslu um stöðu og verkefni kirknanna í löndum sínum. Í þeim kom meðal annars fram að þróun í kirkjumálum væri með svipuðu móti á Norðurlöndunum.

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, reið á vaðið og flutti skýrslu um stöðu mála hér á landi.

Danmörk
Síðan tók Peter Skov Jakobsen til máls og flutti skýrslu dönsku kirkjunnar. Hann ræddi meðal annars um breytta heimsmynd í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. Fjölmargir flóttamenn hefðu komið frá Úkraínu og þeim væri vel tekið. Þá gat um að græna leiðin væri mjög áberandi í kirkjunni en hún snýst um umhverfismál í söfnuðunum. Þá færi fram endurskoðun á helgisiðum dönsku kirkjunnar og mun það taka sex ára að ljúka því. Ný Biblíuþýðing væri í undirbúningi og stefnt að því að hún komi út 2036. Einnig nefndi hann að prestaskortur hefði látið á sér kræla. Hann lagði áherslu á að menntun presta héldist góð og gat um að 60 manns væru í prestsþjónustu með aðra háskólamenntun en guðfræði. Þau þurfa hins vegar bæta við sig guðfræðinámi. Peter Skov nefndi svo nokkrar tölulegar staðreyndir en skoðunarkönnun stendur yfir hjá dönsku kirkjunni þar sem meðal annars er spurt um hvað fólki finnist um kirkjuna:
                40% segjast trúa á Guð
                73 % tilheyra kirkjunni
                88% þeirra sem eru fæddir í Danmörku eru í kirkjunni
                52% láta skíra börnin sín
                80% eru jarðsungnir í kirkjum
                55% presta eru konur.


Grænland
Paaneraq Munk, Grænlandsbiskup, flutti skýrslu kirkju síns lands. Prestaskortur hefur verið þar, en nú vantar aðeins prest í eina sókn. Aðeins er hægt að taka BA- próf í guðfræði í Grænlandi en meistaragráðuna verður fólk að sækja til annarra Norðurlanda. Forveri hennar á biskupsstóli, Sofia Petersen, var mjög upptekin af umhverfismálum og Paneraq tekur við keflinu í þeim málum.

Færeyjar
Jógvan Friðriksson flutti skýrslu frá Færeyjum. Allt gengur vel. Árið 2007 varð færeyska kirkjan sjálfstæð. Jógvan er þó hluti af danska biskupateyminu.
Noregur
Forystubiskup norsku kirkjunnar, Olav Fykse Tveit, kynnti norsku skýrsluna. Sagði hann 69% Norðmanna tilheyra kirkjunni en þeim færi fækkandi. Norska þjóðin væri að breytast. Skírnum hefði fjölgað aðeins eftir að farið var að bjóða upp á svokallaðar „drop-in-skírnir.“ Hann taldi og að stríðið í Úkraínu hefði haft mikil áhrif sem og heimsfaraldurinn. Lýsti hann þeirri skoðun sinni að kirkjan hefði haldið höndum að sér í of ríkum mæli. Sem dæmi nefndi hann að fleiri hefðu mátt sækja kvikmyndahús en kirkju. Í norsku kirkjunni væri sterkur vilji til að hafa sterk biskupsembætti og áhersla á biskupana sem leiðtoga. Loks gat hann um að kirkjan hefði tekið vel á voðaatburðunum í Ósló um síðustu helgi og mikill fjöldi hefði sótt kirkjur og notið sálgæslu.

Svíþjóð
Fráfarandi erkibiskup Svíþjóðar, Antje Jackelén, flutti skýrslu sænsku kirkjunnar. Hún sagði 53% Svía tilheyra kirkjunni. Rannsókn stendur yfir á því hvers vegna fólk segir sig úr kirkjunni. Algengasta ástæðan sem gefin er upp er sú að fólk segist ekki trúa. Þó hefur þeim fjölgað úr 40% og í 58% sem segja að kirkjan hafi mikilvægu hlutverki að gegna.

Skírnir, hjónavígslur og jafnvel jarðarfarir fara sjaldnar og sjaldnar fram í kirkjum.

Þá sagði hún að afsökunarferli stæði yfir gagnvart Sömum. Síðan 2016 hefur verið skrifuð hvítbók með sögum Sama og þeir beðnir opinberlega afsökunar í Uppsaladómkirkju.

Hlynnt er að flóttafólki með ýmsum hætti, fræðslu og þjálfun.

Finnland
Í skýrsluflutningi rak Matti Repo lestina en hann flutti skýrslu finnsku kirkjunnar.

Hjá honum kom fram að 66% tilheyra kirkjunni og færi fækkandi.

Hvað menntun presta snertir þá hafa þeir allir meistaragráðu.

Sagði hann finnsku kirkjuna leggja mikla áherslu á að ná til nýrra kynslóða með boðskap sinn. Biblíufræðsla og boðun fagnaðarerindisins væri öndvegi.

Mikil umræða fer fram um eðli skírnarinnar milli finnsku kirkjunnar og rétttrúnaðarkirkjunnar í Finnlandi.


slg/hsh




 


  • Biskup

  • Frétt

  • Fundur

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Vígslubiskup

  • Alþjóðastarf

  • Fréttin er uppfærð

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju