Hverjar eru guðshugmyndir Íslendinga?
Í næstu viku hefjast fræðsluerindi um guðshugmyndir Íslendinga í sögu og samtíð í Hallgrímskirkju.
Það er dr. Sigurður Árni Þórðarson, sem hefur rannsakað efnið og mun þetta verða með því síðasta sem hann gerir í prestsþjónustu sinni við söfnuðinn því brátt lýkur hann störfum þar.
Þriðjudaginn 7. febrúar kl. 12:10 ræðir hann um guðsmynd Hallgríms Péturssonar.
Viku síðar eða þann 14. febrúar verður fjallað um guðsmynd Jóns Vídalíns.
Þar á eftir verður rætt um guðsmynd dr. Sigurbjörns Einarssonar fyrrum biskups Íslands og að lokum guðsmyndir núlifandi Íslendinga.
Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við dr. Sigurð Árna og spurði hann um aðdraganda þess að hann fór að skoða þetta?
Dr. Sigurður Árni sagði:
„Trúarhugmyndir fólks breytast.
Menningin er vissulega seigfljótandi en breytist samt.
Ég fór að skoða áherslur og breytingar í trúarritum Íslendinga meðan ég var í doktorsnámi mínu vestan hafs á níunda áratugnum.
Upplýsingatíminn breytti miklu og þróun vísinda hafði áhrif á hugmyndir fólks um Guð, trú og viðmið.
Prestar fylgdust með því sem var að gerast og prédikun 17. aldar guðsmanna er öðru vísi en á 19. öld, hvað þá á tuttugustu öld.
Um þróunina á Íslandi skrifaði ég svo í doktorsritgerð minni.“
Þar sem lögð er áhersla á guðsmynd Íslendinga langar mig að vita hvort þú hefur borið hana saman við guðsmynd annarra þjóða eins og nágrannalandanna?
„Áherslan verður á þróunina á Íslandi.
En við höfum aldrei verið einangruð heldur notið strauma erlendis frá.
Mitt fag er hugmyndasaga 1700-1950.
Ég hafði mikinn áhuga á sögu trúarhugmynda Evrópu og N-Ameríku, vestrænni heimspeki frá og með Kant og trúarheimspeki þar með og rakti þræðina heima og erlendis.“
Er eitthvað eitt sem einkennir guðsmyndir Íslendinga?
„Lífsbarátta Íslendinga mótaði guðsvitund Íslendinga og guðsmyndir.
Þó lífsbarátta Evrópubúa á miðöldum hafi verið erfið var glíma Íslendinga við nátturuöflin rosalegri og hafði áhrif á hvernig fólk hugsaði um líf sitt og tengslin við Skaparann.
Einfaldur samanburður á mannfjöldaþróun á Íslandi og Noregi segir sláandi sögu.
Íslendingum fækkaði mikið frá 1100 til 1800 en fjöldi Norðmanna margfaldaðist á sama tíma.
Guð í íslenskri kristni var nálægur pabbi sem lét sér annt um börnin sín í voða.
Í norður-evrópskri kristni var Guð fremur í líkingu hátignarkóngs.“
Eru mismunandi guðsmyndir eftir því hvort fólk elst upp á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi í sveitasamfélagi eða sjávarplássum?
„Breyturnar varðandi trú og trúarhugmyndir eru fleiri en hvar fólk elst upp eða býr.
Í sjávarplássunum og á hamfarasvæðum var Guð gjarnan í nokkurs konar almannavarnahlutverki.
Róttækar menningarbreytingar hafa orðið ekki aðeins á höfuborgarsvæðinu síðustu árin heldur um allt land sem hefur valdið óvissu, kvíða og alls konar óreiðu.
Þegar að kreppir bregðast menn við með ólíku móti og æ fleiri hafa jaðarsett hið trúarlega.
Mörg eru óviss hvað eigi að gera við djúpa þrá hjartans en líka úreltar guðsmyndir.
En þráin eftir öryggi, djúpri sátt hið innra og leit að merkingu hverfur ekki frá mannfólkinu þrátt fyrir aukna tækni og lægri ungbarnadauða.
Dr. Sigurbjörn Einarsson túlkaði sína útgáfu af leit fólks.
Prestar og áhrifavaldar samtímans tjá ýmsar útgáfur sem vert er að ræða og greina.
Ég mun kynna mína nálgun og í samtali við þau sem sækja fræðslusamverurnar í Hallgrímskirkju í hádeginu á þriðjudögum.“
sagði dr. Sigurður Árni að lokum.
Léttar veitingar verða á borðum og allir velkomnir til samtals of umræðu.
Dr. Sigurður Árni mun gera könnun á guðsmyndum þeirra sem koma í Hallgrímskirkju og efna til samtals um afstöðu, tilfinningu og túlkun fólks.
slg