Þau sem þekkja ekki fortíðina eiga á hættu á að endurtaka hana

16. september 2023

Þau sem þekkja ekki fortíðina eiga á hættu á að endurtaka hana

Sr. Árni Þór, dr. Arnfríður og sr. Þuríður Björg ásamt biskupi Íslands

Dagana 13.-19. september stendur yfir Heimsþing Lútherska Heimssambandsins í Kraków í Póllandi.

Ísland á fimm fulltrúa á þinginu með atkvæðisrétt.

Auk biskups Íslands eru það dr. Arnfríður Guðmundsdóttir, sem fer inn í stjórnina núna og sr. Árni Þór Þórsson.

Auk þess sitja þingið með atkvæðisrétt sr. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir sem nú hættir í stjórn Lútherska Heimssambandsins eftir sex ára setu og Magnea Sverrisdóttir ráðgjafi stjórnarinnar.

Á dagskrá þingsins, sem þó einkennist aðallega af fyrirlestrum og umræðuhópum var heimsókn í Auschwitz- Birkenau útrýmingarbúðir nasista í síðari heimstyrjöldinni.

Þær eru nú safn til minningar um þá hryllilegu atburði sem gerðust þar á stríðsárunum.

Fréttaritari kirkjan.is var með í för og spurði fyrst unga fólkið í hópnum þau sr. Þuríði Björgu og sr. Árna Þór um upplifun þeirra af heimsókninni.

Sr. Þuríður Björg sagði:

"Það var áhrifaríkt að fara til Auschwitz með hópi af ókunnugu fólki, allstaðar að úr heiminum, þar með talið Póllandi og Þýskalandi.

Það var sérstaklega áhrifaríkt þegar við erum hér saman komin undir þemanu : Einn líkami, einn andi, ein von.

Þarna vorum við hvert og eitt okkar í sínum líkama, en sameinuð í anda.

Samt sem áður er erfitt að koma auga á vonina á svona stað, þar sem vonin virðist hvergi.

George Santayana sagði þessi frægu orð ,,þau sem þekkja ekki fortíðina eiga á hættu á að endurtaka hana“.

Þessi orð eru rituð á vegg inni í útrýmingarbúðum Auschwitz.

Það vakti því von í hjarta mér að sjá hóp ungra skólabarna sem sátu kát og hlæjandi við hliðið og biðu þess að komast inn á svæðið þegar við mættum.

Þau voru tilbúin að læra um fortíðina, og þannig læra af henni.

Við lærum af því sem við fáum að sjá og heyra og við glæðum von í hjarta okkar og annarra þegar við þiggjum boð um að mæta fortíðinni, sama hvaðan við komum í heiminum.

Við vorum svo sannalega eitt í anda og í einni von í dag.

Ég er þakklát fyrir að hafa lesið bók Viktors Frankl, leitin að tilgangi lífsins, áður en ég kom hingað.

Hann lifði af útrýmingarbúðirnar og náði á ótrúlegan hátt að halda í vonina, og tilgang sinn, allann tímann þarna inni.

Það hjálpaði mér í dag, enda hafði bókin mikil áhrif á mig á sínum tíma.“

Geturðu hugsað þér að koma þarna aftur?

"Já, ég gæti alveg hugsað mér að koma aftur, já, í fámennari hópi, þar sem meiri tími gefst til þess að hugleiða það sem um hugann fer.“

Aðspurð um hvar Guð hefði verið á meðan á þessum hörmungum stóð svaraði sr. Þuríður Björg:

„Guð var sannarlega með í dag, ég upplifði Jesú ganga með mér þarna í gegn, hljóður og sorgmæddur, en styðjandi og með í þjáningunni.“

 

Sr. Árni Þór sagði um sína upplifun:

„Þetta var önnur heimsókn mín í útrýmingarbúðirnar í Auschwitz og Birkenau og voru þær eins hryllilegar og ógeðslegar eins og mig minnti.

Þessi heimsókn hafði enn meiri áhrif á mig en sú fyrri þar sem ég kom í þetta sinn sem faðir tveggja ára dóttur.

Það er óhugsandi að þessari illsku hafi verið leyft að lifa í mörg ár og það versta er að þetta er enn að gerast, enn þann dag í dag!

Ég hef nú komið hingað tvisvar og ég tel að það sé nóg í bili.

Aðspurður um hvar Guð hafi verið sagði hann:

„Hvar var Guð?

Þetta er mjög erfið spurning, en ég trúi því að Guð starfi innra með okkur.

Ef við erum einlæg í trúnni og komum fram við hvert annað eins og manneskjur sem skapaðar eru í Guðs mynd geta kraftaverkin átt sér stað.

Við þurfum að hafa kjark og sýna heiminum hve kraftmikill og kærleiksríkur Guð er þegar Drottinn starfar innra með okkur“

sagði sr. Árni Þór að lokum.


Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir sem kemur nú inn í stjórn Lútherska Heimssambandsins var með í för þegar við heimsóttum Auschwitz-Birkenau útrýmingarbúðirnar.

Aðspurð um upplifunina sagði hún:

„það er eiginlega ekki hægt að segja neitt eftir svona reynslu.

Orð ná engan veginn utan um það sem við sáum og heyrðum í gær.

Það eru ákveðin atriði sem sitja eftir í huga mínum.

Barnaföt, haugar af skóm og andlitsmyndir af föngum.

Spurningin um Guð hlýtur að herja á hugann í þessum aðstæðum.

Hvar var Guð þá og hvar er Guð í sambærilegum kringumstæðum í dag?

Við þurfum að spyrja þessara spurninga og ekki vera of fljót að leita svara, því öll svör eru svo takmörkuð andspænis illskunni í öllum sínum margbreytileika.“

slgMyndir með frétt

 • Biskup

 • Fræðsla

 • Guðfræði

 • Heimsókn

 • Lútherska heimssambandið

 • Prestar og djáknar

 • Samstarf

 • Þing

 • Þjóðkirkjan

 • Trúin

 • Alþjóðastarf

Víkurkirkja

Sóknarprestsstarf laust

12. júl. 2024
...í Víkurprestakalli
Breiðabólstaðarkirkja

Laust starf sóknarprests

12. júl. 2024
...við Breiðabólstaðarprestakall
Skálholtsdómkirkja

Laust starf

12. júl. 2024
...sóknarprests við Skálholtsprestakalls