Líf, vöxtur og þroski

14. ágúst 2022

Líf, vöxtur og þroski

Nýi vígslubiskupinn í Hólaumdæmi, sr. Gísli Gunnarsson, við altarisþjónustu á vígsludegi - mynd: hsh

Sr. Gísli Gunnarsson, sóknarprestur í Glaumbæjarprestakalli í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi var vígður í dag í Hóladómkirkju til vígslubiskups í Hólaumdæmi. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, vígði sr. Gísla.

Athöfnin var fjölsótt og hátíðleg. Biskupar, prestar, leikmenn og aðrir gengu fylktu liði í helgigöngu til kirkju.

Kirkjukórar Hóladómkirkju og Glaumbæjarprestakalls sungu undir stjórn organistanna Jóhanns Bjarnasonar og Stefáns R. Gíslasonar. Íris Björk Gunnarsdóttir söng einsöng, hljóðfæraleikarar voru þau Bryndís Björgvinsdóttir og Brjánn Ingason.

Sr. Dalla Þórðardóttir, prófastur, lýsti vígslu.

Um ritningarlestra sáu þau Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings, dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Hólaskóla og sr. Jón A. Baldvinsson, fyrrum vígslubiskup í Hólaumdæmi.

Nýi vígslubiskupinn prédikaði og sagði meðal annars frá minningum sínum frá staðnum þegar hann kom þangað með föður sínum og fleira fólki til að planta trjám sem væru orðin stór og falleg – í hlíðinni fyrir ofan Hólastað, í Hólabyrðu. Sr. Gísli sagði að taka þyrfti á fækkun fólks í þjóðkirkjunni og hvetja til þátttöku í góðu starfi hennar. Hann kynnti kjörorð sitt sem vígslubiskup: Líf, vöxtur og þroski.

Vígsluvottar voru fjölmargir og fyrst skal dóttir sr. Gísla nefnd, sr. Aldís, prestur í Hafnarfjarðarprestakalli, þá sr. Sigríður Gunnarsdóttir, sóknarprestur á Sauðárkróki, Marianne Christiansen, biskup í Danmörku, Teemu Laajaslo, biskup frá Finnlandi, Solveig Fiske, biskup frá Noregi, Heri Joensen, prestur í Færeyjum. Þá sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholtsumdæmi, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, fráfarandi vígslubiskup í Hólaumdæmi, sr. Kristján Valur Ingólfsson, fyrrum vígslubiskup í Skálholtsumdæmi og sr. Jón A. Baldvinsson, fyrrum vígslubiskup í Hólaumdæmi.

Sú er venja að til hliðar við altari við biskupsvígslur standa svokallaðir famuli sem eru yngstir vígðra presta í viðkomandi umdæmi. Í þessu hlutverki voru þær sr. Bryndís Böðvarsdóttir og sr. Edda Hlíf Hlífarsdóttir.

Nýi vígslubiskupinn
Sr. Gísli Gunnarsson, sóknarprestur í Glaumbæ í Skagafirði, er fæddur á Sauðárkróki 5. janúar 1957. Sonur sr. Gunnars Gíslasonar, prests, prófasts og alþingismanns í Glaumbæ og Ragnheiðar Margrétar Ólafsdóttur húsfreyju og safnvarðar í Glaumbæ og eru þau bæði látin.

Sr. Gísli lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1977. Guðfræðipróf tók hann 1982 frá Háskóla Íslands. Hann stundaði framhaldsnám við New College, The University of Edinburgh 1986, og við Háskólann í Árósum, Aarhus Universitet 2007-2008, auk ýmissa námskeiða bæði innanlands og erlendis. Lauk diplómanámi á meistarastigi í sálgæslu við endurmenntun H.Í., 2021.

Hann hefur verið sóknarprestur í Glaumbæjarprestakalli frá 1982. Sr. Gísli hefur einnig sinnt aukaþjónustu um lengri eða skemmri tíma í öllum prestaköllum í Skagafirði. Starfsmaður fræðsludeildar Þjóðkirkjunnar vegna fermingarstarfa veturna 1989-1991. Sumarið 2007 leysti hann þáverandi sendiráðsprest í Kaupmannahöfn af.

Sr. Gísli hefur gegnt formennsku í ýmsum félögum og nefndum á vegum kirkju, félagasamtaka og sveitarfélaga. Hann hefur setið á kirkjuþingi frá 2006 og var í kirkjuráði þjóðkirkjunnar 2010- 2018.

Eiginkona sr. Gísla er Þuríður Kristjana Þorbergsdóttir, sjúkraliði og bóndi, frá Brúnahlíð í Suður-Þingeyjarsýslu. Sr. Gísli og Þuríður eiga fjögur börn, Gunnar, Þorberg, Aldísi Rut og Margréti.

hsh


Gengið til kirkju