Gríðarleg eftirspurn hjá Sálgæslu og fjölskylduþjónustu kirkjunnar
Sálgæslu- og fjölskylduþjónusta kirkjunnar er hluti af sálgæslustarfi kirkjunnar og þjónar öllu landinu.
Hún er til húsa í safnaðarheimili Háteigskirkju og er gengið inn að sunnanverðu.
Öllum er heimilt að leita beint til Sálgæslu og fjölskylduþjónustunnar og sumir koma samkvæmt ábendingu prests eða annarra aðila.
Sálgæslu og fjölskylduþjónusta kirkjunnar sér einnig um handleiðslu fyrir presta, djákna og aðra sem starfa á vegum kirkjunnar.
Prestar kirkjunnar um land allt hafa sérstaka viðtalstíma fyrir sóknarbörn sín.
Hjá Sálgæslu og fjölskylduþjónustunni er veitt hjónaráðgjöf, hjónaviðtöl, einstaklingsviðtöl, fjölskylduráðgjöf, fjölskylduviðtöl, sálgæsla, skilnaðaráðgjöf og sambandsráðgjöf.
Fjölskyldufræðingarnir sem starfa þar eru öll með sérmenntun og reynslu í fjölskylduráðgjöf og handleiðslu.
Fjölskyldufræðingarnir hafa samráð sín á milli til að veita sem faglegasta þjónustu.
Starfsfólk þjónustunnar eru Andrea Baldursdóttir, fjölskyldufræðingur, Guðrún Kolbrún Otterstedt, fjölskyldufræðingur, Karen Lind Skjaldberg, prestur og Vigfús Bjarni Albertsson, forstöðumaður.
Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við Vigfús Bjarna og spurði hann um umfang starfsins.
Vigfús Bjarni sagði:
„Hjá þjónustunni er ég og tveir fjölskylduráðgjafar, við tökum um 60 viðtöl á viku.
Þau skiptast í sálgæsluviðtöl, sambúðarviðtöl, fjölskylduviðtöl, handleiðslu og sorgarviðtöl.
Svo er kominn prestur í tilraunaverkefni sem sinnir fólki í ofbeldissamböndum.
Hún er með 20 viðtöl á viku og tvo stuðningshópa.
Að auki eru tveir fjölskylduráðgjafar sem koma að fjölskyldum fanga á vegum félagsmálaráðuneytisins.
Þessar tölur segja ekkert um heildar sálgæslu kirkjunnar, heldur aðeins um starfssemi Sálgæslu og fjölskylduþjónustu kirkjunnar, en eftirspurnin er gríðarleg“
segir Vigfús Bjarni.
slg