Mörg tákn sem tengja borðið við kristna trú

6. júní 2024

Mörg tákn sem tengja borðið við kristna trú

Nýlega voru haldin sveinspróf í framreiðslu frá matvælasviði Menntaskólans í Kópavogi.

Þau sem þreyttu prófið völdu sér þema.

Kristinn Örn Sigurðsson, sonur sr. Sigurðar Arnarsonar sóknarprests í Kársnesprestakalli og Ingu Rutar Karlsdóttur valdi þemað:

„Kvöldverður hjá Biskupi Íslands“, en afi hans var sr. Karl Sigurbjörnsson fyrrum biskup Íslands og langafi hans var dr. Sigurbjörn Einarsson, sem gegndi sama embætti.

Kristinn Örn naut stuðnings og velvilja frú Agnesar M. Sigurðardóttur núverandi biskups Íslands í verkefninu.

Frú Agnes fór svo og skoðaði verkefnið hjá honum áður en Kristinn Örn tók prófið.

Hér á eftir fer greinagerð Kristins Arnar um verkefnið þar sem hann veltir meðal annars fyrir sér táknum í kristni:

„Borð mitt ber titilinn ,,Kvöldverður hjá biskupi Íslands‘‘.


Borð mitt er til heiðurs afa, honum Karli Sigurbjörnssyni og langafa mínum, honum Sigurbirni Einarssyni sem þjónuðu báðir í embætti sem biskup Íslands.

Langafi þjónaði sem biskup frá 1959-1981 og lést árið 2008.

Afi þjónaði frá 1998-2012 og lést fyrr á þessu ári.

Afi minn var einhver fallegasta manneskja sem ég hef kynnst og kenndi mér margt um lífið.

Um miðja síðustu önn lést hann úr margra ára baráttu við krabbamein.

Borðið á að líkjast borði í hátíðarkvöldverði á Bergstaðastræti 75 (biskupsbústaðnum).

Ýmsir trúarleiðtogar, stjórnmálamenn og þjóðarhöfðingjar hafa fengið boð á biskupsbústað.

Má nefna þegar Margrét II danadrottning kom í opinbera heimsókn og naut kvöldverðar hjá afa og ömmu.


Á borðinu má sjá ýmsa muni í eigu biskupsembættisins.

Auk þess eru mörg tákn sem tengja borðið við kristna trú.

Munnþurkurnar eru í laginu eins og fiskur.

Fiskurinn hefur lengi verið leynitákn kristinna manna.

Kristnir menn merktu ýmislegt með fisk og hugsunin var sú að gríska orðið ,,Ichthys‘‘ sem þýðir einmitt fiskur er skammstöfun.

iesous/Ἰησοῦς - Christos/Χρῑστός - Theoû/Θεοῦ - Ypsilon/hyios - soter/Σωτήρ eða á íslensku Jesús Kristur guðs-sonur freslari.

Einning má nefna dæmisöguna úr Matteusarguðspjalli þegar Jesús breytti fimm brauðum og tveimur fiskum í mat fyrir 5000 manns og er mín hugsun að ég sé að gefa ykkur að borða.

Þó vil ég ekki líkja sjálfum mér við Jesú.

Á hliðarborðinu er ég með nokkra öskubakka frá biskupsbústaðnum.

Þessir öskubakkar hafa ekki verið notaðir lengi, en þó að mínu mati smekklegir.


Biskup sker sig úr öðrum prestum meðal annars með því að klæðaðst fjólubláu.

Fjólublái liturinn merkir það að hlusta á alla og ábyrgðin sem fylgir því að taka ákvarðanir og hvenær að taka ákvarðanir.

Fjólublár er líka litur sjálfsvirðingar, reisnar, sjálfstæði, íhugunar, metnaðs og sköpunargáfu.

Allt eiginleikar sem ég tel að góður framreiðslumaður ætti að hafa.


Blómaskreytingin mín eru samblanda af blómum.

Aðallega rósir.

Ég bæti við fjólubláum lit til að vitna í biskupslitinn.

Rósirnar eru 13 talsins og þær merkja Jesú í miðjunni og hans 12 lærisveina.


Kaleikurinn og patínan sem eru á borðinu eru hluti af sakrímenti sem afi Karl átti.

Síðasta skiptið sem ég hitti hann afa minn þá var pabbi minn, sem er einning prestur, með altarisgöngu fyrir okkur barnabörnin með afa, þá var þetta sett notað.


Svo til hliðar er ég með biblíu nálægt borðinu.

Á öllum betri hótelum í heimi hefur verið sú hefð að vera með biblíu í náttborðinu.

Þessa bibliu fékk ég í gjöf árið 2000.

Hún var gefinn þá út til að fagna 1000 árum af kristni á Íslandi.“

Í lok greinargerðar sinnar segir Kristinn Örn:

Ég vil þakka sr. Agnesi M. Sigurðardóttur, Garðheimum, Expert, Kastrup, Finnsson Bistro, Finni Óskarssyni, ömmu minni, foreldrum mínum, tengdaforeldrum mínum, Freyju Kjartansdóttur, Baldri Sæmundssyni, Hallgrími Sæmundssyni, Kristjáni Sæmundssyni, og Trausta Víglundssyni fyrir hjálp og unnustu minni Rebekku Rós Ragnarsdóttur fyrir andlegan stuðning sem hefur verið ómetanlegur.

Sjá fleiri myndir hér fyrir neðan.slg


Myndir með frétt

  • Biskup

  • Fræðsla

  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Trúin

  • Biblían

Sendinefnd LH með páfa

Í páfagarði

24. jún. 2024
...viðtal við dr. Arnfríði Guðmundsdóttur varaforseta Lútherska heimssambandsins
Sr. Hildur Eir blessar börnin

Kærleikurinn hlustar eftir hjartslætti okkar

24. jún. 2024
... spyr okkur ekki um afrek heldur hlustar eftir hjartslætti okkar, gleði sorgum, vonum og þrám.
Sr. Kristín Þórunn og Torvald æfa tónið fyrir messuna

Sumarstarf kirkjunnar er afar fjölbreytt

24. jún. 2024
...skógarmessa í sumarblíðu