Fjölbreytt kirkjustarf í Vík í Mýrdal

12. maí 2023

Fjölbreytt kirkjustarf í Vík í Mýrdal

Frá tónleikum í Víkurkirkju-mynd sr. Árni Þór

Glaðlegir kórtónleikar voru haldnir í Víkurkirkju í Vík í Mýrdal á verkalýðsdaginn þann 1. maí.

Hringur blandaður kór úr Rangárþingi söng og var stjórnandi hans Kristín Sigfúsdóttir.

Syngjandi kór og hljómsveit úr Mýrdal söng einnig og var stjórnandi hans Anna Björnsdóttir.

Brian R. Haroldsson organisti Víkurkirkju spilaði með.

Hljómsveitin Vinir Jenna úr Rangárþingi spiluðu undir og var stjórnandi vinanna Jens Sigurðsson.

Af þessu skemmtilega tilefni hafði fréttaritari kirkjan.is samband við hinn nýja sóknarprest í Vík, sr. Árna Þór Þórsson og spurði hann um tónleikana og safnaðarstarfið.

 

„Hvenær tókst þú við starfi sóknarprests í Vík?

„Ég tók við sem sóknarprestur í Víkurprestakalli þann 15. maí 2022 og er því búinn að vera nákvæmlega eitt ár núna á þessum dögum.“

 

Hvert var tilefni tónleikanna í kirkjunni?

„Það var nú ekkert sérstakt tilefni en þetta var náttúrulega á alþjóðlega degi baráttu verkalýðsins.

Tilefnið var bara að halda tónleika og hafa gaman.“


Hvað er margt fólk í þessum kórum?

„Í Syngjanda eru 19 meðlimir ásamt 5 manna hljómsveit sem spilaði undir.

Í Hring eru 34 meðlimir.“


Var þetta að frumkvæði kirkjunnar eða kóranna?

„Þetta var að frumkvæði kóranna og tók Víkursókn vel í það að halda þessa tónleika.“

 

Voru þeir vel sóttir?

„Já, þeir voru mjög vel sóttir. Það var full kirkja.“

 

Nú er Vík mikill ferðamannastaður.

Kemur ferðafólk í kirkjuna eða sækir svona tónleika?
.
„Það er rétt að Vík er mikill ferðamannastaður og er stöðugur gangur af túristum í kringum kirkjuna allan daginn.

Ef eitthvað er um að vera í kirkjunni hvort sem það er helgihald eða annað eins og þessir tónleikar, þá koma þeir alltaf inn og kíkja í smá stund en fara yfirleitt aftur út eftir stuttan tíma.

Það kemur fyrir að túristar sitji í messu allan tímann.“

 

Geturðu sagt mér hvernig safnaðarstarfið gengur í Vík?

„Safnaðarstarfið hefur gengið mjög vel þennan fyrsta vetur hjá mér í Víkurprestakalli.

Barnastarfið er einu sinni í viku og er ágætlega sótt.

Ég heimsæki hjúkrunarheimilið einu sinni í viku og hefur það verið mjög gefandi að spjalla við eldri borgarana þar.

Svo eru reglulega guðsþjónustur í Vík, eða allavega einu sinni í mánuði, en ég dreifi helgihaldinu vel á allar sóknarkirkjur prestakallsins.“

 

Þjónar þú fleiri söfnuðum?

„Ég er með sex sóknir, þrjár í Mýrdalshreppi sem eru Víkursókn, Skeiðflatarsókn, og Reynissókn, og þrjár undir Eyjafjöllum sem eru Eyvindarhólasókn, Ásólfsskálasókn og Stóra-Dalssókn.“

 

Nú ert þú með yngstu prestum landsins. Hvernig leggst starfið í þig?

„Já það er rétt og er ég að mínu viti yngsti presturinn á landinu, allavega sá yngsti sem starfar innan Þjóðkirkjunnar.

Það leggst vel í mig og ég held að það séu spennandi tímar framundan.

Fólkið hér hefur tekið mjög vel á móti mér og virðist vera tilbúið í að breyta sumu en þó gæta ýmissa hefða.

Því fylgir stundum áskorun að vera svona ungur prestur þar sem fólki finnst það hálf undarlegt og jafnvel óþægilegt að presturinn sé "bara einhver stráklingur".

Fólk virðist búast við því að prestar séu einungis gamlir karlar.

En um leið og maður fær tækifæri til að sýna sig og sanna í starfinu þá gleymir fólk því fljótt hve ungur presturinn er“

sagði sr. Árni Þór að lokum.

 

slg



Myndir með frétt

  • Barnastarf

  • Eldri borgarar

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Æskulýðsmál

Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta