Ályktun Evrópufundar Lútherska heimssambandsins

27. mars 2023

Ályktun Evrópufundar Lútherska heimssambandsins

Evrópufundur LWF - mynd:LWF/Albin Hillert

Eins og fram hefur komið á kirkjan.is  þá var undirbúningsfundur fyrir heimsþing Lútherska Heimssambandsins haldinn í Oxford í Bretlandi í síðustu viku.

Þar var samþykkt ályktun sem send verður til heimsþingsins í haust.

Ályktunin var í stórum dráttum þessi:

„Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni.“ (Róm. 12:12)

Fundurinn var haldinn í Mansfield College í Oxford dagana 21.-24. mars 2023.

Yfirskrift fundarins var hin sama og verður í Krakow í haust „Einn líkami, einn andi, ein von.“

Á fundinum fór fram helgihald þar sem fólk deildi gleði og sorgum sínum frá þeim tíma sem liðinn er frá því að þingið var haldið í Windhoek í Namibíu árið 2017, fram að því sem gerist í Krakow í haust. Við vonumst til þess að samtalið í Krakow einbeiti sér að voninni í þessum þjáða heimi.

Vonin er staðfesting á því að Guð er trúfastur.

Vonin er gjöf heilags anda, en einnig verkefni okkar allra.

Þar sem við erum að glíma við loftlagsbreytingar, umhverfisspjöll, stríð, flóttamannastraum, misskiptingu lífsgæða, populisma, og aukna þjóðernis- og forræðishyggju, þá verðum við að finna leiðir til að rækta vonina.

Við þurfum að finna skýran skilning á því hvað það þýðir að fylgja Kristi í þessu samhengi.

Stríðið í Úkraínu, málefni flóttafólks og ýmislegt annað sem um er að vera í heiminum eru mikil áskorun fyrir kirkjurnar og kristna guðfræði. Við höldum áfram að styðja réttlátan frið í Úkraínu. Það er mikil þörf fyrir guðfræði friðar og sjálfsvarnar og þörf er á að skoða hvernig við getum stuðlað að friði.

LWF  hefur verið eindregið í afstöðu sinni til stríðsins í Úkraínu og það gefur okkur von.

Við horfumst í augu við það sem við höfum gert vistkerfinu okkar og loftslaginu. Þetta er synd gagnvart sköpun Guðs. Við vitum að við höfum ekki gert nóg varðandi umhverfisspjöll og það er margt sem við verðum að breyta í lífsstíl okkar.

Mikilvægi loftlagsmála þarf alltaf að vera þungamiðja umræðu okkar.

Mikilvægt er að auka þekkingu á umhverfisguðfræði og vekja athygli á straumi flóttafólks vegna loftlagsbreytinga.

Heimsfaraldur Covid 19 hafði mikil áhrif á starfsemi kirkna okkar á svo margan hátt. Við erum smám saman að læra nýjan samskiptamáta fólks.

Meðan við skoðum skaðann er mikilvægt að sjá hvaða kostir eru í stöðunni og hvað læra má af faraldrinum. Afleiðingar þessa margslungna vanda er að margt fólk er að leita að tilgangi lífsins og leita að samfélagi þar sem það er metið að fullu.

Fólk er nú meðvitaðra um geðheilbrigði en áður, þó ákveðin einangrun komi í veg fyrir að fólk geti rætt um það sem þau þurfa á að halda. Sem samfélag þurfum við að vinna guðfræðilega vinnu á sviði geðheilbrigði og efla umhyggju hvert á sínu svæði. Þessi vandamál hafa auk þess opnað augu okkar betur fyrir kærleiksþjónustu kirkjunnar.

Evrópskar kirkjur hafa tekið þátt í ferlinu Samfylgd (Conviviality) um það hvernig við þjónum náunga okkar.

Þar sem meðlimum kirknanna fer fækkandi verðum við að finna nýjar leiðir til að svara andlegum þörfum fólks og finna nýjar leiðir til að vera kirkja. Til þess þurfum við að hafa aðgengilegt mál bæði í helgihaldi okkar og guðfræði og vera virk á samfélagsmiðlum.

Þegar fagnaðarerindið er boðað þurfum við að vera vakandi fyrir náðargjöfum ungs fólks og leikmanna til að ná til fjölbreyttari hópa.

Í ljósi yfirvofandi efnahagskreppu þarf meginhlutverk LWF að vera tryggt til framtíðar.

Á heimsvísu sjáum við bakslag í mannréttindum og jafnrétti kynjanna. Trúarbrögð eru oft notuð sem rök fyrir bakslaginu.
Við vitum líka að heimsfaraldurinn leiddi til aukins kynbundins ofbeldis.

Þar sem við fögnum því nú að tíu ár eru liðin frá því að stefna LWF varðandi kynjaréttlæti (LWF‘s gender justice policy)  sjáum við að við höfum viðurkennt fjölbreytileika sem hluta af góðri sköpun Guðs. Samt sem áður verðum við að halda áfram að tala um kynjaréttlæti okkar allra.

Við viljum vera kirkjur sem eru opnar öllum með aðgengi fyrir alla. Þetta þýðir að við verðum að skoða af heiðarleika fortíðina og takast á við kynþáttahatur, útilokun og ofbeldi. Engum ætti að sýna fordóma á grundvelli kynþáttar, þjóðar eða kyns.

Við þurfum að styrkja eigin lýðræði þar sem við valdeflum konur, ungt fólk og leikmenn þar sem við gefum þeim aukin tækifæri til samvinnu milli kynslóða.

Við erum sameinuð í einni von og einum líkama af einum anda.

Við viðurkennum mikinn fjölbreytileika í samfylgd okkar.

Við þurfum að halda áfram að hlusta vel hvert á annað og finna leiðir til að fást við spurningar sem eru þess eðlis að þær gætu ógnað samfylgd okkar.

Þetta þurfum við að nálgast af virðingu og hugrekki.

Með Krist yfir og allt um kring trúum við því að eining sé möguleg í fjölbreytileikanum.

 

 

slg  • Ályktun

  • Biblían

  • Flóttafólk

  • Guðfræði

  • Kærleiksþjónusta

  • Leikmenn

  • Lútherska heimssambandið

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Alþjóðastarf

Sendinefnd LH með páfa

Í páfagarði

24. jún. 2024
...viðtal við dr. Arnfríði Guðmundsdóttur varaforseta Lútherska heimssambandsins
Sr. Hildur Eir blessar börnin

Kærleikurinn hlustar eftir hjartslætti okkar

24. jún. 2024
... spyr okkur ekki um afrek heldur hlustar eftir hjartslætti okkar, gleði sorgum, vonum og þrám.
Sr. Kristín Þórunn og Torvald æfa tónið fyrir messuna

Sumarstarf kirkjunnar er afar fjölbreytt

24. jún. 2024
...skógarmessa í sumarblíðu