10. september

9. september 2022

10. september

Setjum kerti út í glugga kl. 20.00 þann 10. september - mynd: hsh

Á morgun, þann 10. september, er árlegur alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna. Þann dag er þeirra minnst sem fallið hafa fyrir eigin hendi. Þetta er í nítjánda sinn sem þessi dagur er tileinkaður málefninu.

Fjöldi samtaka, félaga og stofnana kemur að þessum mikilvæga degi og er þjóðkirkjan þar á meðal.

Félagið Geðhjálp mun kynna starfsemi sína og verkefni á morgun í Kringlunni frá kl. 12.00 á hádegi til kl. 16.00. Tónlistarfólkið Gugusar og Emmsjé Gauti skemmta gestum og gangandi.

Fólk er hvatt til að kveikja á kerti heima hjá sér kl. 20. 00 annað kvöld og setja það út í glugga til að minnast þeirra sem látist hafa í sjálfsvígi og sýna samstöðu með fólki sem á um sárt að binda vegna þessa.

Heimildarmyndin Út úr myrkrinu verður sýnd í Bíó Paradís kl. 15.00 sunnudaginn 11. september. Myndin verður svo sýnd á RÚV sama dag en kl. 20.30.

Þessi kvikmynd miðlar reynslu aðstandenda sem hafa misst ástvin, sem tekið hefur eigið líf og hvernig þeir hafa komist út úr myrkri og þöggun. Myndinni er ætlað að hvetja til opinnar umræðu um efni sem hingað til hefur verið umlukið dulúð og þrúgandi þögn.
Kyrrðarstundir hafa verið haldnar í Dómkirkjunni frá því á miðvikudaginn og verða sömuleiðis þar 9. -12. september og í fleiri kirkjum. Þá verður samverustund í Selfosskirkju miðvikudaginn 14. september kl. 20.00.

Á RÚV verður heimildarþáttur frá BBC laugardaginn 10. september kl. 14.50 og fjallar hann um sjálfsvíg karla. 

Jóhanna María Eyjólfsdóttir, djákni, er fulltrúi þjóðkirkjunnar í vinnuhópi sem hefur undirbúið daginn og viðburðina. 

Facebókarsíða dagsins.

Samkvæmt Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO) er talið að 703 000 manns falli árlega fyrir eigin hendi. Á móti hverju sjálfsvígi má og gera ráð fyrir tuttugu sjálfsvígstilraunum og verulegur fjöldi hefur íhugað sjálfsvíg. Auk þess glíma milljónir manna við ýmsar afleiðingar vegna sjálfsvíga ættmenna og vina. Stofnunin telur mikilvægt að efla geðheilbrigðisþjónustu í öllum löndum. Sjálfsvíg eru alvarlegur heilbrigðisvandi.


Tölur frá Íslandi - sjá Landlæknisembættið

 hsh
  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Frétt

  • Fréttin er uppfærð

Bústaðakirkja - mynd: hsh

Bleikur október í Bústaðakirkju

29. sep. 2022
.........október er listamánaður 2022 í Bústaðakirkju.
Sr. Jóhanna I. Sigmarsdóttir

Andlátsfregn

29. sep. 2022
.......sr. Jóhanna Ingibjörg Sigmasdóttir er látin
Fermingarbörn í Þorgeirskirkju

Afar fjölmennt fermingarbarnamót

29. sep. 2022
......haldið á Stórutjörnum