Kyrrðarlyklar

3. nóvember 2023

Kyrrðarlyklar

Nú í aðdraganda jóla er ýmislegt spennandi að koma út hjá Skálholtsútgáfunni.

Eitt af því eru Kyrrðarlyklar en þeir koma út núna í nóvember.

Kyrrðarlyklar eru 86 spjöld sem notuð eru til stuðnings við bæn og íhugun og eiga erindi við allt bænafólk og í raun alla sem hafa áhuga á trú og andlegum iðkunum.

Kyrrðarlyklar veita stuðning við ástundun tveggja bænaaðferða sem eiga rætur sínar að rekja til hugleiðsluhefðar kristinnar trúar.

Þær eru Kyrrðarbæn sem fer fram í þögn og Lectio Divina þar sem beðið er með ritningarvers að leiðarljósi.

Einnig má nota spjöldin í tengslum við annars konar bæna- og íhugunaraðferðir.

Í Kyrrðarlyklum má finna frumsamið og áður óútkomið efni á íslensku í bland við eitt og annað kunnuglegra.

Höfundur Kyrrðarlykla er Bylgja Dís Gunnarsdóttir.

Hún hefur lokið meistaraprófi í tónlist og óperusöng frá Royal Scottish Academy of Music and Drama.

Hún er nemandi í ritlist við Háskóla Íslands og nemandi í andlegri ráðgjöf hjá Leadership Transformations.

Að sögn Bylgju Dísar þá hefur „hugleiðsluhefð kristinnar trúar staðið hjarta hennar nær undanfarin ár og hún iðkar úr þeim ranni Kyrrðarbæn, Lectio Divina og Fagnaðarbæn.“

Hún er með kennsluréttindi í þessum bænaaðferðum frá Contemplative Outreach.

Bylgja Dís starfar sem æskulýðs- og upplýsingafulltrúi hjá Hafnarfjarðarkirkju.

Kyrrðarlyklaspjöldin eru u.þ.b í A5 stærð og koma í veglegri öskju ásamt lítilli bók og er einstaklega fallegur og eigulegur gripur!

Angela Árnadóttir teiknaði og málaði myndir og tákn sem á spjöldunum eru.

„Málverkið er sá miðill sem Angela kýs að vinna með en auk myndlistarinnar hefur hún fengist bæði við klassískan listdans og klassískan söng“ segir Bylgja Dís.

„Hún hefur stundað nám við Listdansskóla Íslands, Söngskólann í Reykjavík, Det Kongelige Teaters Balletskole í Kaupmannahöfn og Akademie für Malerei í Berlín.

Angela hefur einnig lokið MT prófi í list- og listgreinakennslu frá Háskóla Íslands og hélt nýlega sína fyrstu einkasýningu í Akranesvita.“

Um tilurð Kyrrðarlyka segir Bylgja Dís:

„Undanfarin ár hef ég leitt bænahópa og verið með námskeið um Kyrrðarbæn og Lectio Divina.

Ég varð vör við mikinn áhuga en fann að þörf var á íslensku efni til að styðja við áframhaldandi iðkun þessara bænaaðferða þegar heim væri komið.

Á tímabili tók ég að mér að sjá um Facebook-síðu Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi og birti þar tilvitnanir, bænir og ritningarstaði sem ég taldi eiga erindi við kyrrðarbænaiðkendur.

Í kjölfar þess mótaðist hugmyndin af Kyrrðarlyklum, spjöldum sem gætu verið til stuðnings bæði við einstaklingsbænastundir og fyrir hópa.

Ég las, vann hugmyndavinnu og safnaði að mér alls kyns efni í sambandi við Kyrrðarlyklana en það var ekki fyrr en vorið 2021, þegar ég greindist með krabbamein, að hjólin fóru virkilega að snúast.

Í veikindaleyfi frá vinnu og námi fann ég tilgang og gleði við að skrifa Kyrrðarlykla.

Þann 10. júní árið 2021 á leiðinni á Landspítalann í aðgerð, kíkti ég við í Kirkjuhúsinu til Eddu Möller og sagði henni frá Kyrrðarlyklum sem hún samþykkti að Skálholtsútgáfan myndi gefa út þegar þeir væru tilbúnir.

„Það er gott að vinna þessa vinnu á meðan þú tekst á við krabbameinið,“ sagði Edda „því þá eru margir að biðja fyrir þér.“

Og það var hárrétt!

Ég var umvafin hlýjum hugsunum og bænum sem hafa ekki aðeins haft áhrif á heilsu mína, heldur á líf mitt allt.

Suma daga í miðjum heimsfaraldri og í krabbameinsmeðferð voru það Kyrrðarlyklar sem komu mér fram úr á morgnana.

Efni þeirra og innihald kynnti undir von mína og trú og það varð mér ómetanleg blessun í veikindunum.“

Hér má sjá nánar um kyrrðarlyklana.

 

slg


  • Guðfræði

  • List og kirkja

  • Trúin

  • Fræðsla

Biskup Íslands í Grensáskirkju

Biskup Íslands talaði á aðventuhátíð í Grensáskirkju

11. des. 2023
.......60 ára afmæli safnaðarins
Biskup ásamt vígsluþega og vígsluvottum-mynd Pétur Markan

Prestsvígsla í Dómkirkjunni í Reykjavík

11. des. 2023
....sr. Laufey Brá vígð til Setbergsprestakalls