Kröftugt kirkjustarf í Kenýu

27. febrúar 2023

Kröftugt kirkjustarf í Kenýu

Kirkja í Kenýu

Sr. Kjartan Jónsson kristniboði og fyrrum sóknarprestur í Tjarnaprestakalli fór nýlega með hóp Íslendinga á hans gömlu slóðir í Pókot í Kenýu.

Fréttaritari kirkjan.is spurði sr. Kjartan þegar hann var kominn heim nokkurra spurninga um ferðalagið.

Hvað varstu að gera í Kenýu núna?

Sr. Kjartan sagði:

„Ég fór út með hóp af kirkjufólki í tveggja vikna ferð til að kynna því kristniboðsstarf okkar Íslendinga og Norðmanna í Pókot-héraði og gefa því smá nasasjón af landinu.

Að sjálfsögðu fórum við í einn flottasta þjóðgarð Afríku, Masai mara, og vorum heppin að sjá flest dýr sem fólk sækist eftir að sjá í slíkum ferðum eins og ljón, gíraffa, blettatígra, hlébarða, fíla, og ýmsar tegundir grasbíta.

Ég varð síðan eftir þegar fólkið flaug heim og sneri aftur til Pókot þar sem ég kenndi í þrjár vikur."

 

Hvað er helst að frétta af söfnuðum ykkar í Pókot?

„Það er helst að frétta af söfnuðum okkar að starfið heldur áfram af miklum krafti og nýir söfnuðir verða sífellt til en þeir eru orðnir 306.

Það var hvarvetna mikill kraftur í kirkjubyggingum og fólk reisir stórar og veglegar kirkjur þrátt fyrir lítil efni.

Trúargleðin og krafturinn í starfi safnaðanna var áberandi og mjög smitandi.“

 

Hvenær bjugguð þið í Pókot og hvað hefur breyst síðan þá?

„Við fjölskyldan bjuggum í Kenýu á árunum 1981 - 1995 með tveimur hléum, eitt ár og tvö ár.

Miklar framfarir hafa átt sér stað í landinu.

Allir helstu vegir í Pókot-héraði eru nú malbikaðir en voru skelfilegir þegar við komum fyrst.

Allir eru með farsíma og það var gaman að sjá að ég og þau sem voru með mér vorum ekki eina fólkið sem tók myndir heldur tóku innfæddir myndir á símana sína af okkur og þeim atburðum sem við vorum þátttakendur í.

Menntunarstigið hefur greinilega aukist mikið og nú getur maður gengið um í þéttbýli án þess að vera mikið áreittur.“

 

Nú varst þú að kenna úti núna.

Hvað varstu að kenna og við hvaða skóla?


„Ég kenndi á námskeiði fyrir prédikara og djákna í Kapenguria Bible Centre, sem við komum á fót árið 1984.

Ég kenndi þessu fólki líka fyrir þremur árum, en kóvid og fleira gerði það að verkum að útskrift þeirra frestaðist mjög.

Reyndar var útskrift núna 22. febrúar.

Ég kenndi Jóhannesarguðspjall og Orðskviðina.

Þetta var dásamlegur hópur og mjög gefandi að kenna þeim og vera með þessu fólki.

Um helgar fór ég út í hérað og heimsótti gamla söfnuði og nýja.

Alls staðar var tekið á móti manni eins og höfðingja.

Það gladdi mig mikið hve óþreytandi fólk var að þakka okkur kristniboðunum fyrir starf okkar fyrir mörgum árum.

Fólk var sammála um að við hefðum lagt góðan grunn að kirkjustarfinu sem byggt hefur verið ofan á.“

 

Nú er skólahald mikilvægur hluti kristniboðsins.

Hvernig gengur það?


„Söfnuðirnir hafa getið af sér 150 grunnskóla og 34 menntaskóla, auk tveggja munaðarleysingjaheimila.

Það sem fólk skilur almennt ekki er að kirkjan er upphaf svo margra framfara.

Þegar fólk eignast trúna fær það nýtt gildismat, verðmætamat og nýja sýn á lífið.

Það fer að hugsa öðruvísi.

Þess vegna er kirkjan upphaf svo margs, skóla, byggðaþróunar og margra annarra framfara.

Í kristinni trú fá konur reisn sem þær áttu ekki, eflast til starfa og ábyrgðar og fá miklu betri sjálfsmynd.

Starf kirkjunnar er betur til þess fallið en nokkuð annað starf til að bæta hag kvenna.

Einn söfnuðurinn gaf kirkjuna sína svo að hægt væri að koma á fót menntaskóla fyrir stúlkur á svæði hans.

Skilyrði fyrir skólavist er að stúlkurnar búi á heimavist skólans.

Litið er svo á að starf skólans sé björgunarstarf til að forða stelpum frá því að vera umskornar og frá ótímabærum giftingum oft með eldri mönnum og barneignum.

Víða er unnið frábært starf fyrir stúlkur í skólum kirkjunnar."

 

Nú var kóvid tíminn erfiður fyrir alla heimsbyggðina.

Hvernig áhrif hafði það á kirkjurnar í Pókot?


„Kóvid var erfiður tími fyrir kirkjuna í Pókot eins og annars staðar.

Leiðtogar kirkjunnar settu þá á stofn stúdíó og útvarpaði mörgum dagskrám til kirkjufólksins og studdu það þannig.

Ég sendi eina hugleiðingu í þetta útvarp.

Ég hef á tilfinningunni að kirkjan sé búin að ná fyrri styrkleika sínum og fólk sæki kirkju jafn vel og fyrir faraldur.“

sagði sr. Kjartan að lokum.

slgMyndir með frétt

 • Biblían

 • Forvarnir

 • Fræðsla

 • Guðfræði

 • Heimsókn

 • Kærleiksþjónusta

 • Kirkjustarf

 • Prestar og djáknar

 • Samfélag

 • Samstarf

 • Alþjóðastarf

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut