Henrik Stubkjær kosinn nýr forseti Lútherska Heimssambandsins

18. september 2023

Henrik Stubkjær kosinn nýr forseti Lútherska Heimssambandsins

Henrik Stubkjær biskup í Viborg og verðandi forseti LWF

Fulltrúar á Heimsþingi Lútherska Heimssambandsins í Kraków í Póllandi kusu Henrik Stubkjær biskup í Viborg í Danmörku til að verða forseti Lútherska Heimssambandsins fram að næsta Heimsþingi sem að öllum líkindum verður haldið árið 2030.

Henrik er þekktur fyrir að leggja áherslu á kærleiksþjónustu og samkirkjumál í starfi sínu.

Eftir kosninguna á laugardag sagði Henrik Stubkjær að „starf Lútherska Heimssambandsins undir hans stjórn myndi halda áfram að byggja á þeim stoðum sem sambandið hefur byggt á allt frá upphafi, en það er að starf til hjálpar þeim sem eru þurfandi og eru kúguð í heiminum, að ýta úr vör kristniboði, vinna að síðstæðum guðfræðilegum málefnum og vinna að samkirkjumálum.“

Og hann hélt áfram: „Hugsjón mín fyrir Lútherska Heimssambandið er að auka það starf sem fyrir er að beina kristinni trú í þann farveg að við sýnum hana í verki með mannúðar- og þróunarstarfi.

Að vera lúthersk er að vera sífellt meðvituð um samfélagið hverju sinni og viðurkenna fjölbreytileikann í hinum mjög svo ólíkum samfélögum okkar.

Við verðum að boða fagnaðarerindi Jesú Krists á þann hátt að það höfði til allra.“

Og því bætti hann við: „Ég mun líta á það sem ábyrgð mína að tryggja að fjölbreytileikinn verði virtur og að við munum hlusta á raddir allra.

En við verðum á horfast í augu við að það er mikil skautun (polarization) í heiminum í dag og heimurinn breytist hratt.“


Og hann hélt áfram á þessum nótum og talaði um kærleiksþjónustuna og samkirkjumálin sem eru hans aðaláhugamál.

Áður en hann varð biskup árið 2014 þjónaði Henrik Stubkjær í áratug sem framkvæmdastjóri Hjálparstarfs dönsku kirkjunnnar.

Hann hefur setið í stjórn Lútherska Heimssambandsins allt frá síðasta Heimsþingi í Namibíu árið 2017 og hefur verið formaður World Service nefndarinnar og setið í framkvæmdastjórn.

Stubkjær situr í stjórn UNICEF í Danmörku og ACT Alliance.

Hann er formaður stofnunar sem styður heimilislausa karla í Danmörku og hjálpar þeim að komast yfir fíkn sína.

Auk þess að hafa mikla ástríðu fyrir kærleiksþjónustu kirkjunnar þá er hann þekktur fyrir áhuga sinn á samkirkjumálum og aukinni guðfræðimenntun.

Á árum 2016-2019 var hann formaður samkirkjuráðs danskra kirkna.

Eftir að hann tók við sem biskup í Viborg hefur hann unnið að því að byggja upp samstarf við innflytjendur og hælisleitendur frá Austur-Evrópu, sem tilheyra orþódoxu kirkjunni eða tilheyra öðrum trúarbrögðum.

Henrik Stubkjær tekur formlega við embætti forseta stjórnar Lútherska Heimssambandsinsn í lokaguðsþjónustu Heimsþingsins sem verður á morgun þriðjudaginn 19. september.

Fyrsti fundur hinnar nýju stjórnar undir hans forsæti verður síðan miðvikudaginn 20. september, en í stað sr. Þuríðar Bjargar Wiium Árnadóttir, tekur sæti í stjórninni dr. Arnfríður Guðmundsdóttir prófessor.

 

slg



  • Biskup

  • Flóttafólk

  • Guðfræði

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Lútherska heimssambandið

  • Prestar og djáknar

  • Samstarf

  • Þing

  • Alþjóðastarf