Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóvember 2024

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

Halldór Bjarki Arnarson

Nokkuð óvenjulegir tónleikar verða í Breiðholtskirkju á morgun laugardaginn 23. nóvember kl 15:15.

Tónleikarnir bera yfirskriftina: Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma.

Titill tónleikanna er sprottinn af verki á efnisskránni sem samið var af Thomas Tomkins árið 1649:

A Sad Paven for these Distracted Tymes.

Verkið var að öllum líkindum samið í minningu Karls fyrsta Englandskonungs sem tekinn var af lífi það sama ár, en sá atburður gerðist í kjölfar ensku borgarastyrjaldarinnar og leiddi til afnáms konungsvaldsins þar í landi.

Að sögn Hildigunnar Halldórsdóttur er stemningin í verkinu hæg, tregablandin og um leið full togstreitu, en eftir því sem lengra dregur á verkið glittir smám saman í vonarneista um frið og kærleika.

Þetta verk og sögulegt samhengi þess endurspeglar efnisskrána í heild sinni, sem kanna á eiginleika tónlistar sem eins konar hugleiðsluaðferð í óreiðukenndum heimi.

Í tilkynningu frá henni segir:

„Á 16. og 17. öld var tónlist talin græðandi meðal við ýmsum kvillum líkama og sálar, og hafði það hlutverk að koma á jafnvægi hið ytra og innra.

Í mörgum tónverkum þess tíma má finna eins konar „möntrur“, stef sem koma aftur og aftur í meira og minna óbreyttri mynd á meðan hljómvefurinn í kringum þau er síbreytilegur.“


Halldór Bjarki Arnarson er ungur tónlistarmaður sem farið hefur um víðan völl í músíkheimi Íslands og Evrópu.

Hann stundaði fyrst nám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og hlaut síðar tvær bakkalársgráður, eina í hornleik og aðra í semballeik frá tónlistarháskólunum í Hannover og Den Haag.

Halldór lauk meistaranámi í semballeik árið 2022 frá Schola Cantorum Basiliensis í Sviss og hlaut fyrir lokatónleikana sína námsverðlaun úr sjóði Walters & Corinu Christen-Marchal.

Í kjölfarið lagði hann stund á nám í sögulegum spuna á sembal og orgel við hinn sama skóla og hlaut sína aðra meistaragráðu síðastliðið vor.

Nú starfar Halldór sem organisti við Kirkju Heilags Anda í Suhr í Sviss.

Halldór er fastur meðlimur tónlistarhópsins Amaconsort sem hreppti fyrstu verðlaun í hinni virtu „Van Wassenaer“ keppni í Utrecht sumarið 2021.

Íslenskir tónleikagestir þekkja hópinn frá Sumartónleikum í Skálholti, 15:15 í Breiðholtskirkju og Reykjavík Early Music Festival 2024.

Samhliða því spilar Halldór með Ensemble histoirefuture í verkefninu Musica Transalpina sem rannsakar tengingu tónlistar og náttúrulífs í og við Alpafjöll.

Hann hefur komið frám á sviðum virtra tónlistarhátíða, þar á meðal Luzern Festival, Amsterdam Grachtenfestival, Laus Polyphoniae Antwerpen og FIAS Madrid.

Þrátt fyrir erlenda búsetu stígur Halldór reglulega á svið á Íslandi og sérhæfing hans í tónlist fyrri alda hefur lagt mikið til íslenskrar barokksenu síðustu árin.

Hann hefur haldið einleikstónleika í Hörpu og Salnum í Kópavogi og spilað með Barokkbandinu Brák, Kammersveit Reykjavíkur og Kammeróperunni svo eitthvað sé nefnt.

Einnig hefur Halldór lagt mark sitt á endurreisn íslenskrar þjóðlagatónlistar með tónlistarhópnum Spilmenn Ríkínís.

Halldór hefur hlotið styrki úr minningarsjóðum Emils Thoroddsens og Karls Sighvatssonar og er stjórnarmeðlimur Sumartónleika í Skálholti frá og með árinu 2024.

slg


  • List og kirkja

  • Menning

  • Tónlist

  • Kirkjustaðir

Prestur og biskup Íslands

Gamalli hefð haldið við

02. des. 2024
...messa í Háskólakapellunni á fullveldisdaginn
Barokkbandið Brák

Aðventuhátíðir um allt land

29. nóv. 2024
...Bach á aðventunni í Hallgrímskirkju
Flokkarnir.jpg - mynd

Mikil jákvæðni í svörum flokkana við spurningum Þjóðkirkjunnar

28. nóv. 2024
Frambjóðendur í Alþingiskosningum svöruðu spurningum Þjóðkirkjunnar. Greina má töluverða jákvæðni gagnvart kirkjunni í svörum flokkana. Svör frambjóðenda eru hér birt í heild sinni.