Nærandi helgi fyrir trúarlífið í Skagafirði

27. september 2024

Nærandi helgi fyrir trúarlífið í Skagafirði

Fram undan eru kyrrðardagar og námskeið í Lectio Divina, sem er biblíuleg íhugun, á Löngumýri í Skagafirði sem hjónin Bylgja Dís Gunnarsdóttir og sr. Henning Emil Magnússon sjá um.

Helgin er tilvalið tækifæri til að næra líkama, sál og anda.

Staldrað er við hvernig við getum lesið Biblíuna þannig að orð hennar hafi mótandi áhrif á líf okkar.

Fréttaritara kirkjan.is langaði til að fá meiri vitneskju um þessa helgi og lagði því nokkrar spurningar fyrir þau hjónin.

Hverju á fólk von á sem mætir á Löngumýri?

„Við höfum haldið þetta námskeið tvisvar sinnum áður, einu sinni í Skálholti og svo í Mosfellsbæ“

segir Bylgja Dís.

„Í bæði skiptin voru þetta einstakar helgar.

Kannski mætti segja að þetta sé eins og vítamínssprauta inn í trúarlífið.

Námskeiðið byggist mikið upp á þátttöku, það er ekki mikið um fyrirlestra heldur fær fólk að prófa sjálft og upplifa.

Á þann hátt er þetta mjög nærandi fyrir sálina.

Hluti af helginni fer líka fram í þögn, við hvetjum fólk að slökkva á símanum, hvílast og endurnærast og það er það sem gerist.

Umhverfið á Löngumýri styður vel við það.

Hægt er að fara í sundlaugina eða heita pottinn, fá sér góðan göngutúr, sitja með góða bók eða prjónana í setustofunni.

Við leggjum okkur fram við að halda mjög vel utan um hópinn sem oft tengist vel því við deilum með hvort öðru eftir því sem við á.“

Hvað er Lectio Divina?

„Lectio Divina er stundum kallað biblíuleg íhugun á íslensku og það er nokkuð lýsandi.

Í stuttu máli gengur þetta út á að biðja með orð Guðs að leiðarljósi.

Þessi aðferð er hluti af íhugunararfi kristinnar trúar.

Lectio Divina var lengi vel nánast aðeins stunduð innan veggja klaustranna.

Reyndar á þessi aðferð líka rætur að rekja aftur til gyðingsdóms og því ekki ótrúlegt að Kristur sjálfur hafi þekkt til hennar, hvað veit maður!“

 

Á hvaða hátt er þetta ólíkt venjulegum biblíulestri?

„Maður les á annarskonar hátt en vanalega.

Þetta gengur út á gæði í lestrinum umfram magn.

Við hægjum á, endurtökum, gefum þagnir til að íhuga og hlusta eftir því hvernig Guð talar til okkar í gegnum textann.

Yfirleitt þegar við lesum söfnum við upplýsingum, reynum að skilja vitsmunalega og að setja í tengsl við kenningar og fleira slíkt.

Við reynum þannig að hafa textann á valdi okkar; að túlka hann.

Með þessari aðferð verður nálgunin allt önnur og textinn fer að túlka okkur.

Við förum smátt og smátt að sjá trúargöngu okkar endurspeglast í textum ritningarinnar.

Þannig verður þetta afar persónulegur lestur og í mikilli nánd við Guð því við lesum í bænarþeli.“

 

Hvernig er dagskráin?

„Við iðkum kyrrðarbæn að morgni og síðdegis.

Það eru fjórir stuttir fyrirlestrar, umræðuhópar, síðan prófum við bænaaðferðina á ýmislegt annað en ritninguna sjálfa t.d. myndir, náttúruna, tónlist o.fl.

Þannig að þetta er mjög fjölbreytt.“

 

Hvar kynntust þið þessari bænaaðferð?

„Hjá Kyrrðarbænarsamtökunum á Íslandi og það leiddi til þess að við ákváðum að taka kennsluréttindi í Lectio Divina en í því felst að hitta leiðbeinanda reglulega, lesa bækur og halda tvö námskeið.

Það var mjög gefandi ferli og hafði mjög mótandi áhrif á okkur.“

 

Hvernig getur fólk skráð sig?

„Nánari upplýsingar er að finna inn á kyrrdarbaen.is  en það má líka hafa samband við okkur beint t.d. í síma 661 7719 og tala við Bylgju eða senda póst á kyrrdarbaen@kyrrdarbaen.is“

sögðu þau hjón að lokum.


slg


  • Fræðsla

  • Guðfræði

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Trúin

  • Biblían

Biskup Íslands með Litlu gulu peysuna

Biskup Íslands prjónaði Litlu gulu peysuna

04. okt. 2024
...Litla gula peysan prjónuð í Langholtskirkju til styrktar Lífsbrú
Jónas og Hallveig

Bleikur október byrjar vel

04. okt. 2024
...í Bústaðakirkju
Seltjarnarneskirkja

Mikið um að vera í Seltjarnarneskirkju í október

04. okt. 2024
...Seltjarnarnessókn 50 ára